Hörð leiðtogabarátta að hefjast

ArnbjörgKristján ÞórÞorvaldur Ingvarsson

Prófkjörsslagur sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi er að hefjast þessa dagana af greinilegum krafti. Það er mjög notalegt að standa temmilega utan við mesta hasarinn og geta skrifað af krafti hér frá öllum hliðum um þann hasar og skemmtilegheit sem framundan er í þessu. Flest eigum við von á kraftmiklum slag með hæfilegum hasar og átökum. Búast má við að leiðtogaframbjóðendurnir Arnbjörg Sveinsdóttir, Kristján Þór Júlíusson og Þorvaldur Ingvarsson þurfi að vinna með miklum krafti fyrir leiðtogastöðunni í kjördæminu og allt verði lagt í sölurnar, enda eftir miklu að sækjast þegar að leiðtogastóll Halldórs Blöndals er annars vegar, forystusæti í flokksstarfinu.

Við blasir að allir frambjóðendurnir þurfi að kynna persónu sína, stefnumál og áherslur sínar vel fyrir kjósendum í prófkjörinu. Ennfremur má búast við verulegri smölun inn í flokkinn. Ekki hefur verið prófkjör í landsmálum hér í norðurhluta kjördæmisins frá árinu 1987 og í austurhlutanum frá árinu 1999, svo að það verður tekist á af hörku, mikið smalað og barist grimmt um atkvæðin. Væntanlega munu allir leiðtogaframbjóðendurnir opna heimasíður, eða annað getur varla verið í svona harðri baráttu en að þar séu heimasíður um að ræða, þar sem frambjóðendur geta milliliðalaust skrifað til kjósenda og flokksmanna. Það er hin eina sanna miðstöð baráttu á okkar tímum.

Það blasir við að flestir prófkjörsframbjóðendur stefna að því að opna kosningaskrifstofu. Þegar hafa Kristján Þór og Þorvaldur lagt drögin að opnun á skrifstofum og heyrst hefur að Ólöf Nordal, prófkjörsframbjóðandi frá Fljótsdalshéraði, hafi fest sér pláss á góðum stað í miðbænum. Greinilegt er að Ólöf kemur fram í baráttuna af krafti, ákveðin og einbeitt, stefnir hiklaust að öruggu þingsæti. Mikið er rætt um það hvort að Austfirðingar séu samstíga um stuðning við Arnbjörgu, sem verið hefur þingmaður þeirra frá árinu 1995. Af framgöngu og ákveðni Ólafar að dæma virðist hún ekki mikið hugsa um hag Arnbjargar heldur vinnur af krafti á eigin vegum við að tryggja sig í sessi.

Kristján Þór hefur fest sér pláss á mjög sterkum stað í bænum þar sem stórt verslunarhúsnæði var áður til húsa og er kominn á fullt í hönnunar- og markaðsvinnu framboðs síns. Sama gildir um Þorvald sem stefnir á opnun heimasíðu og kosningaskrifstofu á allra næstu dögum. Ekki veit ég um stöðu Arnbjargar, en væntanlega hlýtur hún að stefna á að opna einhverja kosningamiðstöð og opna heimasíðu. Það virðist vera að flestir frambjóðendur ætli í slaginn af mikilli alvöru, enda eftir miklu að sækjast. Það blasir enda við að fólk fer vart í svona slag nema að eyða í það miklum peningum og leggja alla sína vinnu og kraft sinn til verksins. Þetta er mikil vinna.

Það stefnir í spennandi átök hér á næstu vikum. Á morgun ræðst endanlega hverjir eru í kjöri, þegar að kjörnefnd hittist til að ganga frá öllum hliðum mála. Jafnframt ræðst hvort frambjóðendum verði bætt í hópinn eður ei. Við sjáum allavega við Akureyringar hér að okkar frambjóðendur hér leggja mikla peninga og kraft í verkefnið og stefna hátt, enda ekki óeðlilegt að við viljum okkar fulltrúa á þing og til áhrifa. Það er algjörlega ótækt ástand að enginn Akureyringur sé á þingi og mikilvægt að tryggja að það breytist með þessu prófkjöri.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband