Álver sett á dagskrá - bæ bæ "Fagra Ísland"

Ingibjörg Sólrún Mér skilst að gárungarnir séu farnir að uppnefna Fagra Ísland - stefnu Samfylkingarinnar í umhverfis- og stóriðjumálum - Fagra álver. Það er kannski við hæfi, enda ljóst að sú stefnumótun er orðin feig. Álver í Helguvík er að verða staðreynd og álver við Bakka er í pípunum. Samfylkingin setti fram skýr kosningaloforð fyrir tæpu ári þar sem átti slá ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir á frest þar fyrir lægi heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði.

Staða mála er mjög afgerandi. Samfylkingin hefur ekkert gert til að fara þá leið og hefur látið þessa kosningastefnu fyrir róða í raun. Það er bara staðreynd, sem ekkert fær breytt. Greinilegt er að niðurlæging Þórunnar Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, í málum Helguvíkurálvers er algjör. Hún var annar af tveim þingmönnum Samfylkingarinnar sem kusu gegn Kárahnjúkavirkjun en hefur nú blessað í raun álver við Helguvík með verkum sínum að undanförnu. Það gerir hún þó greinilega með óbragð í munni, leit ekkert hamingjusamlega út allavega þá.

En var ekki Fagra Ísland alltaf draumórar? Aðeins hentistefna sem sett var fram kortéri fyrir kosningar, til að reyna að koma í veg fyrir að VG yrði stærsti vinstriflokkurinn í alþingiskosningunum 2007. Hef alltaf talið svo vera. Þegar að Ingibjörg Sólrún kynnti Fagra Ísland á sínum tíma var ég viss um að þar væri um að ræða hentistefnu. Skrifaði um það ítarlega grein í september 2006. Get ekki betur séð en að þar hafi mjög margt ræst. Þá þegar voru Samfylkingarmenn á heimavelli að berjast fyrir stóriðjukostum í Helguvík og Bakka, eins og allir vita.

Þessi stefnuáhersla Samfylkingarinnar kom mörgum spánskt fyrir sjónir þegar að litið var á þá staðreynd að Samfylkingin var mjög afgerandi í stuðningi sínum við Kárahnjúkavirkjun og álver á Austurlandi fyrir nokkrum árum. Sérstaklega voru þingmenn flokksins í Norðausturkjördæmi, þeir Kristján L. Möller og Einar Már Sigurðarson, afgerandi stuðningsmenn þess og sagði Kristján í viðtali að loknum blaðamannafundi þá að hann væri enn þeirrar skoðunar að álver hafi verið réttur kostur fyrir austan. Sjálf studdi reyndar ISG virkjunina í borgarstjórn.

Veit ekki hvort að það teljast tíðindi að Fagra Ísland sé í raun gufað upp úr stefnupólisíu Samfylkingarinnar. Og þó. Mikil áhersla var lögð á þetta plagg. Þeir hljóta að bera harm sinn í hljóði sem sömdu þetta plagg fyrir Ingibjörgu Sólrúnu á sínum tíma, en hafa reyndar nú nýlega varið  einkaflug formannsins opinberlega, eru allavega mun rólegri í harmi sínum en þeir sem kusu flokkinn og hafa þorað að tjá sorg sína á bloggsíðum. Enda voru þeir illa sviknir sennilega. En svona er víst pólitíkin.

mbl.is Reikna með Helguvíkurálveri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 15.4.2008 kl. 16:24

2 Smámynd: Bumba

Frábær pistill frændi. Þarna sýnir Samfylkingin sitt rétta andlit. Niður með Samfylkinguna og allt hennar lið. Með beztu kveðju.

Bumba, 15.4.2008 kl. 16:42

3 identicon

Ekki vissi ég að þú stundaðir undirbeltishögg. Ekki vissi ég að þú bloggaðir um það sem þú átt að vita betur, eða ekki vissi ég að þú værir svona illa tengdur við Flokkinn. Samfylkingin er ekki með hreinan meirihluta á Reykjanesi, landi eða í bæ. En það er Samfylkingin sem er bremsuborðinn varðandi umhverfismál, á landsvísu og víða. Ekki viltu að við förum að velta við ýmsu sem Flokkurinn vill ekki í umhverfismálum, er það Stefán Friðrik? Ertu bara svona? Mælist þú bara svona, ekki hærri en þetta? Veistu bara ekki betur varðandi umhverfis- og skipulagslög? Veistu ekki um krumlu flokksbróðurs þíns fjármálaráðherrans ofan í hálsmál okkar Akureyringa í þjóðlendumálunum? Viltu ekki vita það? Er þér sama? Eða er bara gaman að slá út í loftið. Bloggaðu um eitthvað annað. Þetta fer illa saman við "lúkkið".

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 17:33

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þakka kommentin.

Gísli: Hvað ertu að meina? Er það ekki rétt að Samfylkingin hefur ekki staðið við Fagra Ísland ef Helguvíkurálver verður að veruleika?

Ég skrifaði um Árna Mathiesen í gær og sagðist hafa misst allt álit mitt á honum. Það hefur ekki breyst.

Stefán Friðrik Stefánsson, 15.4.2008 kl. 18:09

5 identicon

Helguvík er ekki komið á dagskrá sbr: http://dofri.blog.is/blog/dofri/entry/507439/#comments Skólflustunga kemur ekki álveri á dagskrá.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 15.4.2008 kl. 18:22

6 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Það er ljóst að Stebbi skilur ekki Fagra Ísland eða hann hefur ekki lesið það sem mér finnst líklegra í þessu sambandi

Jón Ingi Cæsarsson, 15.4.2008 kl. 20:19

7 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

http://www.samfylking.is/Forsida/Kosningastefna2007/UmhverfisstefnaFagraIsland/FagraIsland/

Stebbi.... ráðherrar Samfylkingar hafa talað gegn því að álversframkvæmdir hefjist í Helguvík. Það er einfaldlega ekki í valdi ríkisvalds að stöðva með beinum hætti framkvæmdir í sveitarfélögum. Það gæti aftur orðið vandi fyrir þessar framkvæmdir að fá losunarkvóta...flytja rafmagn og tryggja með þeim hætti að þessu ljúki. Allir sem það vilja vita þekkja sögu þessa gjörnings að keyra áfram Helguvíkurálver þvert á vilja stjórnvalda....og reyndu nú að sklila þetta og segja rétt frá...hér er svo linkur á Fagra Ísland...kíktu á það og svo skal ég hlýða þér yfir

Jón Ingi Cæsarsson, 15.4.2008 kl. 20:29

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Gísli: Finnst þér líklegt að Helguvíkurálverið verði stöðvað úr þessu?

Jón Ingi: Heldurðu að ég hafi ekki kynnt mér stefnu Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar? Ég er það pólitískur að ég les stefnudrög allra flokka og hef mikinn áhuga á pólitík. Ég les ekki bara hægririt daginn út og inn. Enda hef ég alveg þorað að rífa kjaft þegar að hægrimenn flaska á einhverju. Flokkurinn og þeir sem fronta hann eru ekkert heilagir hvað það varðar. Má vel vera að ég sé flokksbundinn en ég er ekki blindur flokkshestur.

Orðrétt stendur í kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar:
"Slá ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð." 

Það bera margir sem kusu Samfylkinguna síðast harm sinn í hljóði en aðrir láta í sér heyra, eru ekki par hrifnir. Þetta vitum við báðir. Við þurfum ekkert að snúa hlutunum á hvolf Jón Ingi.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 15.4.2008 kl. 21:08

9 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

jæja Stebbi minn....þú hefur sem sagt ákveðið að skilja þetta ekki...þó auðskilið sé....lestu nú " #Stebbi.... ráðherrar Samfylkingar hafa talað gegn því að álversframkvæmdir hefjist í Helguvík. "

En ég nenni ekki að reyna að fá þig til að skilja þetta...það er tilgangslaust

Jón Ingi Cæsarsson, 15.4.2008 kl. 22:15

10 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ráðherrar Samfylkingarinnar hafa kannski sagt það, en þeir hafa ekkert gert í því Jón Ingi að koma í veg fyrir álverið. Stundum fara orð og gjörðir ekki saman. Þetta er sennilega kjarni málsins og það sem veldir því að þú ert ekki með á þetta sjálfur.

Stefán Friðrik Stefánsson, 15.4.2008 kl. 23:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband