Goðsögnin Marilyn

Marilyn Monroe Marilyn Monroe varð goðsögn í lifanda lífi á litríkum ferli sínum - eilífðarljóskan mikla. Áhrif hennar náðu út fyrir gröf og dauða. Hún setti mikið mark á samtíð sína og framtíð alla, ekki aðeins sem leikkona, söngkona og hjákona Kennedys forseta, heldur sem kynbomban mikla. 45 árum eftir dauða þessarar litríku stjörnu geislar hún sem aldrei fyrr, myndir hennar eru mjög vinsælar enn og áhrif hennar eru enn mjög áberandi um víða veröld. Og enn eru boðnar himinháar upphæðir í nektarmyndir af henni.

Held að allir kvikmyndaáhugamenn, þeir sem dýrka eitthvað stjörnuglysið, séu innst inni skotnir í Marilyn. Hún var ekki aðeins þokkadís sjötta áratugarins, heldur 20. aldarinnar í raun. Engin kona skein skærar með kynþokkanum einum og enn í dag eru sögur sagðar af lífi hennar, bæði sorgum og sigrum. Líf hennar var hálfgerð sorgarsaga undir öllu glysinu og glamúrnum. Glassúrhúðin yfir þessari viðkvæmu konu, sem varð stjarna sumpart fyrir tilviljun og breytti sér frá a-ö bara fyrir að meika það í Hollywood, virkaði merkilega sönn.



Fyrir ekki svo löngu horfði ég á hina ógleymanlegu stórmynd Billy Wilder, The Seven Year Itch - sennilega í vel yfir hundraðasta skiptið. Marilyn Monroe var aldrei flottari en þar - þetta var hápunktur ferils hennar. Nafnlausa ljóskan á efri hæðinni í fjölbýlishúsinu sem hún gerði algjörlega stórfenglega var hlutverkið sem hún festist reyndar einum of mikið í. Þessi mynd hefur alltaf heillað mig. Marilyn var auðvitað goðumlík leikkona, ekki endilega fyrir leiktúlkunina eina heldur fyrir karakterinn og þann sjarma sem hún hafði. Hún var sjarmatröll aldarinnar.

Marilyn fékk aldrei þann sess sem alvöruleikkona sem hún hefði átt að hljóta. Hún lék reyndar ansi oft heimsku ljóskuna en hún sýndi og sannaði t.d. í Bus Stop að hún leikið dramatík frá a-ö. Í Seven Year Itch er hún lifandi fersk og þar er kómík eins og hún gerist best. Þar er eftirminnilegasta atriðið með Marilyn á ferlinum - er kjóll hennar lyftist örlítið upp í vindinum við lestarstöðina. Á auglýsingaskiltum var það reyndar ýkt allverulega, enda er það mun hófstilltara í myndinni sjálfri. Þeir kunnu að auglýsa myndir í Hollywood þá.



Marilyn hefði víst orðið 82 ára á þessu ári, hefði hún lifað. Það sér enginn eilífðarljóskuna miklu fyrir sér sem gamla konu. Sá þó fyrir nokkrum árum tölvugerða mynd þar sem sérfræðingar ímynduðu sér hvernig Marilyn liti út sem gömul kona. Var glettilega vel gerð mynd, kannski fullýkt en allavega ein tilraunin til að ímynda sér hvernig lífið hefði farið með þessa stórstjörnu hefði hún lifað af mótlæti lífsins.

Hún dó á tindi síns ferils, var sett í dýrlingatölu meðal kvikmyndaáhugamanna og hefur goðsagnarsess. Það var napurt á tindi frægðarinnar og hún varð fórnarlamb glyssins. Sagan hennar markast af sorg og glamúr í senn. Merkileg saga, eiginlega of ótrúleg að vera sönn. En allt getur gerst í Bandaríkjunum, ekki satt?

mbl.is „Kynlífsmyndband“ með Monroe
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband