Dýrkeyptur brandari fyrir John Kerry

John Kerry Það er ekki hægt að segja annað en að öldungadeildarþingmaðurinn John Kerry hafi farið mjög illa að ráði sínu með orðavali sínu í vikunni um hermenn í Írak. Ummælin féllu í svo grýttan jarðveg að hann hefur nú neyðst til að víkja úr kosningabaráttu demókrata fyrir þingkosningarnar á þriðjudag í næstu viku og hætta við alla fyrirfram ákveðna fundi sína með frambjóðendum í kosningunum. Þetta þykir allt í besta falli neyðarlegt fyrir Kerry, sem var forsetaefni flokksins fyrir tveim árum, en í versta falli sagt skaðandi fyrir stjórnmálaferil hans.

Lét Kerry þau orð falla að það væri nú eins gott fyrir bandarísk ungmenni að standa sig vel í lífinu, svo að þau myndu nú ekki enda í Írak. Með þessu mátti skilja að Kerry teldi að það væri aðeins fólk sem hefði orðið undir í námi eða í lífinu sem færi til Íraks. Þetta voru ummæli sem hittu ekki í mark og forystumönnum flokksins var ekki skemmt og honum var snarlega gert það ljóst að nærveru hans væri ekki óskað við þessar aðstæður í þeim lykilkosningabaráttum sem við flokknum blasa þessar vikurnar. Sérstaklega munu suðurríkjademókratar hafa orðið æfir og skipað flokksforystunni að halda Kerry í Washington.

John Kerry hefur jafnan verið mjög umdeildur stjórnmálamaður. Hann var mistækur í kosningabaráttunni um Hvíta húsið fyrir tveim árum og þótti vera lausmáll og ekki alltaf vera heppilegur í orðavali. Ummæli hans um að hann hefði fyrst greitt atkvæði með máli og svo greitt atkvæði gegn því voru spiluð aftur og aftur af Bush-kosningamaskínu repúblikana og voru skaðlegar fyrir hann, enda kom með því sú ímynd á hann að þar færi vingull sem skipti um skoðanir æ ofan í æ, sem reyndar kom svo berlega í ljós þegar að rekkord hans í öldungadeildinni var kannað með smásjá.

Nú verður að ráðast hvort að ummælin skaði möguleika demókrata í kosningunum í næstu viku. Demókratar eru allavega ekki tilbúnir að taka áhættuna af að ferðast með Kerry um landið næstu dagana og loka á fundaferð hans. Bush forseti hefur tekið málið upp æ ofan í æ í dag og bent á að Kerry ætti að skammast sín og biðjast afsökunar. Um fátt hefur verið meira rætt vestanhafs í dag en klaufaskap Kerrys, sem varla sannar með þessu reynslu sína sem stjórnmálamanns, en hann hefur setið í öldungadeildinni í 22 ár. Þetta eru með ólíkindum klaufaleg og dómgreindarlaus ummæli, hreint út sagt.

Nú ræðst hvort að demókratar tapa á ummælunum. Sjálfur hefur Kerry sagst iðrast ummælanna en ekki gengið svo langt að biðja afsökunar á þeim. Á meðan að umræðan grasserar og versnar er ekki furða að demókratar velji þann kostinn að þröngva Kerry út úr sviðsljósinu með kosningarnar svo skammt undan. Þetta er mjög neyðarlegt fyrir Kerry, sem fyrir aðeins tveim árum var forsetaefni demókrata en er nú ekki treyst fyrir að fara um landið í fundaferð fyrir þingkosningar vegna þessa dýrkeypta brandara síns.


Viðbót - kl. 23:45

Kerry var að gefa út yfirlýsingu og biðjast opinberlega afsökunar á ummælum sínum vegna þrýstings innan úr flokknum

Umfjöllun CNN um afsökunarbeiðni John Kerry

mbl.is John Kerry dregur sig í hlé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Hrafn Gunnarsson

Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta furðulega lagt út af ummælum Kerry í þessari bloggfærslu hjá þér. 

Bent skal á að Kerry sagði í þessari ræðu sinni:

"You know, education -- if you make the most of it, you study hard and you do your homework and you make an effort to be smart, you can do well."If you don't, you get stuck in Iraq."

Að þýða þessa setningu sem "endar þú í Írak" er beinlínis rangt, það er ekki spurning um túlkun heldur er þetta rangt. Eðlileg þýðing væri "Festist þú í Írak", eða önnur í þeim dúr.

Ef maður les svo það sem Kerry var að segja í þessari ræðu sinni þá er það mjög augljóst að hann á við Bush forseta með þessum ummælum sínum. Það að túlka ummæli hans á þann veg sem Bush og kónar hans hafa gert ber í besta falli merki um illan hug og er enn eitt merki um siðferðilegt gjaldþrot þessara manna.

Það er nóg að Bush og félagar stundi vinnubrögð á slíku plani. Maður mundi vona að íslenskir stuðningsmenn þeirra hefðu annað að gera en að éta óþokkabrögðin upp eftir þeim. 

Kveðjur :)

Þórir Hrafn Gunnarsson, 2.11.2006 kl. 00:06

2 Smámynd: Þórir Hrafn Gunnarsson

Humm.. vil reyndar taka fram að "siðferðilegt gjaldþrot" á við um bandarísk stjornvöld, en ekki stuðningmenn þeirra hér á landi. 

Kveðjur :)

Þórir Hrafn Gunnarsson, 2.11.2006 kl. 00:15

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Mér finnst viðbrögðin við ummælum Kerrys segja allt sem segja þarf í þessu. Einkum bara viðbrögðin meðal demókrata. Þetta var mikið feilskot, það blasir við öllum. Það er mjög leitt að sjá svona klaufaskap hjá manni í þessari stöðu og ég get ekki betur séð á umfjöllun bandarískra fjölmiðla en að þetta sé aðalfréttaefnið, það er ekki hægt annað en skilja það mjög vel.

Stefán Friðrik Stefánsson, 2.11.2006 kl. 00:17

4 Smámynd: Þórir Hrafn Gunnarsson

Viðbrögð Demókrata benda aðallega til þess að þeir eru pirraðir á Kerry fyrir að veita svona óþarfa höggstað á sér, þ.e. með ummælum sem spindoktarar repúplikana gátu tekið svona úr samhengi og rangtúlkað. Kerry átti að gera sér grein fyrir því hve lágt Karl Rove og félagar er tilbúnir til að leggjast og þetta eru afglöp af hans hálfu, það er það sem hægt er að lesa úr viðbrögðu demókrata (reyndar líka það að þeir telja hann óttalegan aulabárð og er það rétt mat).

Það stendur þó ennþá að orð Kerry eru furðulega "túlkuð" af spunavél hvítahússins og ég bendi aftur á það að þýðing þín á orðum Kerry er beinlíns röng.

Kveðjur :) 

Þórir Hrafn Gunnarsson, 2.11.2006 kl. 00:36

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Kerry hefur beðist afsökunar, en hefði betur gert það í gær. Það er bara þannig. Þessi ummæli voru manni sem einu sinni var næstum orðinn forseti Bandaríkjanna til algjörrar skammar og það nennir enginn einu sinni að verja þetta, þetta eru óverjandi ummæli.

Stefán Friðrik Stefánsson, 2.11.2006 kl. 00:39

6 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Talandi um Írak og ungmennin þar - er Bush ekkert á leiðinni að biðjast afsökunar á því að senda þangað ríflega 3000 ungmenni í dauðann, algerlega án árangurs í stríðinu? Ástandið er eldfimara en nokkru sinni, Írakar hafa það ennþá verra en þegar sjálfur Saddam var við völd (og var þó engin sældartilvera) og engin er lausnin í sjónmáli. Enda er blessaður Bush hættur að tala um að "hvika hvergi" - nú er viðkvæðið að "við erum sveigjanleg" í stríðsrekstrinum, sem er NB dæmdur til að mistakast 100%.

Að því sögðu er John Kerry afglapi að gefa svona opið færi á sjálfan sig og ljóst að hans sénsar eru uppurnir. Hann hefði hvort eð er líklega ekki átt séns í Barack Obama í forvalinu þegar þar að kemur.

Jón Agnar Ólason, 2.11.2006 kl. 01:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband