Spennan vex í bandarísku þingkosningunum

George W. Bush Það stefnir í öflugan lokasprett í bandarísku þingkosningunum, sem verða eftir viku. Skoðanakannanir sýna forskot demókrata og George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, er farinn í kosningaferðalag um landið á lykilstaðina til að reyna að snúa hlutunum við. Nú nýtur Bush reyndar sjálfur ekki nema um 40% fylgis landsmanna skv. skoðanakönnunum, svo að ferðalagið getur orðið tvíeggjað sverð - en á það hætta repúblikanar nú í baráttunni.

Í þingkosningunum 2002 var það Bush, eiginkona hans, Laura Welch Bush, og varaforsetinn Dick Cheney sem fóru um landið og héldu kosningafundi með miklum þunga og tryggðu lykilsigra, bæði í fulltrúadeildinni og öldungadeildinni - sigra sem skiptu forsetann máli til að byggja sig upp fyrir forsetakosningarnar 2004. Nú er stjórnmálaferli forsetans að ljúka, hann getur ekki farið aftur í kosningar og framtíð mála í valdatíð hans veltur á úrslitunum eftir viku. Mikið er svo sannarlega í húfi.

Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, er nú í fréttatímum og á fréttavefum vestan hafs og segja að uppreisnarmenn í Írak hafi hert árásir sínar í landinu í því skyni að hafa áhrif á komandi þingkosningar í Bandaríkjunum. Eflaust er það rétt. En mun það styrkja stöðu repúblikana að beina kastljósinu til Íraks. Það gæti heppnast út frá varnarlegri umræðu, en gæti líka orðið hált vopn sem snýst gegn þeim í hita lokadaganna. Orð dagsins hjá Bush og Cheney í fréttum og kosningasamkomum er að demókrata skorti vilja til sigurs í Írak og hafi enga stefnu í málum þeim tengdum.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig lokaspretturinn stefnir fyrir flokkana. Mikið er í húfi. Kosið er um alla fulltrúadeildina og hluta öldungadeildarsæta. Úrslitin í fulltrúadeildinni munu því auðvitað hafa meiri yfirsýn að segja um stöðuna fyrir forsetakosningarnar 2008. Bush fer ekki fram þá, svo litlu skiptir fyrir hann hvernig sá slagur æxlast. Það sem skiptir hann máli nú eru næstu tvö ár, hann vill halda yfirráðum flokksins yfir þinginu og tryggja völd sín. Án þeirra verður hann valdaminni og einangraðri fyrir vikið.

Þetta verða spennandi kosningar og verður með þeim víða fylgst. Ég hef alla tíð verið mikill áhugamaður um bandarísk stjórnmál, svo ég mun skrifa reglulega um stöðu mála þar til yfir lýkur að viku liðinni og úrslitin taka að streyma inn.

mbl.is Aukin ofbeldisverk í Írak sögð tengjast kosningunum í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband