Ætla atvinnubílstjórar að loka borginni á morgun?

Mótmæli atvinnubílstjóra Kjaftasagan er að á morgun ætli atvinnubílstjórar sér að lama höfuðborgarsvæðið með því að leggja bílum sínum við allar lykilumferðaræðar borgarinnar, drepa á þeim, læsa og yfirgefa þá við svo búið. Sé þessi sögusögn á rökum reist, en ég hef heyrt hana úr nokkrum áttum í kvöld, er alveg ljóst að mótmæli þeirra, sem hafa staðið nú í hálfan mánuð ná nýjum hæðum.

Eftir að Sturla Jónsson, talsmaður bílstjóranna, var ákærður vegna mótmælanna og boðaður til skýrslutöku kom fram kergja hjá bílstjórum en þeir hafa ekki sýnt nein merki þess að vera að gefa eftir, þó að mótmælin hafi verið hófstemmd alla þessa viku, fyrir utan mótmælin fyrir utan Hafnarhúsið. Auk þess heyrist að ummæli ráðherranna í vikunni hafi orðið til að gera þá enn reiðari en áður.

Það er eitt að mótmæla stundarkorn en sé það rétt að lama eigi borgina verða það umdeildustu mótmæli hérlendis í seinni tíð. Það blasir við öllum. Bílstjórar munu að ég tel ekki fá mikla samúð með mótmælum af slíku tagi, en það er greinilegt að þeir eru tilbúnir að taka þetta alla leið fari þeir með mótmælin á þetta stig.

Svo er að velta því fyrir sér hvort þeir leggi í þann krappa dans að gera þetta. Fari svo að þeir lami borgina reynir virkilega á það hvað þeir vilja taka þetta langt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tiger

Veistu, ég tel að þessi hugmynd væri eitt það allra heimskulegasta sem nokkur gæti tekið þátt í. Þeir væru að loka á allar leiðir allra hjálparstarfa og sjúkrafluttninga af byggðu bóli utan höfuðborgarinnar og sjá til þess að sjúkir eða bráðaveikir komist engan vegin á sjúkrastofnanir á höfuðborgarsvæðinu. Ef þeir eru tilbúnir að mögulega verða valdir að mannskaða - þá eru þeir heimskari en ég hélt.

Mitt mat er að þeir eru endalaust að bögglast upp að vitlausum ljósastaur. Þeir eiga fjandakornið að henda helv... trukkunum inn á allar bensínstöðvar höfuðborgarinnar og blokka alla bensínverslun. Þá fyrst færu mótmælin að hreyfa við pyngju þeirra sem greinilega skipta öllu máli í þjóðfélaginu - eða þotuliðinu, olíukóngunum og stóru félögunum sem þeim tengjast. Þá fyrst færi einhver mikill bolti að rúlla því stóru kallarnir láta ekki stoppa verslun með sína vöru þegjandi og hljóðalaust.

Með því að blokka allar bensínstöðvarnar - eru þeir farnir úr hinni almennu umferð og hættir að skapa óþarfa áhættu og trufla ekki lengur neitt sem tengist mannslífum í hættu. Skollinn hafi það að ég styð sannarlega mótmæli sem skila einhverju öðru en fávitaskap, en ég vona sannarlega að þetta séu bara sögusagnir því sannarlega væru þeir þá á snælduvitlausri leið með mótmælin og heimskari gerist það bara ekki tel ég...

Tiger, 11.4.2008 kl. 03:01

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég vona þeirra vegna að þeir geri þetta ekki. En ef það gerist hlýtur að verða fylgst grannt með viðbrögðum lögreglu. Það er klárt lögbrot að loka umferðaræðum og verði það gert kemur endanlega í ljós hvort lögum er framfylgt hér eða ekki.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.4.2008 kl. 08:36

3 Smámynd: Davíð Þorvaldur Magnússon

mér hafa nú þótt þessi mótmæli alvitlaus frá fyrsta degi og ekki er það að skána ef þetta er rétt

Davíð Þorvaldur Magnússon, 11.4.2008 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband