Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hafið

Sjálfstæðisflokkurinn

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hófst á hádegi. Kosið verður bæði í dag og á morgun, en í dag verður kjörstaður aðeins í Valhöll. Það stefnir í spennandi kosningu og verður fróðlegt að sjá fyrstu tölur, en þær munu liggja fyrir nákvæmlega kl. 18:00 er kjörstaðir loka. Þá mun Þórunn Guðmundsdóttir, formaður kjörnefndar, lesa fyrstu tölur og munu tölur liggja svo fyrir á hálftímafresti allt þar til að yfir lýkur og úrslitin verða formlega ljós. Það er jafnan gaman að fylgjast með svona talningu en mikil spenna og stemmning var yfir prófkjörum Sjálfstæðisflokksins, bæði vegna þingkosninga haustið 2002 og borgarstjórnarkosninga í nóvember í fyrra.

Í kjöri í prófkjörinu eru: Ásta Möller, Birgir Ármannsson, Björn Bjarnason, Dögg Pálsdóttir, Geir H. Haarde, Grazyna M. Okuniewska, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Illugi Gunnarsson, Jóhann Páll Símonarson, Kolbrún Baldursdóttir, Marvin Ívarsson, Pétur H. Blöndal, Sigríður Andersen, Sigurður Kári Kristjánsson, Steinn Kárason, Vilborg G. Hansen, Vernharð Guðnason og Þorbergur Aðalsteinsson. 19 eru því í kjöri. Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í nóvember 2002 vegna þingkosninga þá voru 17 í kjöri, en t.d. voru 24 í prófkjöri flokksins vegna borgarstjórnarkosninganna í fyrra. Kjósendur geta valið 10 úr þessum 19 manna hópi.

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sækist einn eftir fyrsta sætinu og því ekki spenna um það, enda hefur formaðurinn ekki háð kosningabaráttu. Fyrirfram er mesta spennan milli Björns Bjarnasonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um annað sætið, sem er leiðtogastóll í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Auk þeirra er Pétur Blöndal í kjöri um það sæti, en flestir telja þó slaginn standa milli fyrrnefndra. Tekist er á af krafti ennfremur um þriðja sætið, en þar eru í kjöri Ásta, Birgir, Guðfinna, Illugi og Pétur. Um fjórða sætið takast svo þau Dögg og Sigurður Kári. Fyrirfram má telja mestu spennuna um þessi sæti.

Annars er nær ómögulegt að spá um hvernig staðan verður í dagslok á morgun. Fyrirfram má þó telja þingmennina sjö standa vel að vígi en þó er öllum ljóst að nýliðar geta komist í hóp þingmannanna. Vonandi fer það svo að góðir nýliðar komast ofarlega í bland við reynslumikla þingmenn. Þarna er öflugt og gott fólk í kjöri og erfitt val fyrir margan flokksmanninn þegar að hann heldur til að kjósa í dag og á morgun.

Vonandi munu góðir listar myndast með þessu prófkjöri og Sjálfstæðisflokkurinn styrkjast til muna í borginni í kosningunum. Nú hefur flokkurinn níu þingmenn í kjördæmunum tveim í Reykjavík, en á ekki að sætta sig við neitt minna en 10-11 að vori. Vonandi verða sóknarfæri til þess með góðum framboðslistum.


mbl.is Prófkjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík fer vel af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband