Halldór tilnefndur í norræna toppstöðu

Halldór Ásgrímsson

Flest bendir nú til þess að Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, verði tilnefndur af Íslands hálfu í embætti framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. Mikið hefur verið hugleitt eftir að Halldór hætti þátttöku í stjórnmálum eftir rúmlega þriggja áratuga feril sinn hvað hann myndi takast á hendur og virðist svarið við því vera að koma í ljós. Það hefur aldrei gerst áður að Íslendingur gegni þessu embætti og virðist stefna í átök milli Íslendinga og Finna um hnossið. Halldór, sem var forsætisráðherra í tvö ár, utanríkisráðherra í rúm níu ár (lengur en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður), og að auki sjávarútvegs- og dómsmálaráðherra, hlýtur að teljast hafa sterka stöðu í þessum efnum.

Halldór Ásgrímsson var það lengi í stjórnmálum að víða ná þræðir hans í samskiptum við forystumenn norrænna stjórnmála. Það bendir nú allt til þess að Jónína Bjartmarz, samstarfsráðherra Norðurlanda hafi í hyggju að tilnefna Halldór til þessa embættis og hann verði valkostur okkar. Fyrir liggur nú þegar að íslensk stjórnvöld vilji fá sinn fulltrúa í embættið og má telja Halldór með mjög sterka stöðu í þeim efnum eftir langan pólitískan feril. Virðist grunnvinna þessa alls vera komin nokkuð langt á leið, en fyrirhugað er að valið fari fram eigi síðar en á Norðurlandaráðsþingi innan skamms.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu og hvort að Halldór Ásgrímsson verði framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Fari svo yrði hann sem slíkur staðsettur í Kaupmannahöfn og þyrfti því að huga að búferlaflutningum yfir hafið í borgina við sundin.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband