Halldór kjörinn í norræna toppstöðu

Halldór Ásgrímsson Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, hefur verið kjörinn framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar á Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn. Hann tekur við starfinu þann 1. janúar nk. og mun starfa sem framkvæmdastjóri í Kaupmannahöfn frá þeim tíma. Það kemur varla að óvörum að Halldór fái þetta embætti, en hann hefur mikla reynslu sem stjórnmálamaður að baki, enda verið forsætisráðherra Íslands og auk þess forystumaður í íslenskum stjórnmálum til fjölda ára.

Halldór var kjörinn á Alþingi fyrst sumarið 1974, þá 26 ára að aldri. Hann féll í þingkosningunum 1978, en náði kjöri að nýju í desemberkosningunum 1979 og sat á þingi eftir það allt til haustsins 2006. Hann varð varaformaður Framsóknarflokksins sumarið 1980 við brotthvarf Einars Ágústssonar úr stjórnmálum og varð formaður Framsóknarflokksins í apríl 1994 er Steingrímur Hermannsson varð seðlabankastjóri. Tólf ára formannsferill Halldórs varð bæði öflugur tími og stormasamur fyrir Framsóknarflokkinn.

Halldór sat í ríkisstjórn nær samfleytt í rúmlega tvo áratugi. Hann var sjávarútvegsráðherra 1983-1991, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988-1989, utanríkisráðherra 1995-2004 og forsætisráðherra 2004-2006. Aðeins Bjarni Benediktsson hefur setið lengur í ríkisstjórn en Halldór Ásgrímsson. Enginn deilir um það að Halldór Ásgrímsson hefur verið mikill áhrifamaður í íslenskum stjórnmálum. Hann var ein helsta burðarás ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá árinu 1995.

Það er gleðiefni fyrir okkur Íslendinga að reyndur stjórnmálaleiðtogi okkar skuli taka við þessari miklu stöðu, fyrstur allra íslenskra stjórnmálamanna. Óska ég Halldóri Ásgrímssyni til hamingju og óska honum allra heilla á nýjum vettvangi í Kaupmannahöfn.

mbl.is Halldór kjörinn framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband