Styttist í prófkjörsúrslit Samfó í Norðaustri

Samfylkingin Kosningu í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi lauk í vikunni, en þriðjudagurinn var síðasti skiladagur kjörgagna í póstkosningu flokksmanna. Baráttunni er því lokið og aðeins beðið nú úrslitanna í prófkjörinu. Þau verða ljós á laugardag, en talning fer þá fram á Akureyri. Níu frambjóðendur voru í kjöri og er kosið um þrjú efstu sæti framboðslistans.

Benedikt Sigurðarson, Kristján L. Möller, Ragnheiður Jónsdóttir og Örlygur Hnefill Jónsson sækjast öll eftir leiðtogasætinu, en þeir Benedikt og Kristján sækjast aðeins eftir fyrsta sætinu en hin tvö nefna 1. - 3. sætið. Auk þeirra voru í kjöri Einar Már Sigurðarson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Kristján Ægir Vilhjálmsson, Lára Stefánsdóttir og Sveinn Arnarsson. Einar Már og Lára berjast um annað sætið, en þau skipuðu annað og þriðja sætið í síðustu kosningum. Allt er þetta frambærilegt fólk, en með mismikla möguleika eins og gengur.

Svenni bloggvinur og Kristján Ægir takast á um þriðja sætið við Austfirðinginn Jónínu Rós og verður fróðlegt að sjá hvernig að ungliðunum gengur í slagnum, en báðir eru þeir héðan frá Akureyri. Mesta spennan verður yfir slagnum um fyrsta og annað sætið tel ég. Bensi og Kristján hafa tekist á af krafti um forystuna og minnt vel á sig með auglýsingum, heimasíðu og almennri kynningu á opinberum vettvangi. Það verður fróðlegt að sjá hvor vinnur kjörið, varla eiga hin möguleika á leiðtogastólnum. Ég tel Kristján standa mun sterkar.

Jafnframt er öllum ljóst að prófkjörsreglurnar tryggja að fulltrúi annars kynsins á öruggt sæti í topp þremur. Það geta því ekki verið þrír karlar eða þrjár konur í efstu sætunum, svo dæmi sé tekið. Fyrirfram má telja Láru sterkasta kvennanna í eitt af þrem efstu sætunum og það væru stórtíðindi næði hún ekki öruggri kosningu svo ofarlega. Austfirðingar munu vera orðnir uggandi um hag Einars Más, en varla á Jónína Rós séns á þessu. Það verður verulegt áfall fyrir austfirska samfylkingarmenn verði aðeins norðanmenn í efstu sætum.

Það vakti mikla athygli mína að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar á Akureyri, Hermann Jón og Sigrún, skyldu styðja Kristján Möller með svo áberandi hætti, en bæði hafa þau birst í auglýsingum hans og á heimasíðunni. Við Akureyringar höfum ekki beinlínis séð mikið af verkum hans hér í bæ og teljum hann varla mikinn fulltrúa Akureyrar á Alþingi. Það er greinilega eitthvað þungt á milli forystu Samfylkingarinnar hér í bæ og Bensa, sé tekið mið af þessu öllu. Bensi gat ekki leynt vonbrigðum sínum og veittist á vef sínum að bæjarfulltrúunum fyrir að vinna með okkur sjálfstæðismönnum í bæjarstjórn.

En þetta verða fróðleg úrslit um helgina og við stjórnmálaspekúlantar hér við fjörðinn fagra fylgjumst öll vel með því. Einn spekingur sem ég hitti á kaffihúsi í gær vildi fá spá hjá mér um topp þrjú. Sagði ég kalt mat mitt verða að röðin yrði: Kristján - Lára - Bensi. Veit ekkert hvort staðan sé með þeim hætti, en ég efast ekki um að Kristján mun vinna þetta og að Lára verði "konan" í topp þremur. Óvissan hin mesta er um hver verði með þeim. Ég tel að Einar Már muni ekki ná í topp þrjú, ef svo er verður það óvænt.

Verður allavega áhugavert að sjá stöðuna við lok talningar og hvernig listi Samfylkingarinnar hér í kjördæminu verður.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Arnarsson

þú spáir mér ekki þriðja

Sveinn Arnarsson, 2.11.2006 kl. 19:57

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Elsku Svenni minn, ég sagði að þetta væri kalt mat, en ekki óskaspá mín. Það væri óskandi að það kæmist ungliði að svosem, enda var enginn ungliði á lista Samfó hérna síðast. En þetta verður spennandi helgi, ég vona að þér muni ganga vel. :)

Hittumst bráðum og fáum okkur kaffibolla og spjöllum um pólitíkina, tja við gætum krufið prófkjörið saman eftir helgina. ;)

Stefán Friðrik Stefánsson, 2.11.2006 kl. 20:01

3 Smámynd: Sveinn Arnarsson

Díll, eftir próf á þriðjudaginn....

Sveinn Arnarsson, 2.11.2006 kl. 20:06

4 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Alltaf gaman að lesa pistlana þína, fáir hafa meiri áhuga á pólitík. Verður gaman að sjá hversu gott nef þú hefur fyrir Samfylkingarstöðunni;-)

Lára Stefánsdóttir, 2.11.2006 kl. 23:21

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Kærar þakkir Lára mín fyrir góð og notaleg orð. Vonandi gengur þér vel um helgina.

Stefán Friðrik Stefánsson, 2.11.2006 kl. 23:48

6 identicon

Eru forystumennirnir ekki bara að hafna Benedikt ?

Siggi (IP-tala skráð) 3.11.2006 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband