Rætt um að kvikmynda Gladiator 2

Gladiator

Gladiator er ein öflugasta kvikmynd síðustu ára og hlaut fimm óskarsverðlaun árið 2001, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins 2000 og fyrir leik Russell Crowe á hershöfðingjanum og skylmingaþrælnum Maximus. Þetta mikla epíska stórvirki endurvakti aftur gerð kvikmynda sem gerast á tímum Rómarveldis, en þessi gerð kvikmynda var í mikilli tísku fyrir nokkrum áratugum og voru í raun táknmynd gullaldarára kvikmyndasögu Hollywood. Nægir þar að nefna óskarsverðlaunamyndina Ben-Hur, Spartacus, The Ten Commandments, Cleopötru og The Robe.

Þessi mynd setti nokkurn tón, en þegar að hún hlaut óskarinn hafði mynd af þessum toga ekki hlotið meiri upphefð frá tímum Ben-Hur, sem fékk ellefu óskara árið 1960. Ridley Scott tókst vel upp í gerð myndarinnar, sérstaklega var tæknihliðin stórfengleg, sviðsetningin af hinu forna Colosseum tókst meistaralega vel; það er ótrúlegt hvað þeir komust nálægt hinu glæsta útliti Rómar og Colosseum til forna. Þeir unnu mikið afrek sem stóðu að listrænni leikstjórn myndarinnar og skylmingaratriðin voru gríðarlega vel gerð. Í heildina var myndin veisla fyrir augað.

Allir sem sáu myndina verða væntanlega nokkuð hissa að sjá fréttir af því núna að Russell Crowe vilji endurvekja óskarsverðlaunarulluna sína (Maximus) einkum í ljósi þess að söguhetjan lést í fyrrnefndri mynd. Það er því rétt sem sagt er í þessari frétt að varla verður það gert nema að hann snúi aftur sem afturganga eftir sögulok myndarinnar eða lýst verði aðdraganda þess sem gerðist í Gladiator. Skil ég reyndar Crowe vel að vilja leika Maximus aftur, enda er þetta það hlutverk sem færði honum eftirsóttustu leikaraverðlaun heims.

En svo á móti kemur hvort það sé hægt að gera raunhæfa framhaldsmynd um Maximus. Það hefur oft verið gríðarlega áhættusamt að feta á þessa braut. Sumar sögur verða ekki sagðar nema einu sinni. Reyndar tókst Anthony Hopkins að endurvekja dr. Hannibal Lecter (óskarshlutverk sitt) áratug eftir hina vel heppnuðu The Silence of the Lambs, en oftast nær er þetta frekar tvíeggjað sverð. Verður fróðlegt að sjá hvort framhaldsmynd verði í raun gerð.


mbl.is Russell Crowe langar til að gera Gladiator 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband