Fjórir áratugir frá morðinu á Martin Luther King

Dr. Martin Luther King Þegar blökkumannaleiðtoginn dr. Martin Luther King var myrtur í Memphis í Tennessee fyrir fjórum áratugum átti hann sér draum um samfélag þar sem litaraft skipti ekki máli og þeldökkir hefðu sömu tækifæri í lífinu og hvítir. Sú barátta kostaði hann lífið. Dr. King lét baráttu sína ráða eigin örlögum og tók áhætturnar sem henni fylgdu. Þær voru hluti af baráttunni fyrir þeim draumi sem var honum allt. Draumurinn dó þó ekki með honum.

Arfleifð þessa áhrifamikla blökkumannaleiðtoga, sem sameinaði blökkumenn í samhentan hóp í baráttunni fyrir mannréttindum og viðurkenningu á jöfnu hlutskipti í frjálsu samfélagi, er traust. Hann var málsvari allra blökkumanna, traustur málsvari sem færði hugsjónir í ógleymanlegar og heilsteyptar ræður, fullar af baráttuanda og draumsýn sem þá virtist svo sjálfsögð en samt þess eðlis að berjast varð fyrir henni. Draumurinn um jafna stöðu þeldökkra og hvíta var barátta sem verður alla tíð tengd predikaranum frá Atlanta, hinum sanna baráttumanni.

Alla tíð sem ég hef fylgst með stjórnmálum hef ég hlustað á ræðurnar hans Martins Luthers Kings. Það var harmleikur að hann skyldi ekki geta leitt sitt fólk alla leið í þá einu réttu átt sem hann vildi sjá verða að veruleika. Hann komst ekki alla leið en hann tryggði sínu fólki baráttuandann og boðskapinn til að leggja í þá vegferð. Draumurinn hans var svo innilega fallega orðaður í hinni ódauðlegu ræðu í Washington fyrir rúmum fjörutíu árum, einni eftirminnilegustu ræðu sem nokkru sinni hefur verið flutt - ræðu sem sameinar öll helstu leiðarstefin í baráttunni fyrir mannréttindum.

Ræðan sem hann flutti kvöldið áður en hann dó er líka eitt af þessum meistaraverkum ræðusnilldarinnar í pólitískri baráttu. Einlæg og sönn ræða og kaldhæðnisleg að því leyti að þar talaði blökkumannaleiðtoginn um baráttuna og gerði ekki ráð fyrir sjálfum sér í sigurstund framtíðarinnar, þar sem allir myndu verða jafnir og það skipti engu máli hvort fólk væri þeldökkt eður ei. Það hefur mikið verið rætt og ritað um dr. King síðan að hann dó, en mér finnst ræðurnar hans besti vitnisburðurinn um styrk hans og leiðsögn. Hann var eldhugi sem barðist fyrir hinu rétta.

Svo gæti farið að Barack Obama láti drauma baráttumannsins frá Atlanta rætast á þessu minningarári hans, þegar að minnst er baráttunnar sem kostaði hann lífið og þeirri traustu leiðsögn sem einkenndi baráttuanda hans og styrkleika. Þetta gæti orðið sögulegt ár fyrir þeldökka. Varla hefði dr. King látið sér detta í hug þegar að hann talaði um draumsýn sína í Washington á sjöunda áratugnum að það gæti gerst í upphafi nýrrar aldar. Flestir áttu eflaust von á að sú barátta tæki lengri tíma að blökkumaður ætti raunhæfa möguleika á Hvíta húsinu.

Hvernig sem barátta anno 2008 um valdamesta embætti heims fer hefur draumur dr. Martins Luthers Kings í raun þegar ræst. Það er í raun þegar sannað með því að litaraft skiptir ekki lengur máli í forsetakjöri í fylkjum þar sem þeldökkir eru í minnihluta að hvítir kjósa blökkumann. Það er stóri sigurinn í baráttunni miklu sem dr. Martin Luther King lét lífið fyrir.

Allir hafa jöfn tækifæri til að láta að sér kveða og það sem meira er að með því er staðfest að blökkumaður getur orðið valdamesti maður heims. Það eitt og sér verður stærsti sigur blökkumanna frá því að King leiddi þá með táknrænni draumsýn sinni í leiftrandi ræðu.


--------





Bendi hérmeð á þessar klippur af sögulegustu ræðum dr. Kings - sú fyrri ræðan um drauminn mikla frá árinu 1963 - sú síðari er síðasta ræðan hans, hin táknrænu lokaorð hins mikla baráttumanns, kvöldið áður en hann var myrtur.

Það hefur svo margt fallegt verið ritað um baráttumanninn mikla frá Atlanta síðustu daga - frásögn blaðakonu af fundi sínum með ekkju blökkumannaleiðtogans að kvöldi dánardægurs hans er einna eftirminnilegust.

mbl.is 40 ár frá morðinu á King
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Martin Luter,er eflaust einn sá sem aldrei deyr,,Var hann á hápunkti sínum þegar hann lést,,?? Máttum við búast við meiru hefði hann lifað,,??Sannleikur hans var svo sterkur,og svo svíðandi,, Hann sannaði að orð eru betri enn athöfn,, ''Athöfnin'' er meira atburður líðandi stundar,, ''Orðin munu berast með vindinum um ókomnar aldir,, Mikið hefur lagast í málefnum blökkumanna hin síðari ár, aðallega þannig að þeir eru nú viðurkenndir sem hluti af sögu og menningu bandaríkjanna,,Hverjum hefði dottið í hug að maður með húðlit Obama dirfðist að bjóða sig fram til forseta,,því má þakka mr. King,, Blökkumenn eiga samt enn langt í land,,og allar götur síðan King kvaddi hefur þeim ekki tekist að finna sér leiðtoga af sama meiði,,Framtíð svartra í Bandaríkjunum er undir þeim sjálfum komin,,Þeir mega ekki stofna ríki í ríkinu,,

Bimbó (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 09:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband