Æviminningar Gerhards Schröder

Gerhard Schröder

Um þessar mundir er ár liðið frá því að Gerhard Schröder missti stöðu sína sem einn valdamesti stjórnmálamaður heims eftir tap í þýsku þingkosningunum, sem mörkuðu valdaskipti í þýskri pólitík. Schröder var í sjö ár einn valdamesti maður heims, lykilforystumaður í alþjóðastjórnmálum. Hann var kanslari Þýskalands árin 1998-2005 og stýrði þýskum jafnaðarmönnum af miklum krafti. Litlu munaði að honum tækist að snúa vörn í sókn fyrir vinstrimenn í þingkosningunum í Þýskalandi í september 2005 en svo fór að tap varð ekki umflúið og að endalokum valdaferilsins kom formlega þann 22. nóvember 2005 þegar að Angela Merkel, leiðtogi CDU, varð kanslari í hans stað.

Nú hefur Schröder gefið út æviminningar sínar og fer þar að mestu yfir stormasaman stjórnmálaferil sinn, sem héraðshöfðingi í Neðra-Saxlandi og sem kanslari Þýskalands. Einn af lykiltímum valdaferils hans í Berlín var aðdragandi og lykiltími Íraksstríðsins. Hann deildi af hörku við George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, og samskipti stórveldanna riðuðu til falls. Svo fór að lokum að þeir töluðust vart við og Bush virti Schröder og ríkisstjórn hans vart viðlits. Sömdu þeir þó frið nokkrum mánuðum áður en Schröder missti kanslaraembættið á sögulegum fundi í Þýskalandsheimsókn George W. Bush árið 2005. Þrátt fyrir kuldaleg samskipti náðu þeir að milda tengslin.

Í æviminningum sínum fer Schröder yfir þessi mál vel. Gagnrýnir hann Bush forseta og stjórn hans harkalega fyrir fyrir endalausar vísanir í Guð í aðdraganda stríðsins og grimmd hans sem markaðist af ísköldum samskiptum þjóðanna nær allan valdaferil Bush, eftir að hann vogaði sér að gagnrýna forsetann og forystu hans opinberlega. Schröder fer með áberandi hætti yfir sjö ár valdaferilsins og sérstaka athygli vekur að hann talar af hörku og stingandi kulda um dr. Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sem nú ríkir í stóru samsteypu hægrimanna og krata. Kallar Schröder hana veikburða og litlausan leiðtoga í bókinni.

Merkel og Schröder tókust harkalega á í kosningaslagnum í fyrra, sem varð upphafið að endalokum stjórnmálaferils Schröders. Sjarmi kanslarans og persónutöfrar í samskiptum við almenning voru þar helsti kostur hans. Angela þótti hafa mun minni útgeislun - en hún talaði hreint út um málin, var með ákveðna stefnu og mikla pólitíska plotthæfileika. Það var þó ekki sýnilegt á sjónvarpsskjánum. Sjarmi Schröders var hans stærsti kostur í stjórnmálum og litlu munaði að hann ynni kosningarnar 2005 á þeim sjarma sínum. Markaðist það af því að hann vildi fleiri sjónvarpskappræður. Allir vita að Schröder þolir ekki Merkel og varla undur að hann ráðist að henni nú.

Gaman að lesa um þessa bók, það verður svo sannarlega áhugavert að fá sér hana og lesa. Þó að ég hafi jafnan ekki haft áhuga á Gerhard Schröder sem stjórnmálamanni var hann mikill áhrifamaður og hefur merka sögu að segja. Stefni ég að því að lesa þessa hlið hans á málum. Það væri hinsvegar gaman að heyra skoðun Angelu Merkel á þessum pólitísku æviminningum forverans á kanslarastólnum í Berlín.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband