Meistaraverkið Casablanca - helgispjöll Madonnu

Casablanca

Sú kvikmynd sem ég met einna mest er hið ódauðlega meistaraverk Casablanca - sígilt klassaverk sem hefur allt sem prýða þarf fullkomna kvikmynd. Hefur hlotið sæmdartitilinn besta kvikmynd 20. aldarinnar og verðskuldar hann sannarlega. Hún var aðeins ein myndanna á færibandinu í vinnslu á sínum tíma en varð stærri en mörgum óraði fyrir. Casablanca fangaði hug og hjarta kvikmyndaáhorfandans fyrir tæpum sjötíu árum og á sess í huga flestra enn í dag.

Nú berast fregnir af því að endurgera eigi Casablanca og það af Madonnu. Þvílíka fíaskóið sem það stefnir í að verða fyrirfram. Hugnast ekki vel að endurgera eigi þennan gullmola kvikmyndasögunnar. Það er reyndar svo að fátt fer eins mikið í pirrurnar á mér og að heyra af því að endurgera eigi gömul meistaraverk. Enda er það tilgangslaust að mínu mati. Vilji fólk upplifa perlurnar á það að kaupa sér gömlu myndirnar og sjá þær. Það fangar enginn sama góða neistann síðar, eða það er jafnan svo að svona endurgerðir floppa með einum hætti eða öðrum. Þannig að það jaðrar við helgispjöll að mínu mati að endurgera Casablanca.

Casablanca segir söguna af kaffihúsaeigandanum Rick í Casablanca
í Marokkó í seinni heimsstyrjöldinni og ævintýrum hans. Af öllum búllum í öllum heiminum verður gamla kærastan hans, Ilsa, endilega að stíga fæti sínum inn á staðinn hans með ástvini sínum, foringja í frönsku andspyrnuhreyfingunni sem er á flótta undan nasistum, og þá hefst óvænt og stórskemmtileg atburðarás sem endar með einni eftirminnilegustu kveðjustund í kvikmyndasögunni, þegar að Ilsa stendur frammi fyrir erfiðu vali. Mér finnst þessi mynd einstök og þarf helst að sjá hana reglulega. Finnst hún eins og gott rauðvín, sem aðeins batnar með aldrinum. Myndir með svo góðan grunn verða aldrei lélegar.

Humphrey Bogart átti sína eftirminnilegustu kvikmyndatúlkun á litríkum leikferli í þessari mynd en Rick varð það hlutverk sem hans er minnst helst fyrir. Þetta er líka sterkasta karaktertúlkun hans, þó þær séu margar góðar. Bogart, sem var valinn besti leikari 20. aldarinnar skömmu fyrir aldamótin, fékk þó ekki óskarsverðlaunin fyrir leik fyrr en seint og um síðir árið 1952, skömmu fyrir andlát sitt, fyrir túlkun sína á hinum óheflaða Charlie Allnut í African Queen, sem var reyndar með hans bestu kvikmyndum. Ingrid Bergman var ein besta leikkona 20. aldarinnar og glansaði í hlutverki Ilsu. Hún hlaut óskarsverðlaun alls þrisvar sinnum á ferlinum en tókst þó ekki að vinna hann fyrir að leika Ilsu.

Persónulega finnst mér besta leiktúlkun Ingrid vera í Haustsónötu Ingmars Bergmans, sem varð svanasöngur hennar á hvíta tjaldinu. Klassinn yfir Ingrid varð þó aldrei meiri en í Casablanca, þó að nærri fari það í Notorious, Anastasiu, Gaslight og For Whom the Bell Tolls. Túlkun hennar á sænska kristniboðanum í Murder on the Orient Express sem færði henni síðasta óskarinn árið 1975 er líka gríðarlega góð. Claude Rains var gríðarlega góður leikari, einn eftirminnilegasti aukaleikari kvikmyndasögunnar, sem þó náði alltaf athygli kvikmyndaáhorfandans. Hann glansaði best á sínum ferli í hlutverki lögreglustjórans í Casablanca. Hann átti síðar frábæran samleik með Ingrid í Notorious.

Casablanca
er ein af bestu kvikmyndum sögunnar og er ein þeirra sem ég met mest. Hún verður alltaf meira heillandi eftir því sem árin líða og verða atriðin í henni þess þá meira heillandi, nefni ég þá sem dæmi atriðið þar sem Ilsa og píanóleikarinn Sam sitja við flygilinn og Sam leikur óskarsverðlaunalagið undurfagra As Time Goes By og lokaatriði myndarinnar sem gerist á flugvellinum þar sem framtíð sambands Ricks og Ilsu ræðst endanlega. Það atriði er alveg klassík út af fyrir sig.

Ætla að vona að menn hætti við þessar endurgerðarpælingar. Fyrir nokkrum árum ætluðu Ben Affleck og Jennifer Lopez að endurgera myndina með sér sjálfum í aðalhlutverkum og svo einhverjir Indverjar í fyrra. Til allrar guðs lukku varð ekki af þeim hryllingi. Þeir sem hafa séð Gigli þurfa varla að hugsa meira um hversu skelfilegt það hefði orðið og ekki hefði verið þægilegt að sjá indverska versíón af Casablanca.

En þeir sem hafa ekki enn séð Casablanca þurfa að upplifa hana, allavega einu sinni. Það gæti
orðið upphafið að einstakri vináttu. Þeir sem vilja upplifa stemmninguna í myndinni ættu að fara í tónlistarspilarann og hlusta á Dooley Wilson syngja As Time Goes By.

Hvað Madonnu varðar skulum við vona að einhverjir gáfumenn í kringum hana fái hana frekar til að syngja gömlu lögin sín aftur en að fokkast í að endurgera Casablanca.


mbl.is Madonna endurgerir Casablanca
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú hefur þá líklega ekki séð þáttaröðina sem gerð var eftir sögu Casablanca (http://imdb.com/title/tt0084994/). Ég veit ekki hvort Madonna getur gert mikið verr nema semja við djöfulinn fyrst ...

Arngrímur Vídalín (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 14:16

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

þetta er ein af mínum uppáhalds myndum ef ekki best!!!!!Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 31.3.2008 kl. 17:45

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Arngrímur: Hef ekki séð hana (sem betur fer) en heyrt af henni. Minntist þó ekki á hana, svosem af ráðnum hug, enda vildi ég bara nefna kvikmyndapælingarnar um myndina. Það er vonandi að þessi mynd verði aldrei endurgerð, enda engin þörf á því. Snilld hennar þarf engrar viðbótar við.

Páll: Við erum greinilega með mjög líkan kvikmyndasmekk. Ég er reyndar mikill áhugamaður um gamlar myndir og á mjög mikið af þeim. Klikka aldrei. Þessar myndir sem þú telur upp eru auðvitað gulls ígildi. :)

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 1.4.2008 kl. 20:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband