Pétri Árna bætt í prófkjörsslaginn í kraganum

Sjálfstæðisflokkurinn

Framboðsfrestur vegna prófkjörs í Suðvesturkjördæmi rann út 18. október sl. 10 einstaklingar gáfu kost á sér, 6 konur og 4 karlmenn. Nú hefur kjörnefnd ákveðið að bæta Pétri Árna Jónssyni, formanni Baldurs, f.u.s. á Seltjarnarnesi og fyrrum stjórnarmanni í SUS, við hóp frambjóðendanna tíu og rétta þar með við kynjaslagsíðuna sem augljós var. Þau sem taka þátt verða því: Ármann Kr. Ólafsson, Árni Þór Helgason, Bjarni Benediktsson, Bryndís Haraldsdóttir, Jón Gunnarsson, Pétur Árni Jónsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Steinunn Guðnadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Það stefnir í áhugavert prófkjör í kraganum. Þorgerður Katrín og Bjarni Ben eru þó nær óumdeild í fyrsta og annað sæti framboðslistans. Bæði hafa þau mikinn og afgerandi stuðning um allt kjördæmið, enda eru þau hin einu sem sækjast eftir endurkjöri af þeim alþingismönnum sem flokkurinn hlaut kjörinn í kraganum í kosningunum 2003. Auk þeirra er Sigurrós á þingi, en hún tók sæti við afsögn Gunnars Birgissonar, bæjarstjóra í Kópavogi. Um þriðja sætið takast Ragnheiður Ríkharðs og Ármann Kr. og hörkubarátta er svo framundan um fjórða sætið. Það verður því tekist á um neðri sætin af nokkurri hörku.

Tveir ungliðar eru í kjörinu; Bryndís og Pétur Árni. Þekki þau bæði mjög vel, enda sátum við öll saman í stjórn SUS árin 2003-2005. Þau hafa verið formenn f.u.s. í Mosó og á Nesinu. Ég hef mjög lengi metið Bryndísi mikils í ungliðastarfinu, enda er hún kraftmikil og öflug. Við höfum átt góða vináttu og unnið saman í ungliðadæminu. Leitaði hún til mín með stuðningskveðju til að birta á heimasíðu sinni og var það sjálfgefið af minni hálfu. Ég vona svo sannarlega að henni muni ganga vel og vil endilega leggja henni lið í þennan prófkjörsslag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Sæmundsdóttir

Áður en ég flutti norður vann ég fyrir kvennadeild sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Vorið 2002 kynntist ég smá Sigurrós Þorgrímsdóttur, hún er alveg öðlingur, frábær manneskja. Ég vona að hún verði metin af verðleikum þarna í prófkjörinu

Sigrún Sæmundsdóttir, 26.10.2006 kl. 22:33

2 Smámynd: Þórir Hrafn Gunnarsson

"...og rétta þar með við kynjaslagsíðuna sem augljós var."

Ég verð að viðurkenna að ég sé ekki alveg hvað er svona augljóst við "kynjaslagsíðuna" í þessu prófkjöri? Um var að ræða 4 kk á móti 6 kvk, eða 40/60 skiptingu konum í vil.

Í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík eru 19 í framboði og eru þar 12 kk á móti 7 kvk, eða 63/37 skipting körlum í vil.

Í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suður kjördæmi eru svo 13 í framboði og eru þar 8 kk á móti 5 kvk, eða 62/38 skiptingu körlum í vil.

Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna Borgarstjórnarkosningana í Rvk voru 24 í framboði og voru þar 19 kk á móti 5 kvk, eða 79/21 skiptingu körlum í vil!

Eina sem mér finnst augljóst í þessu er að þarna var um þann óvenjulega atburð að ræða innan Sjálfstæðisflokksins að fleiri konur gáfu kost á sér en karla.

Kveðjur :)

Þórir Hrafn Gunnarsson, 27.10.2006 kl. 02:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband