Greinaskrif um hlerunarmálin

Hlerunarmál

Enn er fátt meira talað um en hlerunarmálin. Í dag birtast Morgunblaðsgreinar um þau mál eftir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra, og Guðna Th. Jóhannesson, sagnfræðing. Vekur sérstaka athygli að lesa grein Jóns Baldvins, sem birtist á síðari kjördegi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þar er greinilega ráðist að Birni Bjarnasyni, dómsmálaráðherra, með frekar lágkúrulegum hætti. Tímasetningin telst vart tilviljun fyrir okkur sem fylgjumst með stjórnmálum. Þetta kemur sem eðlilegt framhald af vandræðalegri afneitun vinstrimanna við ummælum Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, á fundi í Valhöll um síðustu helgi.

Björn fer yfir þessi mál nokkuð vel í pistli á heimasíðu sinni í dag. Þar kemur vel fram skoðun hans á greinaskrifum Jóns Baldvins. Augljóslega eru þau sett fram til að reyna að veikja Björn á þessum degi og allt tal Jóns Baldvins í Silfri Egils um daginn að vinstrimenn hefðu ekki ráðist að Birni verður sem hjóm eitt við þessa merkilegu Moggagrein. Birni gefst skiljanlega ekki færi til að svara þessum greinaskrifum á sama vettvangi fyrr en eftir helgina en hann allavega fer yfir málið í fyrrnefndum pistli á vefnum. Mér finnst skrif og taktar Jóns Baldvins í öllu þessu máli mjög kostulegir, það verður ekki annað sagt svosem. Undarlegar tiktúrur.

Enn fróðlegra er að lesa grein Guðna Th. í Mogganum í dag. Þar fer hann yfir málið með hóflegri og fræðilegri hætti, eins og hans er von og vísa. Þar eru ekki máttlausar upphrópanir mannsins í eyðimörkinni, heldur eðlilegar hugleiðingar manns sem fræðilega skrifar af vandvirkum hætti. Þar kemur margt fróðlegt líka fram. Sérstaklega fannst mér athyglisvert að sjá mat hans á gögnum sem eigi að gefa til kynna að Ólafi Jóhannessyni, forsætis- og dómsmálaráðherra árin 1971-74, hafi verið kunnugt um flesta þætti í starfsemi öryggisþjónustu lögreglunnar. 

Fátt hefur verið meira rætt seinustu vikurnar en hvaða ráðherra vissi hvað á þessum árum. Mikið hefur verið rætt um hvað dómsmálaráðherrar sögunnar vissu. Það eru mikil tíðindi að Ólafur, sem var formaður Framsóknarflokksins 1968-1979, hafi vitað af þessari öryggisþjónustu, en eins og kunnugt er var hún sett á fót af Hermanni Jónassyni árið 1939. Það er merkilegt að heyra talið um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins sé litið til nafna þessara tveggja manna, sérstaklega Hermanns sem kom henni á fót.

En umræðan heldur áfram og fróðlegt að lesa þessar tvær greinar, sem eru verulega ólíkar að öllu leyti, um hlerunarmálin yfir kaffibollanum á þessum laugardegi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband