Rassinn á Vilhjálmi prins afhjúpaður í The Sun

William GropeEfast er um dómgreind prinsanna Vilhjálms og Harry eftir að steggjaveisla, sem þeir skipulögðu fyrir frænda sinn, fór úr böndunum og myndir úr henni láku til blaðsins The Sun. Þar er meðal annars rassinn á Vilhjálmi afhjúpaður, er vinir hans ætluðu að taka niður um hann buxurnar í fylleríslátum fyrir framan alla viðstadda, en honum rétt tókst að halda buxunum uppi en myndir voru teknar af því og birtar í blöðunum ásamt fleirum miður heppilegum fyrir prinsana.

Lýsingarnar á steggjapartýinu eru ansi svæsnar og áhugaverðar. Þar vekur sérstaka athygli að konur í partýinu voru manaðar, af prinsunum, í að raða geisladiskum á geirvörturnar á sér. Sú sem vann það gat komið alls átta geisladiskum á. Auk þess eru sögur um að kærasti frænku prinsins hafi verið nakinn í rúmi með tveim stelpum og svona mætti lengi telja. Þvílík upptalning allavega. Enn einn áhugaverði skandallinn fyrir bresku konungsfjölskylduna.

Þegar að loksins var tekið að róast yfir konungsfjölskyldunni, vegna drykkjuláta Harrys prins, kemur þetta sem köld vatnsgusa yfir hirðina, og er einkum niðurlægjandi fyrir drottninguna og Karl Bretaprins væntanlega. Flestum er í fersku minni er Harry var myndaður með hakakrossinn á djamminu en það tók hirðina nokkurn tíma að reka það slyðruorð af Harry, sem honum tókst reyndar að bæta fyrir með mannúðarstarfi og förinni á vígvöllinn.

Skandalar hafa löngum þjakað konungsfjölskylduna. Nú er næsta kynslóð tekin við þeim pakka og greinilegt að verðandi konungur Englands hefur skaðað stöðu sína með þessu að einhverju leyti hið minnsta. Allavega hefur hann afhjúpað sig fyrir þjóð sinni með þeim hætti sem helst verður munað eftir, ekki vegna drykkjunnar sennilega heldur vegna þess að missa niðrum sig á almannafæri og fá mynd af sér í The Sun berrössuðum.

En ég bendi annars öllum á að lesa umfjöllunina um þetta villta steggjarpartý.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Ég held það hneykslist enginn á þessu nema einhverjar teprur kannski.

Það er nú ekki nýtt af nálinni að konungsfjölskyldan standi í smá svalli. 

Steinn E. Sigurðarson, 16.4.2008 kl. 12:53

2 identicon

Sæll Stefán.

Mér finnst nú ekkert svæsið eða áhugavert við svona partý. Þetta er bara ungt fólk að skemmta sér. Og þegar líður á fylliríið kemur nú oftast dálítill galsi í liðið. Mér finnst bara fínt að það skuli vera dálítill gauragangur í prinsunum. Það er ekki ósjaldan þannig, að þeir sem eru fyrirferðarmiklir á þessu sviði á ungdómsárunum, verða þeir sem mest er varið í á fullorðinsaldrinum.

Eða eins og máltækið segir: "Oft verður góður hestur úr göldum fola".

Kveðja,

Kári Lár.

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 20:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband