Spenna hjá Samfylkingunni í Norðvestri

Samfylkingin Norðvestur

Prófkjör Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fer fram nú um helgina og má vænta úrslita annað kvöld. Það hefur stefnt í spennandi prófkjör þar eftir að Jóhann Ársælsson, leiðtogi flokksins í kjördæminu, tilkynnti að hann gæfi ekki kost á sér að nýju. Það er reyndar mjög opin staða fyrir Samfylkinguna þarna, enda á flokkurinn aðeins einn þingmann að auki Jóhanns; Önnu Kristínu Gunnarsdóttur. Samfylkingin varð fyrir verulegu áfalli þar í kosningunum 2003 með þeim úrslitum, enda lengi verið spáð 3-4 þingsætum. Auk þess varð vandræðalegt fyrir flokkinn er Gísli S. Einarsson, fyrrum alþingismaður, sagði skilið við flokkinn á þessu ári.

Fimm sækjast eftir því að leiða flokkinn í kjördæminu og taka við af Jóhanni Ársælssyni. Þar fer auðvitað fremst í flokki þingmaðurinn Anna Kristín og auk hennar þeir Sigurður Pétursson, bæjarfulltrúi á Ísafirði, Guðbjartur Hannesson, skólastjóri á Akranesi, Sveinn Kristinsson, bæjarfulltrúi á Akranesi og sr. Karl V. Matthíasson. Það vekur athygli að presturinn Karl stígi aftur inn í stjórnmálin. Hann tók sæti Sighvats Björgvinssonar á Alþingi er Sighvatur varð framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands árið 2001. Honum bauðst að skipa fjórða sæti framboðslistans árið 2003 í uppstillingu en afþakkaði það og hætti í pólitík.

Sérstaklega verður spennandi að sjá hvernig Sveini gengur, en hann var lengi valdamikill stjórnmálamaður á Akranesi, en missti völdin eftir kosningarnar í vor. Það varð gríðarlegt áfall fyrir hann að Gísli, félagi hans, skyldi yfirgefa flokkinn og verða bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins á Akranesi. Svo er staða Guðbjarts væntanlega sterk og svo verður fróðlegt að sjá stöðu nýliðans Sigurðar, sem er af kunnum verkalýðsættum á Ísafirði og leiddi Í-lista vinstrimanna í kosningum í vor, en náði ekki tilsettum árangri. Öll hafa þau sterka stöðu á sinn hvern hátt og fróðlegt að sjá hver verður hlutskarpastur og leiðir flokkinn á þessum slóðum að vori.

Ekki er síðri baráttan um næstu sætin, en um 2. - 3. sætið berjast þær Bryndís Friðgeirsdóttir, fyrrum bæjarfulltrúi á Ísafirði og Helga Vala Helgadóttir, fjölmiðlakona og laganemi, sem er dóttir leikarahjónanna Helga Skúlasonar og Helgu Bachmann, en hún er eiginkona Gríms Atlasonar, bæjarstjórans í Bolungarvík, og systir Skúla Helgasonar, framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar. Auk þeirra eru í kjöri Ragnhildur Sigurðardóttir, lektor á Hvanneyri, Benedikt Bjarnason, nemi við Háskólann á Bifröst, Einar Gunnarsson, kennari og Björn Guðmundsson, smiður.

Eftir því sem mér skilst er hvergi nærri sjálfgefið að Anna Kristín fái leiðtogastöðuna, þó þingmaður sé, enda hefur hún þótt gríðarlega litlaus og lítt áberandi á þingi. Fjöldi nýrra frambjóðenda til forystu staðfestir vel þá staðreynd að hún hafi ekki afgerandi stöðu nema þá á heimaslóðum í Skagafirði, en hún er greinilega þeirra kandidat til forystunnar. En já, það eru fimm í leiðtogakjöri - af því leiðir að ekkert er öruggt í þessum efnum og mikil spenna framundan í dag og á morgun, fram að fyrstu tölum.

Það er altént ljóst að beðið verður eftir fyrstu tölum með mikilli eftirvæntingu. Það verður fróðlegt að sjá hverjum Samfylkingarfólk í kjördæminu felur leiðtogastólinn við brotthvarf Jóhanns Ársælssonar úr stjórnmálum.

mbl.is Prófkjör Samfylkingar í NV-kjördæmi hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband