Flott prófkjörsbarátta sjálfstæðiskvenna í Rvk

Guðfinna Ásta Möller Sigga Andersen Dögg Pálsdóttir

Það er ánægjulegt að fylgjast með prófkjörsátökunum sem eru í gangi um allt land úr hæfilegri fjarlægð. Það er notalegt að geta sagt það sem manni finnst af krafti. Hef fylgst mjög með prófkjörsslag sjálfstæðismanna í Reykjavík. Þar eru kjördagar á föstudag og laugardag, úrslitastundin nálgast því óðfluga. Í prófkjörinu í nóvember 2002 var mikið talað um að sjálfstæðiskonur hafi fengið skell. Það er ekki óeðlileg ályktun á málum, enda komust aðeins Sólveig Pétursdóttir og Ásta Möller inn á topp tíu listann og í kosningunum um vorið komst aðeins Sólveig inn á þing, þó vissulega hafi Ásta komist svo á þing að nýju við brotthvarf Davíðs Oddssonar haustið 2005.

Mér finnst prófkjörsbarátta sjálfstæðiskvenna að þessu sinni hafa verið litrík og fersk. Það eru viss tímamót að Sólveig Pétursdóttir er að hætta, hún er ekki í prófkjörinu og það eru því vissulega sóknarfæri fyrir nýjar konur að sækja fram og Ásta Möller fer sem sitjandi þingmaður fram til forystu. Allar konurnar sem fara fram núna eru frambærilegar og öflugar, hver á sinn hátt. Mér finnst prófkjörsbarátta þeirra og krafturinn sem sést í henni mjög fínn. Sérstaklega eru þær allar á réttri leið í vefmálum, en eins og allir alvöru stjórnmálaáhugamenn vita er vefsíða essential lykilatriði í svona kosningaslag, vilji frambjóðandi yfir höfuð ná að koma boðskap á framfæri.

Sérstaklega finnst mér mikill ferskleiki yfir prófkjörsbaráttu Sigríðar Á. Andersen og Guðfinnu S. Bjarnadóttur, sem eru báðar með prófkjörsskrifstofu í gamla Landssímahúsinu við Austurvöll. Sigga hefur verið litrík og fersk með flotta litatóna í baráttunni og hressandi kraft sem skilar sér alla leið til þess sem með fylgist. Það er altént mitt mat. Hennar barátta er björt og hress, slær flotta lykiltóna sem skipta máli. Guðfinna fer fram að hætti menntakonunnar sem sækist eftir áhrifum á vettvangi stjórnmála, kemur með reynslu og sóknarfæri sem valkost fyrir flokkinn sinn. Hún er líka með tóna valfrelsi og skapandi umhverfis í baráttunni, tóna sem láta vel í eyrum okkar allra.

Ásta Möller býður reynslu fyrir kjósendur. Hún er sitjandi þingmaður, með mikla þekkingu á stöðu mála og virðist vera með góðan stuðning lykilfólks, t.d. er Ragnhildur Helgadóttir, annar kvenráðherra landsmanna og þekkt forystukona innan Sjálfstæðisflokksins um árabil, stuðningskona hennar og talar hennar máli af krafti. Það er styrkleiki fyrir Ástu að hafa Ragnhildi í sínum röðum, enda Ragnhildur virt forystukona frá fyrri tíð. Ekki finnst mér hafa komið nægilega vel fram hverja Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, styðji til forystu af hálfu kvennaarmsins. Sólveig hefur verið forystukona á listanum frá tímum Ragnhildar - hennar afstaða skiptir máli.

Dögg Pálsdóttir hefur verið með flottan vef og hressileg í prófkjörsslagnum. Dagbókin hennar er vel uppfærð á vefnum og hún veit vel hvaða áherslur eru réttar. Það voru margir hissa þegar að hún gaf kost á sér, enda er hún virtur lögfræðingur og þekkt fyrir verk sín á því sviði. Nú vill hún verða stjórnmálamaður í fremstu röð innan Sjálfstæðisflokksins og það verður fróðlegt að sjá hvort henni tekst að byggja sig upp með þeim krafti sem til þess þarf.

Altént stefnir í spennandi helgi. Það verður sérstaklega spennandi að sjá hvernig þessum konum muni ganga og með því verður fylgst þegar að tölurnar taka að berast síðdegis á laugardag. Ég vona að þeim gangi vel, enda eru þetta allt kjarnakonur sem verðskulda gott gengi í prófkjöri og verður fengur að í þingkosningum að vori fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband