Sagnasjóður Össurar

Össur Skarphéðinsson Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hefur verið einn líflegasti bloggari landsins síðan að hann missti formennsku flokksins til svilkonu sinnar - hann hefur notað bloggið til að endurbyggja sig pólitískt eftir mikið áfall á sínum stjórnmálaferli. Hann hefur eflst við það og treyst stöðu sína með líflegum skrifum. Það er alltaf gaman að öflugir og vel ritfærir menn notfæri sér þennan vettvang. Össur er ættaður að hluta að vestan og hefur sagnagáfu þaðan, sem sést vel í tali og riti af hans hálfu.

Síðustu vikur hefur Össur skrifað af nokkrum krafti um innanbúðarmál í Sjálfstæðisflokknum með kostulegum hætti. Þar hefur hann sett sig í stellingar sagnakappa fortíðar og eiginlega komið með nútímaútgáfu af vígaferlum og átökum. Virðist hann heimfæra slíkan sögustíl yfir á Sjálfstæðisflokkinn. Ég veit vel að Össur er skemmtilegur og hress kall, en finnst mjög merkilegt að lesa þessi skrif, hafandi starfað nokkuð lengi innan Sjálfstæðisflokksins. Öllum er frjálst að skrifa og hafa skoðanir á málum en þessi sagnastíll vekur athygli svo sannarlega. Ekkert nema gott um það að segja svosem. En þetta er kómísk vígaferlissaga.

Einkum vekur hann athygli vegna þess að Össur fjallar lítið orðið um pólitísk baráttumál sín og stöðu Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni. Ekki hef ég enn séð t.d. greiningu hans á prófkjöri flokksins í Norðvesturkjördæmi, né heldur á nýrri skoðanakönnun Gallups sem sýnir Samfylkinguna með 16 þingsæti, verandi með 20 á þessum tímapunkti á þingi. Það hentar greinilega ekki að skrifa um stöðu flokksins eða útkomu eina sitjandi þingmanns Samfylkingarinnar í prófkjöri í Norðvestri. Það er svosem skiljanlegt, við áttum okkur öll á því hversvegna það hentar ekki sagnaskáldinu góða þessar vikurnar. En öll hljótum við að fagna áhuga hans á Sjálfstæðisflokknum.

Er ég einn um það að vera á þeirri skoðun að Össur hafi áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum? Flokknum sem mælist með 43% fylgi landsmanna þessar vikurnar, í nýjustu mánaðarkönnun Gallups. Það gerðist á sama tíma og gamall kjördæmahöfðingi Össurar innan Samfylkingarinnar upplýsti um að hann hefði verið hleraður eftir þrettán ára þögn sína um það og allt að því ásakanir fjölda vinstrimanna um að hér hefði verið rekin einhverntímann leyniþjónusta á vegum Sjálfstæðisflokksins. Sú tugga heyrðist á sömu stund og þetta hlerunartal sumra manna. Það má vel vera að þeir hafi áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum. En líti hver maður sér nær, segi ég.

Samfylkingin er ekki að lifa í neinni gósentíð þessar vikurnar - það sýna kannanir. Það er merkilegt að þingmaður í prófkjörsbaráttu hefur fátt þarfara um að skrifa en fabúleringar um aðra flokka og ástandið innan þeirra. Össuri hefur orðið mjög tíðrætt um Björn Bjarnason og talar um pólitískt áfall hans, eftir að hann lenti í sama sæti og hann fékk í síðasta prófkjöri. Hvernig mun annars Össur Skarphéðinsson skrifa um sig með sagnasnilld ef hann nær ekki leiðtogastól í prófkjöri flokksins um aðra helgi, hafandi leitt lista flokksins og verið í fyrsta sæti í síðasta prófkjöri flokksins? Hvernig skrifar hann um eigin ófarir tapi hann fyrir aldursforsetanum Jóhönnu Sigurðardóttur?

Ég hef gaman af Össuri og skrifum hans. Það er alltaf nauðsynlegt að menn séu virkir að skrifa. Ég bíð samt eftir að hann skrifi eitthvað um stöðu Samfylkingarinnar, eftir könnunina og fleiri þætti. Hvernig sturlungulýsingu á vígaferlum mun hann annars skrifa um sjálfan sig missi hann annars leiðtogatign í prófkjöri og formennsku flokksins allt á sama kjörtímabilinu? Þegar stórt er spurt verður annars oft fátt um svör. En haltu áfram að skrifa Össur, ég les þig meðan að í mér rennur pólitískt blóð í æðum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband