Flest stefnir í að Halldór hljóti hnossið

Halldór Ásgrímsson Það virðist stefna í nokkurn slag milli Halldórs Ásgrímssonar, fyrrum forsætisráðherra, og Jan-Eric Enestam, umhverfisráðherra Finnlands, um embætti framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar. Finnar virðast ekki beint tilbúnir að gefa eftir að Enestam verði framkvæmdastjóri, en flest bendir þó til að Halldór njóti góðs stuðnings víða á Norðurlöndum. Telja má mjög líklegt, eða nær öruggt jafnvel að hann verði framkvæmdastjóri.

Formlega hefur ekki verið gefin út yfirlýsing um framboð Halldórs af hálfu stjórnvalda, en greinilega er unnið í því á bakvið tjöldin. Hávær orðrómur um tilnefningu Halldórs í embættið hefur verið mjög áberandi síðustu vikuna, og fréttir bárust formlega af þessari stöðu mála í fréttatímum ljósvakamiðla hérlendis á þriðjudag. Jónína Bjartmarz, samstarfsráðherra Norðurlanda, og Sigríður Anna Þórðardóttir, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hafa ekki neitað því allavega í fjölmiðlum.

Væntanlega mun verða úr því skorið endanlega á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna í vikunni hver muni hljóta framkvæmdastjórastöðuna. Norðmenn styðja Halldór mjög áberandi og greinilegt að Danir og Svíar ljá máls á því að hann hljóti starfið. Það má því telja möguleika hans mjög góða og nær öruggt að hann verði næsti framkvæmdastjóri, fyrstur Íslendinga. Greinilegt er að unnið er nú að sáttum í málinu og menn geti sæst á að Halldór fái starfið.

Möguleikar hans eru auðvitað miklir, bæði er hann fyrrum forsætisráðherra og auk þess reyndur ráðherra eftir tæplega tveggja áratuga setu í ríkisstjórn Íslands. Hann er því öllum þekktur í norrænum stjórnmálum og ekki er mikil andstaða, nema í Finnlandi, við að hann hljóti embættið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband