Kvennapælingar Steinunnar Valdísar

Steinunn Valdís Steinunn Valdís Óskarsdóttir er aftur komin í prófkjörsslag, níu mánuðum eftir að hafa orðið undir í leiðtogaslag við Dag B. Eggertsson í borgarmálunum. Mér fannst alltaf merkilega lítið fjallað um það á vinstrivængnum að Samfylkingarfólk skyldi hafna sitjandi borgarstjóra, konu á valdastóli. Það vakti athygli mína þegar að Steinunn Valdís var sýnd í Kastljósviðtali í júní að pakka niður á borgarstjóraskrifstofunni að hún sagðist aðspurð án þess að blikna hefði náð betri úrslitum í vor en Dagur.

Steinunn Valdís er farin að blogga aftur, enda í framboði. Mér fannst þó leitt að hún notaði ekkert vefinn eftir prófkjörið í febrúar fram að þessum prófkjörsslag. Ég skil þingframboð hennar vel, enda hlýtur hún að hafa metnað til að skipta um vettvang eftir borgarmálaprófkjörið. Henni er umhugað greinilega um stöðu kvenna í prófkjörum, skiljanlega eftir úrslitin í febrúar. Þetta kemur vel fram í pistli á vef hennar um helgina, þar sem hún fer yfir úrslit prófkjörs sjálfstæðismanna í borginni þar sem að þrjár konur urðu meðal tíu efstu, allt sæti sem eiga að vera örugg að vori, altént í huga okkar sjálfstæðismanna. Vonandi verða sætin þó fleiri auðvitað, öll viljum við helst Dögg eða Grazynu á þing!

Það vekur mikla athygli mína að hún hafi eftir þessi vefskrif ekki sest við tölvuna og hamrað á lyklaborðið nokkur vel valin orð um prófkjör Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Þar var einu þingkonu kjördæmisins, samfylkingarkonunni Önnu Kristínu Gunnarsdóttur hafnað, eftir fjögurra ára þingsetu og henni boðið varamannsframboð og að vera vísað til sætis á eftir heiðursmönnunum Guðbjarti Hannessyni og Karli V. Matthíassyni. Formaður flokksins gat ekki leynt vonbrigðum sínum með hlutskipti Önnu Kristínar og hafði orð á því verandi á talningarstað á Akranesi.

Það er mjög merkilegt að Steinunn Valdís Óskarsdóttir sér enga ástæðu til að tala um þetta bakslag samfylkingarkvenna. Miðað við áhyggjur hennar af stöðu kvenna innan Sjálfstæðisflokksins þá hlýtur þessi fyrrnefnda niðurstaða í Norðvesturkjördæmi að vera henni og stallsystrum hennar það mikið áfall að vert sé að blogga um það, enda munu karlmenn verma bæði öruggu framboðssætin til Alþingis af hálfu flokksins í komandi kosningum.

Nú er bara að bíða og sjá hvort áhyggjur Steinunnar Valdísar af meintum kvennaskorti sjálfstæðismanna í Reykjavík nái bara til annarra flokka eða hvort hún sjái ástæðu til að fjalla um vanda Samfylkingarkvenna í norðvestri.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband