Ránsalda í Breiðholti - ólánsfólkið í borginni

Kaskó í BreiðholtiÞað eru, því miður, ekki lengur stórtíðindi að ræningjar fari í verslanir á höfuðborgarsvæðinu í von um einhverja peninga - þetta er fjórða ránið í Breiðholtinu á örfáum dögum. Það vekur þó mesta athygli að ræningjarnir hylja ekki einu sinni andlit sitt við ránið og sé sama, svo fremi að þeir fái aðeins peninga.

Það sem er merkilegt líka er að vopnin sem ræningjarnir hafa í nýjustu ránunum eru fjarri því hefðbundin. Það verður seint sagt allavega að sprautunálar og garðklippur séu hefðbundin vopn. Það hefur ekkert verið gefið upp um ástæðu ránsins en þetta lítur þannig út hið minnsta að þarna fari ólánsmenn í leit að peningum, og gildi þá einu hversu mikið haft er upp úr krafsinu.

Það virðist vera sem að þarna sé um að ræða fólk sem vantar smá skotsilfur í vasann sem tekur þá ákvörðun að grípa til vopna og ráðast inn í næstu verslun til að reyna að fá sér einhvern pening. Þetta hefur verið svipað í fleiri ránum á síðustu mánuðum. Það hlýtur að vera orðin mikil örvænting hjá þeim sem fara inn í næstu verslun til að stela einhverjum seðlum og hylja ekki einu sinni andlit sitt í leiðinni. Í þessu grasklippuráni í Kaskó finnst mér aðallega standa eftir hversu mikið ólán þessara manna er.

Það virðist vera sem að ræningjunum sé orðið algjörlega sama um allt nema að það fái pening til að fjármagna neyslu sína eða almenna óreglu. Það er dapurleg þróun og mér finnst þessi rán öll sýna okkur vel hversu mikið ólán vofir yfir ungu fólki og það sé öllum ráðum beitt til að ná peningum. Ekki glæsilegt - en svona er víst Ísland í dag.


mbl.is Rændu búð með garðklippum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Hjörtur

ÞAð er nú meira hvað þú ert upptekinn af Breiðholtinu Stefán.

Sveinn Hjörtur , 29.3.2008 kl. 23:58

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Ólafur: Þær fréttir sem ég heyrði af þessu fyrst voru að þetta væru menn um tvítugt. Það er greinilega ekki rétt en í sjálfu sér finnst mér engu skipta hvort þessir menn eru um tvítugt eða þrítugt. Vandinn sem blasir við er ekkert skárri þó að það muni um tíu árum í aldri. Það er mikið vandamál í samfélaginu og það er að koma fram í þessum endalausu ránum og ofbeldisárásum sem verða sífellt meira brútal.

Sveinn Hjörtur: Ég á marga vini í Breiðholtinu og hef oft komið þangað. Það er margt gott við það. Hinsvegar er alveg ljóst að það er ránsalda í hverfinu og það er ekki langt síðan að grimmdarlegt ofbeldisverk átti sér stað. Það er ekki hægt annað en setja þessi mál öll á örfáum dögum í samhengi og velta því fyrir sér hvað sé að gerast. Breiðholtið er kannski ekki versta íbúðarhverfi landsins en það er í sviðsljósinu vegna þessara mála og eðlilegt að því sé velt fyrir sér.

Stefán Friðrik Stefánsson, 30.3.2008 kl. 00:06

3 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæll Stefán. Ég vann hjá 112 í mörg ár. Erfiðustu hverfin voru þau sem þotuliðið var í. Það er ekki talað um það skal ég segja þér. Svæði eins og Garðabær og fl. staðir voru eftirtektarverðir en það var lítið talað um það. Þetta er kannski svipað og sagt var hér í denn fyrir norðan þegar eitthvað gerðist að þá hafi "aðkomumaður" verið þar á ferð!?!

Á margan hátt eru gríðarlegir fordómar í gangi í garð Breiðholtsins núna. Mín skoðun er sú að þú, sem á margan hátt  ert oft að blogga hér um ýmislegt og oft á tíðum að endursegja fréttir, og aðrir sem skilja ekkert í veggjakroti, pólverjum sem rífast, eða öðru sem gengur á í Breiðholtinu, ert ekki að hjálpa til við að eyða fordómum í garð Breiðholtsins. Spurðu félaga þína af því!

Það er ekkert betra ástandið í 101, eða annarsstaðar. Breiðholtið er með eina umferðamestu bensínstöð hjá sér sem er Select í Suðurfelli og þar eru margir sem fara um. 

Gangi þér vel, 

Sveinn Hjörtur , 30.3.2008 kl. 00:36

4 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Eitt annað sem ég gleymdi, en það er til að undirstrika það sem ég er að segja með fordómana, en það er fyrirsögn þín á greininni;

Ránsalda í Breiðholti - ólánsfólkið í borginni (er bara ólánsfólk í Breiðholti?)

Sveinn Hjörtur , 30.3.2008 kl. 00:39

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég hef vissulega skrifað um þessi mál og velt þeim fyrir mér. Hef reyndar oft talað um samfélagið allt í þeim efnum, enda er þessi vonda staða sem kemur fram t.d. í Breiðholtinu dæmi um hvert stefnir víða í samfélaginu. Dópneysla og almenn óregla hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og ég held að ég hafi ekki skrifað neikvæðast í garð eins né neins að undanförnu.

Ef fólk þolir ekki að fjallað sé um stöðuna í Breiðholtinu væri sennilega heiðarlegast fyrir þá sem unna hverfinu að fá fjölmiðla til að hætta að birta neikvæðar fréttir þaðan. Það breytir samt ekki staðreyndum að neinu leyti.

Það eru staðreyndir að þrjú sprautunálarán voru í hverfinu á jafnmörgum dögum, pólskir menn voru barðir í klessu með gaddakylfu, steypustyrktarjárni, rörbútum og guð má vita hverju fleira, og matvöruverslanir hafa verið rændar.

Það er ekkert hægt að kalla þessi fjögur til fimm rán á örfáum dögum neinu öðru nafni en ránsöldu í besta falli. Þetta er samt ekkert einstakt mál bara í  Breiðholti. Fleiri verslanir hafa verið rændar, nægir þar að nefna verslun á Grensásveg og það tvisvar á innan við hálfum mánuði.

Það er algjör fjarstæða að ég hafi eitthvað verið að skrifa bara um vandamál í Breiðholtinu. Þegar að fíkniefnafaraldurinn var áberandi á Akureyri fyrir þrem árum skrifaði ég mjög mikið um það og ég ræddi þau mál alveg hreint út og ég held að við höfum öll gert það hér, lyftum meira að segja upp rauða spjaldinu gegn þessum vágesti í fjölskyldubænum Akureyri, sem við vildum ekki að yrði kenndur við sukk og svínarí. Ég var ekkert að tala um aðkomumenn í því samhengi.

Þessi fyrirsögn er mjög eðlileg. Talað er um ránsöldu í Breiðholti, sem er staðreynd - þú getur ekkert snúið út úr því - og ólánsfólkið í borginni. Það hefur varla liðið sá mánuður og stundum vikurnar að undanförnu að verslanir séu ekki rændar í borginni, í flestum tilfellum er það ólánsfólk sem vantar pening fyrir neyslu sinni sem stendur að því.

Þetta er mikill vandi og þarf að tala um hann, ekki þaga hann í hel. Það leysir engan vanda, hvorki fyrir borgarbúa né landsmenn alla.

Stefán Friðrik Stefánsson, 30.3.2008 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband