George W. Bush horfir til loka valdaferilsins

Cheney, Bush og Rumsfeld Í dag eru tvö ár liðin frá því að George W. Bush var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna. Seinna kjörtímabil forsetans er því hálfnað og rúm tvö ár í það að hann yfirgefi Hvíta húsið og haldi til Texas. Í næstu viku ræðst það hvernig völd hans verða í Washington lokamisseri valdaferilsins, þegar að Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu og kjósa alla fulltrúadeildina og hluta öldungadeildarinnar. Tap í kosningunum yrði meiriháttar áfall fyrir forsetann.

Tveim árum eftir kosningarnar hefur George W. Bush nú ákveðið að Dick Cheney, varaforseti, og Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra, verði í sínum embættum út kjörtímabilið með honum og yfirgefi valdastóla samhliða því er hann yfirgefur Hvíta húsið og flýgur inn í sólarlag ævinnar í Texas. Þessi yfirlýsing er að mínu mati mjög voguð og hugrökk í framsetningu á þessu viðkvæma tímabili repúblikana, en skiljanleg vissulega. Þó að báðir séu umdeildir eru þeir límið í ríkisstjórninni. Fyrirfram taldi ég ólíklegt að Rumsfeld yrði til loka í sínu embætti, en hann verður orðinn 77 ára í janúar 2009 er tímabilinu lýkur.

Það er merkileg staðreynd að John Kerry er búinn að missa allan trúverðugleika sem stjórnmálamaður eftir ummæli sín í vikunni, aðeins tveim árum eftir að hann var naumlega orðinn forseti Bandaríkjanna í jöfnum átökum við forsetann. Vandræðagangur hans er með ólíkindum og niðurlæging hans algjör. Ummæli hans eru áfall fyrir demókrata á viðkvæmum tímapunkti. Þrátt fyrir allt það virðist forskot demókrata nokkuð mikið. Staðan ræðst best í fulltrúadeildinni, þar sem öll sæti eru undir. Þar fáum við beint í æð hvernig Bandaríkjamönnum líður pólitískt fyrir forsetakosningarnar 2008.

Um fátt er meira rætt vestanhafs en hverjir takist á um forsetaembættið þegar að Bush hættir. Línur í þeim efnum skýrast verulega eftir kosningarnar á þriðjudag. Fyrirfram má telja Hillary Rodham Clinton og Barack Obama sterkust demókratamegin og þá John McCain og Rudolph Giuliani repúblikanamegin. Það verða nýjar áherslur því eftir tvö ár, sama hver verður ofan á. Það verða umskipti.

Ég hef aldrei farið leynt með að ég er ekki hrifinn af Donald Rumsfeld á þeim stað sem hann er nú. Mér finnst það bera vott um hugaðan stjórnmálamann að halda í hann og tilkynna það nú. Það verður fróðlegt að fylgjast með stöðunni eftir þriðjudaginn - þá ræðst hvernig síðasta misseri valdaferils Bush forseta mun ganga fyrir sig.

mbl.is Bush: Rumsfeld og Cheney munu starfa áfram í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband