Lieberman á sigurbraut í Connecticut

Joe Lieberman

Flest bendir nú til þess að öldungadeildarþingmaðurinn Joe Lieberman muni hljóta öruggt endurkjör í Connecticut í þingkosningunum sem fram fara eftir tólf daga. Hefur hann haft forskot nær alla kosningabaráttuna og hefur það aukist nú hina síðustu daga. Lieberman hefur verið öldungadeildarþingmaður fylkisins allt frá árinu 1989 og nær allan þann tíma alveg óumdeildur sem slíkur og hlotið endurkjör í tveim kosningum, árin 1994 og 2000. Jákvæð afstaða Lieberman til Íraksstríðsins og stuðningur hans við ákvarðanir Bush-stjórnarinnar fyrir og eftir stríðið leiddi til víðtækrar óánægju með störf hans meðal íbúa í fylkinu og staða hans varð ótrygg.

Svo fór að lítt kunnur viðskiptamaður að nafni Ned Lamont ákvað að gefa kost á sér gegn honum. Framan af þótti hann ekki eiga séns gegn hinum víðreynda og vinsæla Lieberman sem var einn af forystumönnum flokksins á landsvísu. Á nokkrum mánuðum breyttist staðan. Svo fór að Lamont tókst að fella Lieberman í forkosningunum og ná útnefningu flokksins í þessu örugga vígi hans. Flestir töldu eftir tapið að Lieberman myndi lamast sem stjórnmálamaður. Allar stjörnur demókrata sem studdu hann snerust yfir til Lamont og flokksmaskínan sem malaði gegn Lamont varð að vinna fyrir hann. Lieberman hélt ótrauður sínu striki og boðaði óháð framboð á eigin vegum.

Lamont hefur aldrei náð alvöru forskoti á Lieberman síðan og nú stefnir í að hann tapi sjálfum kosningunum, þó formlegur flokksframbjóðandi demókrata sé. Tap Lieberman voru mikil tíðindi, enda var hann einn af helstu forystumönnum flokksins á landsvísu. Hann var útnefndur af Al Gore sem varaforsetaefni hans í forsetakosningunum 2000. Með því komst hann á spjöld sögunnar, enda fyrsti gyðingurinn í forystu forsetaframboðs annars af stóru flokkunum. Kosningabaráttan var jöfn og æsispennandi. Að lokum fór það svo að Gore og Lieberman urðu að gefast upp. Þar munaði aðeins hársbreidd að Lieberman yrði fyrsti gyðingurinn á varaforsetastól landsins.

Það verður gríðarlegt áfall fyrir Demókrataflokkinn og Ned Lamont ef flokkurinn tapar í Connecticut. Fátt virðist hafa gengið Lamont í hag í átökunum sjálfum, handan forkosninganna meðal flokksmanna. Hann hefur ekki komist út úr talinu um Íraksstríðið og varð bensínlaus á miðri leið, þrátt fyrir áfangasigurinn. Honum hefur mistekist að fókusera sig á aðra málaflokka og öðlast tiltrú kjósenda sem breiður stjórnmálamaður ólíkra hópa. Því fer sem fer væntanlega. Lieberman mun vinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband