The Departed

The Departed

Það er ekkert sem er eins notalegt fyrir sannan kvikmyndaunnanda og að sjá meistaraverk, kvikmynd sem er að öllu leyti nær fullkomin. Það er notalegt að sjá tvær svona myndir í bíó á innan við viku. Ég heillaðist enda mjög í byrjun vikunnar við að sjá Mýrina. Það var mjög notalegt að fara í bíó í gærkvöldi og sjá kvikmyndina The Departed, nýjustu úrvalsmynd Martin Scorsese. Ég hika ekki við að segja að hér er um að ræða bestu kvikmynd hans í háa herrans tíð, allt frá dögum Goodfellas, sem er ein þeirra kvikmynda sem mótuðu mig og sennilega okkur öll sem metum kvikmyndalistina mikils. Það var sannkölluð eðalmynd, sem mótaði kvikmyndasöguna.

The Departed er ein besta kvikmynd ársins, það sem af er liðið hið minnsta. Þetta er enn ein snilldin á leikstjóraferli Scorsese. Ég hafði virkilega gaman af þessari mynd og naut hennar, hafði lengi beðið eftir henni, vissi að hún væri virkilega góð og lofuð víða um heim. Hún stendur svo sannarlega undir öllum væntingum. Þegar er talað um fjölda óskarstilnefninga og margir telja hana eina bestu mynd leikstjórans. Ég tek undir það lof, hef lengi verið aðdáandi mynda hans, á þær flestar og met mikils. Þessi er meðal bestu kvikmynda Scorsese. Hinsvegar eru Raging Bull og Goodfellas algjörar uppáhaldsmyndir mínar af hans verkum.

Myndin er mjög þéttur og vandaður pakki. Þetta er eðalmynd, sem hentar sérstaklega vel fyrir sanna kvikmyndaunnendur. Það eru verulega fáir veikleikar sem ég finn að við þessa mynd þegar yfir heildina er litið. Allt virkar vel og smellur vel saman að mínu mati; heildarmyndin, leikur, handrit, tónlist og umbúnaður. Um er að ræða sameiningu allra þátta í glæsilega kvikmynd, sem telst framúrskarandi. Fáum leikstjórum hefur tekist betur en Martin Scorsese að fanga athygli kvikmyndaunnenda og jafnframt að ná fram því allra besta frá leikurum sínum, oftar en ekki hafa leikframmistöður í myndum hans hlotið óskarsverðlaunatilnefningar.

Sterkasti þáttur myndarinnar er einmitt leikurinn. Það er aðall leikstjórans að nostra við leikara sína og vinna vel með þeim. Það tekst í þessari mynd svo um munar. Allir leikarar skila glæsilegri leikframmistöðu. Meistari Jack Nicholson er auðvitað fremstur í þeim flokki, en hann gerir allar senur sem hann leikur í algjörlega að sínum. Nicholson er einn besti leikari sinnar kynslóðar og bætir enn einni flottri túlkuninni í safnið þarna. Matt Damon og Leonardo DiCaprio eru mjög góðir í túlkun sinni á Billy og Colin. Þeir fara vel með sitt. Svo eru Martin Sheen, Ray Winstone og Alec Baldwin flottir. Vera Farmiga er senuþjófurinn í hlutverki Madolyn.

Að mínu mati er hver einasta sena í þessari mynd gulls ígildi og þetta er skemmtun frá upphafi til enda, fyrir sanna kvikmyndaunnendur. Scorsese allt að því endurmótar glæpamyndaheiminn með þessari mynd. Hún er fersk og helst í flottri keyrslu allt til enda. Allt kemst vel til skila og kvikmyndatakan er sérlega vel heppnuð, tryggir flotta keyrslu og spennu allan tímann. Þetta er sjónræn skemmtun ofan á allt annað. Þannig að ég sé fáa galla á The Departed. Hún hefur alla burði til að heilla þá sem fara að sjá hana í bíó, hvort sem þeir eru sannir unnendur kvikmynda Scorsese, eða hinna sem halda í bíó hafandi enga mynd hans séð.

Þetta er kvikmynd sem ætti að vera skemmtun fyrir þá sem vilja bæði sjá flotta mynd og hina sem meta kvikmyndalistina mjög mikils. Allt smellur vel saman og tryggir glæsilega heildarmynd og fína afþreyingu; persónugallerí, söguþráður, ofbeldi, stíll og samtöl, ofan á bara adrenalínkikk þeirra sem fíla sanna spennu í sinni bestu mynd. Þannig að ég hvet alla til að líta á hana í bíó. Þetta er mynd sem heillaði mig allavega - sannarlega eðalræma í sinni bestu mynd.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband