Hörð barátta framundan hjá Halldóri

Halldór Ásgrímsson

Það blasir við að hörð kosningabarátta mun verða um embætti framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. Íslensk stjórnvöld hafa tilnefnt Halldór Ásgrímsson, fyrrum utanríkis- og forsætisráðherra, til starfans af okkar hálfu. Fyrirséð er að hörð barátta verði milli hans og Jan-Erik Enestam, umhverfisráðherra Finnlands, um embættið, en hann hefur verið ráðherra um árabil og var t.d. varnarmálaráðherra á árunum 1999-2003. Það er ljóst að ekki getur Enestam og Finnarnir einvörðungu bent á reynslu hans úr þeirri átt, enda hefur Halldór mun lengri ráðherraferil að baki og verið mjög áberandi í norrænni pólitík.

Það ræðst á Norðurlandaráðsþingi í næstu viku hvor fær hnossið. Halldór hefur þegar fengið mikilvægan stuðning Norðmanna til embættisins og ekki er óvarlegt að ætla að hann hafi stuðning Dana, enda er miðjuflokkurinn Venstre, systurflokkur Framsóknarflokksins, þar við völd. Spurning er hvernig Svíar líti á stöðu mála. Það verður því að teljast að staða Halldórs er góð í þessum efnum og gæti það hjálpað honum að miðjumenn standa sterkt á Norðurlöndum um þessar mundir. Altént mun stuðningur Norðmanna við hann fara langt með að tryggja honum embættið.

Fari svo að Halldór Ásgrímsson verði framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar mun hann verða staðsettur í Kaupmannahöfn og flytja því þangað. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer í þessum efnum. Víðtæk reynsla og þekking Halldórs Ásgrímssonar úr stjórnmálum mun skipta máli, auk þess að aldrei hefur Íslendingur gegnt embættinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband