Alvarleg mistök hjá Vegagerð og ráðuneytinu

Björgvin HalldórssonTek heilshugar undir ummæli Björgvins Halldórssonar, söngvara, um sleifarlag Vegagerðarinnar og samgönguráðuneytisins í málefnum Reykjanesbrautarinnar, sem er til skammar bæði fyrir Kristján Möller, samgönguráðherra, og Jón Rögnvaldsson, vegamálastjóra. Þar hafa mjög alvarleg mistök verið gerð og til skammar að bíða þurfi eftir stórslysi til að einhver opni augun.

Björgvin talar vissulega af tilfinningum í þessu máli - umfram allt þó af mikilli skynsemi, enda vita allir að hann hefur rétt fyrir sér. Svala, dóttir hans, liggur slösuð, ásamt nokkrum öðrum á sjúkrahúsi, eftir alvarlegt slys á þessum umdeilda vegarkafla sem hefur verið látinn dankast mánuðum saman vegna þess að fyrirtækið sem fékk verkið fór yfir um og enginn hefur haft manndóm í sér til að taka á því megaklúðri, hvorki fyrir gjaldþrotið né síðustu vikur. Þetta er vítavert gáleysi og óafsakanlegt.

Jón Rögnvaldsson var að reyna að afsaka þetta sleifarlag í viðtölum í dægurmálaspjallþáttunum í kvöld. Það má vel vera að Jón sé ágætismaður og vilji öllum vel en þetta klúður á vakt hans er svo mikið að það verður ekki afsakað í settlegum viðtalsbút í sjónvarpi. Þar þarf aðgerðir til og skelfilegt að þurfi slys til að augu manna opnist. Samgönguráðherrann virðist hafa opnað augun sín í dag, er það vel, en þó alltof seint. Það er til staðar lagaheimild sem hefði verið hægt að beita í þessu máli fyrir löngu og koma allavega framkvæmdum af stað.

Þetta er algjörlega óafsakanlegt rugl, einkum og sér í lagi á einu leiðinni í millilandaflugið, þarna um þarf fjöldi fólks að fara reglulega, sumir daglega. Það er ljóst af atburðum dagsins að þessi vegarspotti er algjör slysagildra. Það var slys á þessum kafla fyrir nokkrum mánuðum, þrátt fyrir það sváfu þeir menn sem auglýsa sjálfa sig sem menn valdsins löngum svefni og þurftu að láta vekja sig með stórslysi til að lofa bót og betrun.

Sveiattan segi ég bara. Það er spurning hvort svona ráðherra sé starfi sínu vaxinn.


mbl.is Reiður út í þá sem bera ábyrgð á Reykjanesbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Ég kann nú ekki að setja myndir á komment. Er ekki nógu góður tölvumaður. Enn það væri gaman að fá skýringu á hvað kallast raunverulega alvarlegt mál hjá þessum ráððherra sem og fleirum..takk fyrir góðan pistil...

Óskar Arnórsson, 9.4.2008 kl. 22:03

2 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Ég get að mörgu leiti tekið undir með þér Stefán. En á móti má segja að lög og reglugerðafrumskógurinn sem okkar kjörnu fulltrúar hafa gróðursett hafa gert Vegagerðinni ókleift að bregðast við til að flýta framkvæmdum meira en raunin er. En hvort bæta hefði mátt merkingar og sundurgreiningu aksturstefna er umhugsunarvert. En það er annar flötur á þessu sem Jón kom einmitt inn á í viðtölum í dag, en það er það er ekki nóg að setja upp merkingar, fólk þarf að fara eftir þeim tilmælum sem settar eru fram. Ég fer nokkuð oft þarna um, og ef ég ætla að lækka hraðann niður í þessa 50 km/klst eins og tilskilið er er ég í stórhættu að fá bíla aftan á mig. Það fer enginn eftir þessum tilmælum og því fer sem fer. Það ætti kannski að setja nokkur rimlahlið þarna til að hægja á umferðinni.

Gísli Sigurðsson, 9.4.2008 kl. 22:10

3 identicon

Heill og sæll; Stefán Friðrik, sem aðrir skrifarar !

Jæja; Stefán minn ! Ertu farinn að vakna, til vitundar um, hvers lags úrhraka ryckti Haarde hörmungin er ?

Með beztu kveðjum, norður yfir heiðar, sem víðar / Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 22:17

4 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Í svona léttu framhaldi af þessari umræðu mætti benda á afkastaleysi hins háa Alþingis. Þar er daginn langan karpað um einhver nauðaómerkileg mál, sem allt eins gæti farið fram á hinum ýmsu bloggsíðum. En að þessir kjörnu fulltrúar okkar nái að setja nokkur einustu lög fyrr en allt er að komast í eindaga virðist vera algjörlega útilokað. Ef við sem störfum á hinum frjálsa atvinnumarkaði værum svona afkastalítil og framleiðnin væri svona lítil væri löngu búið að skipta manni út fyrir einhvern dugmeiri. Nefni dæmi, stimpilgjöldin, hvers vegna er ekki málið keyrt í gegnum þingið, það eru örugglega allir sammála um þetta þannig að ekki ætti það að stoppa málið. En nei það fara einhverja vikur í að semja frumvarpið og síðan verður þetta örugglega eitt af andvökumálunum sem skríður í gegnum þingið á síðustu klukkustundum þingsins í vor. Þess í stað er þetta saltað og súrsað, það myndast tappi á fasteignamarkaðnum og síðan verður honum kippt úr 1. júlí og það kallar bara á hækkun eða allavega aukinn þrýsting til hækkunar. Jæja gott í bili, varð bara að koma þessu frá mér.

Gísli Sigurðsson, 9.4.2008 kl. 22:30

5 Smámynd: Sesselja  Fjóla Þorsteinsdóttir

Ég tek undir hvert orð með þér, þetta er hreinlega ólíðandi og slysahættan hrikaleg.  Minnstu munaði að ég og maðurinn minn lentum í slysi þarna um síðustu helgi.

Sesselja Fjóla Þorsteinsdóttir, 9.4.2008 kl. 22:41

6 identicon

Ekki að ég taki ekki undir öll orð um nauðsyn þess að laga brautina. 

En hvers vegna er það allt í einu núna sem allir verða brjálaðir yfir þessu.  Hvers vegna tóku pólitíkusarnir ekki við sér fyrr í vetur þegar ástandið var enn alvarlegra sökum snjóa ?

Getur verið að það sé vegna þess að núna er loksins búið að bjóða verkið út og lausnin á því þannig í sjónmáli ?  Þar af leiðandi öruggt fyrir ráðherra og fleiri að tjá sig ?

Eða kemur það kannski málinu eitthvað við að það var fjölmiðlamaður sem átti ástvin sem varð fyrir slysinu ?

Tók enginn mark á vælinu í landsbyggðarliðinu á Suðurnesjum ?

Sem suðurnesjamanni finnst mér þetta meira en lítið furðulegt !

Það átti náttúrulega að ganga í verkið strax í vetur, en ekki bíða eftir því að það yrði "safe" að tjá sig um það. 

Sigurgestur (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 23:12

7 Smámynd: Þórður Runólfsson

Með aðgerðarleysi sínu hefur Vegagerð Ríkisins framið alvarlegri glæp en hippar hangandi í krönum eða atvinnubílstjórar með aðgerðum sínum gagnvart íbúum og gestum þessa lands. Og þeim er hótað fangelsi allt að sex árum.

Ég tek undir með þér:

Sveiattan!!!

Þórður Runólfsson, 9.4.2008 kl. 23:38

8 Smámynd: Fannar frá Rifi

fyrst og fremst liggur ábyrgðin hjá bílstjórum.

Þegar hámarkshraðinn þarna er eins og raun bera vitni þá ætti menn ekki að vera undrandi yfir því að slys verði.

ég er með eitt gott ráð sem ætti að ráða bug á þessum vanda þarna á meðan á vinnu stendur.  staðsetja einn eða tvo lögreglubíla þarna og allir þeir sem ekki fara eftir merkjunum verði sviptir á staðnum.

ég myndi vilja sjá tvíbreiða vegi út um allt, en raunin er bara svo að við verðum að bíða eftir þeim. hlutirnir taka sinn tíma. á meðan verða bílstjórar á leið um svæðið að gera sér grein fyrir því að þeir geta bara ekki ekið eins og þeir séu einir í heiminum.

hvernig ætti að merkja svæðið betur? setja upp risa stór neónljós eða? allir ökumenn ættu að vera núna búnir að fatta að það á að keyra varlega um þetta svæði. ef þeir keyra ógætilega eftir daginn í dag og lenda í slysi þá er það þeim að kenna.

en eins oft vill verða þá er alltaf mun auðveldara að kenna öðrum um vandamálin heldur en að líta í eiginn barm.  

Fannar frá Rifi, 10.4.2008 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband