Kristján Þór og Þorvaldur opna á sama tíma

Kristján Þór Eins og fram kom á vef mínum í gær er prófkjörsbaráttan að hefjast af krafti hér í Norðausturkjördæmi. Aðeins níu hafa gefið kost á sér í prófkjörið 25. nóvember nk. en þrír berjast hinsvegar um leiðtogastöðuna, sem losnar við brotthvarf Halldórs Blöndals úr stjórnmálum. Leiðtogaslagurinn stefnir í að verða mjög líflegur, kostnaðarmikill og beittur. Þegar hafa Kristján Þór Júlíusson og Þorvaldur Ingvarsson ákveðið opnun á kosningaskrifstofum og heimasíðum.

Það vekur mikla athygli flokksmanna að þeir ætla báðir að opna kosningaskrifstofur sínar á föstudaginn og það á nákvæmlega sama tíma, kl. 17:00. Kristján Þór verður með kosningaskrifstofu í göngugötunni í miðbænum, að Hafnarstræti 108, þar sem Bókabúð Jónasar var til húsa í áratugi, en hún lokaði fyrr á árinu. Það er mjög öflugt pláss og svo sannarlega á besta stað í hjarta bæjarins og segir allt sem segja þarf um þungann sem leggja á í baráttuna af Kristjáni og stuðningsmönnum hans.

Þorvaldur Ingvarsson Þorvaldur Ingvarsson ætlar á sama tíma að opna kosningaskrifstofu í Kaupvangsstræti 21, sem er við hliðina á Café Karólínu eins og fram kom í gær. Það hefur ekki verið hefð hér að leiðtogaframbjóðendur opni kosningaskrifstofu, með standandi veitingum og opnu húsi allar síðdegisstundir í aðdraganda prófkjörs, á Reykjavíkurskala, en svo verður núna og af miklum krafti. Stefnir því í lífleg átök, þó að fáir gefi kost á sér í prófkjörinu má búast við hörðum slag um leiðtogastólinn hið minnsta. Það verður væntanlega mjög dýr slagur líka.

Eins og sagði hér í gær hafa bæði Kristján Þór og Þorvaldur opnað heimasíður á netinu. Þær fara þó varla af stað af miklum þunga fyrr en á föstudag við opnun á kosningaskrifstofum þeirra á sömu stundinni. Kristján Þór verður með vefinn stjaniblai.is og Þorvaldur mun verða með heimasíðuna á slóðinni valdi.is. Stefnir því í lífleg og hressileg átök svo sannarlega. Fögnum við flokksfólk hér svosem öflugum og beittum slag, en þunginn í slagnum stefnir í að verða meiri en áður var talið. Það er svosem ekki verra fyrir okkur öll að hafa valkosti til þingframboðs.

Enn er spáð og spekúlerað í hvað Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður, ætlar að gera í baráttunni, en þegar liggur fyrir að Ólöf Nordal verður með kosningaskrifstofu í Kaupvangsstræti 1, sama húsi og Ríkisútvarpið hefur aðstöðu í hér á Akureyri. Sýnir það vel að Ólöf sækir af krafti til Akureyringa og vill kynna framboð sitt hér með öflugum hætti, sem við kvörtum ekki yfir.

En það verður fróðlegt að rýna í föstudaginn og stöðu mála við opnun kosningaskrifstofanna hjá bæjarstjóranum og svo hjá formanni Sjálfstæðisfélags Akureyrar sem báðir berjast um leiðtogastólinn í sama öfluga slagnum og opna baráttuna á sömu stund á miðbæjarsvæðinu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband