Snillingurinn Morricone og meistaraverkin hans

Ennio Morricone Er að horfa á ítalska kvikmyndatónskáldið Ennio Morricone stjórna útvarpshljómsveitinni í Berlín við að leika meistaraverkin hans í Sjónvarpinu. Þvílík snilld. Að mínu mati er Morricone besta kvikmyndatónskáld allra tíma, með sterk höfundareinkenni og fágaður í verkum sínum en samt svo djarfur í tilraunum sínum með tónlistarform kvikmyndanna.

Morricone hefur samið fagra tóna sem hafa prýtt stórmyndir í yfir hálfa öld. Hann hóf feril sinn með því að semja hina ódauðlegu tónlist í Spagettívestrum Sergio Leone. Allir þeir sem horft hafa á Cinema Paradiso (uppáhaldsmyndin mín), The Untouchables, A Fistful of Dollars, The Good, The Bad & The Ugly, The Mission, Love Affair, My Name is Nobody, Unforgiven, Malena, Bugsy, In the Line of Fire og Frantic (svo aðeins örfá dæmi eru nefnd) muna eftir ógleymanlegri tónlist þessa mikla meistara, sem setti órjúfanlegan svip sinn á þær.

Spagettívestratónlistin er einstök að öllu leyti og ekki hægt að bera hana saman við neitt. Mikil snilld sem eru alveg í sérflokki. Utan þeirra verka standa fjögur verk eftir sem það besta sem hann hefur gert: það eru Gabriel´s Oboe úr The Mission, The Death Theme úr The Untouchables, Harvest úr Days of Heaven og síðast en ekki síst Love Theme úr Cinema Paradiso (sem er að mínu mati fallegasta kvikmyndastef seinustu aldar). Öll snerta þau hjarta sannra kvikmyndaunnenda - svo falleg eru þau.

Þrátt fyrir óumdeilda snilld sína hefur meistari Morricone aldrei hlotið óskarinn fyrir kvikmyndatónlist sína, þrátt fyrir ótalmargar tilnefningar. Hann hlaut hinsvegar heiðursóskarinn í Los Angeles í febrúar 2007 - var það síðbúinn og löngu verðskuldaður virðingarvottur við æviframlag þessa mikla meistara til kvikmyndamenningarinnar.

Morricone hefur alltaf kunnað þá list að semja tónlist sem hittir í hjartastað. Eitt fallegasta kvikmyndatónverk hans, Heaven úr Days of Heaven, er í tónlistarspilaranum auk hins frábæra lags Cavallina a Cavallo sem hann samdi sérstaklega fyrir Ciccolinu, og hún söng svo eftirminnilega, og stefsins í The Untouchables.

Morricone er sannkallaður meistari kvikmyndatónlistarinnar. Hann er maður tilfinninga í tónlist kvikmyndanna og um leið djarfur í sköpun sinni. Þakka innilega Sjónvarpinu fyrir að færa okkur kvikmyndaáhugafólki þessa fögru kvikmyndatóna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott hjá þér að nefna Morricone, enda er hann bestur. En þau verk hans sem eru í mestu uppáhaldi hjá mér eru þau fyrstu, sérstaklega myndirnir hans Sergio Leone, tónlistin þar er tær snilld en við erum að tala um kvikmyndatónlist, og ekki síst sú síðasta, Once Upon A Time In America (´84). Fáir hafa verið jafn útsjónarsamir að nýta sér utanaðkomandi hljóð í kvikmyndmyndatónlist, sbr. byssuhvellina í þriðju dollaramyndinni.

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 00:15

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Helgi.

Alveg sammála þér með tónlistina í spagettívestrunum. Algjör snilld. Tek undir hvert orð.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.4.2008 kl. 01:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband