The Talented Mr. Minghella

Anthony Minghella Leikstjórinn Anthony Minghella er látinn, langt fyrir aldur fram. Minghella var einn listamannanna í kvikmyndabransanum. Hann leikstýrði fáum kvikmyndum en vandaði mjög til verka og er minnst fyrir handbragð sitt sem þótti næmt og traust. Hann gerði oftast langar myndir þar sem allur myndramminn var eins og best gat orðið, með góðu handriti og hann náði vel til leikara sinna sem áttu stjörnuleik í myndum hans.

The English Patient er að mínu mati ein besta kvikmynd tíunda áratugarins. Hún er meistaraverk síns tíma, virkilega vel gerð og leikurinn í henni er frábær. Hún hlaut níu óskarsverðlaun á sínum tíma, t.d. sem besta kvikmynd ársins 1996, fyrir leik Juliette Binoche, hina undurfögru kvikmyndatöku og Minghella hlaut leikstjóraóskarinn. Myndin er ekki allra en fyrir fagurkera á kvikmyndir er þetta ein af hinum ómissandi myndum tíunda áratugarins - sannkallað listaverk sem fangar tíðarandann.

The Talented Mr. Ripley er líka mjög góð mynd. Það er mynd sem mörgum fannst of löng og sundurlaus í endinn. Fangaði mig samt, hún er skemmtileg blanda af náttúrufegurð og heillandi lífsgleði en snýr svo við blaðinu undir lokin og breytist í kalda spennumynd sem mörgum fannst aldrei ætla að enda á meðan að fagurkerarnir sáu svo margt skemmtilegt við hana. Fannst t.d. Matt Damon ná hápunkti á ferli sínum þar og Jude Law hlaut óskarstilnefningu fyrir þessa bestu stund síns ferils.

Cold Mountain er líka ein af þessum myndum; tekur marga vinkla og stekkur fram og til baka í kómík og alvöru - gerir það líka svo virkilega vel. Þar er Nicole Kidman í toppformi, Jude Law er auðvitað algjörlega magnaður sem Inman og svo er Renée Zellweger algjörlega brilljant (og fékk óskarinn) sem óslípaða suðurríkjakjarnakonan Ruby. Hún er líka umdeild fyrir það að vera kannski einum of löng og taka of marga vinkla. En hún er samt mjög vel gerð og handbragðið er traust.



Minghella átti farsælan feril sem leikhúsmaður og gerði þar mörg sín bestu verk - var metinn mikils af gagnrýnendum og að margra mati var hann leikhúsmaður í kvikmyndagerð; ræktaði allar hliðar verksins. En hápunkturinn hans er The English Patient, hin frábæra háklassamynd, sem heldur merki hans hátt á lofti.

Það voru margir sem vissu ekkert hver Minghella var þegar að hann fangaði hug og hjarta akademíunnar fyrir áratug. Það var hans sigurstund og öll hans verk eftir það voru borin saman við þá meistarasmíð. Enda toppaði hann það lykilverk tíunda áratugarins aldrei.

Hann kunni þá list að gera stórar og vel gerðar háklassamyndir og myndirnar hans hafa allar þann stimpil að vel var nostrað við þær, sumar kannski einum of. Hann var listamaður sem kunni sitt verk og gerði myndir sem munu lifa.



Þetta atriði, undir lok kvikmyndarinnar The English Patient, er eitt hið besta í seinni tíma kvikmyndagerð að mínu mati. Frábærlega gert, meistarasmíð.

mbl.is Anthony Minghella látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Og það var skandall þegar Ralph Fiennes fékk ekki óskarinn fyrir framistöðu sína í EP. En hann átti líka að fá alla vega tilnefningu fyrir Spider þannig að þetta er ekkert nýtt. Kannski akademíunni finnist hann ekki hafa gert neitt merkilegt eftir Schindler's list.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 18.3.2008 kl. 17:40

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentið Kristín.

Mér fannst mesti skandallinn þegar að hvorki Fiennes né Neeson fengu óskarinn fyrir Schindler´s List. Geoffrey Rush vann árið sem Fiennes var tilnefndur fyrir EP, en hann var alveg yndislega góður í Shine sem David Helfgott. Meistaraleikur. Finnst þetta vera bestu myndir hans auk þess sem nefna má Quiz Show og Red Dragon.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 18.3.2008 kl. 20:33

3 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Fyrir mína parta átti Fargo að fá Óskarinn 1996 sem besta mynd - finnst miklu, miklu meira varið í hana en EP.

Eftirlætismyndir mínar með Ralph Fiennes ([reif fæns] fyrir þá sem ekki eru með framburðinn á nafni hans á hreinu) eru hinsvegar cyber-tryllirinn Strange Days frá 1995 og sú frábæra The Constant Gardener. Ólíkar en snilldarmyndir, báðar tvær.

Jón Agnar Ólason, 19.3.2008 kl. 13:13

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Fargo er virkilega góð mynd, en The English Patient er bara svo sterk sem kvikmyndaverk; þar fléttast allt saman svo listavel, handritið frábært, kvikmyndatakan falleg og leikurinn svo innilegur að myndin er algjört meistaraverk. Enda mikið nostrað við hana og þetta er eins og fallegt málverk, mósaík sem nær svo vel saman í lokin. Þessi mynd er ekki allra en þetta er mynd fyrir fagurkerana. Óskarinn hefur oft farið til slíkra mynda og gerði það þetta árið. En Fargo á allt gott skilið. The Constant Gardener er auðvitað snilldarmynd, gleymdi henni í upptalningunni. Hún er alveg listagóð.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 21.3.2008 kl. 15:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband