Björn og álitsgjafarnir

Björn Bjarnason Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur síðustu daga fjallað mikið um álitsgjafana á blogginu sínu. Það hafa verið áhugaverð og lífleg skrif að mínu mati. Sérstaklega er ég sammála honum varðandi Birgi Guðmundsson, álitsgjafa hér á Akureyri. Sú var nú tíðin þegar að hasarinn var sem mestur um Framsóknarflokkinn í formannstíð Halldórs Ásgrímssonar að Birgir virtist jafnhelgaður flokknum í stúdíu og Hildur Helga Sigurðardóttir er bresku konungsfjölskyldunni.

Varla mátti framsóknarmaður hreyfa sig nema að Birgir væri beðinn um að greina þá hina minnstu breytingu. Þess vegna fannst mér merkilegt þegar að Birgir var kallaður til um daginn og settur í það verkefni að greina stöðu mála í Sjálfstæðisflokknum eftir prófkjörið í Reykjavík. Ég veit ekki hvaða þekkingu Birgir hefur á innri málum Sjálfstæðisflokksins umfram Jón Jónsson, verkamann í Breiðholtinu, svo ég tali hreint út. Þetta var mjög kostulegt álitstal um málefni okkar flokks sem fram komu.

Ég tek undir þá skoðun Björns að ég veit ekki hvaða forsendur Birgir hefur til að fara yfir mál okkar flokks og stöðuna sem þar er innbyrðis, frekar en hver annar maður úti á götu. Nú ætla ég að taka fram að mér finnst Birgir Guðmundsson ekki leiðinlegur stjórnmálaáhugamaður en ég verð hinsvegar að viðurkenna að mér þykir þetta álitsgjafahlutverk hans hafa farið nokkuð úr böndunum. Oftar en ekki hafa spádómar Birgis reynst skjóta yfir markið. Gott dæmi var þegar að hann spáði eftir að Halldór Ásgrímsson hætti að nú myndi sennilega Valgerður hætta bráðlega í stjórnmálum. Nokkrum dögum síðar varð Valgerður utanríkisráðherra, fyrst kvenna.

Nokkru síðar lýsti Valgerður yfir að hún ætlaði ekki í formannsframboð í flokknum og aftur kom sami spádómur Birgis. Reyndar var það skondið enda fylgdi það með yfirlýsingu Valgerðar að hún væri einmitt að ákveða að fara ekki í formannsframboð til að sinna betur kjördæmi sínu samhliða ábyrgðarmiklu ráðuneyti.

Það er gömul saga að álitsgjafar í stjórnmálum koma og fara. En það að telja Birgi Guðmundsson sérstakan álitsgjafa um innanbúðarmál í Sjálfstæðisflokknum er skemmtilega fjarstæðukennt að mínu mati. Getur hann ekkert sagt lengur um Framsókn?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband