Mikil samstaða um nýtt fjölmiðlafrumvarp

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Um fá mál hefur verið deilt meira í seinni tíð í íslenskum stjórnmálum en löggjöf um fjölmiðla og beitti forseti Íslands í fyrsta skipti 26. greininni gegn slíkri lagasetningu sumarið 2004. Það var mikið átakaár og tekist á af gríðarlegum krafti milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu. Síðan hefur forystumönnum stjórnmálaflokkanna tekist að færa málið allt upp á hærra plan og náðist góð samstaga um meginhluta nýrrar löggjafar um málið í nefnd menntamálaráðherra (skýrsla nefndarinnar).

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, mælti í gær á þingi formlega fyrir nýjum fjölmiðlalögum og var lífleg umræða á þingi eftir framsögu hennar. Virðist góð samstaða einkenna tal stjórnmálamanna um fjölmiðlafrumvarp nú - það er gleðiefni svo sannarlega. Um fjölmiðlamálið hið fyrra var rætt í yfir 100 klukkustundir, aðeins EES var rætt lengur á þingi en það. Var enda mjög líflegt að fylgjast með umræðum um fyrra frumvarpið fyrir tveim árum. Sérstaklega misstu menn húmorinn yfir annarri umræðu er stjórnarandstæðingar lásu upp úr ljóðabókum og fleiri ritum fjarlægum málinu sem slíku.

Samkvæmt nýja frumvarpinu er eignarhald á fjölmiðli takmarkað við 25% ef markaðshlutdeild er meira en þriðjungur. Þetta er því í meginmáli það sem kom fram í nefndinni og er ánægjulegt að hægt sé að fara í þingið og ræða þetta á þeim grunni að menn séu meira og minna sáttir við undirstöður málsins og halda með það út úr skotgröfunum, sem einkenndu deilurnar fyrir tveim árum. Það var til marks um samstöðuna sem yfir málinu er að fyrsta umræða stóð ekki mjög lengi. Eina sem virtist vera greinanlegt af gagnrýni í málflutningi stjórnarandstöðunnar var að ekki skyldi málið rætt um leið og frumvarp til laga um Ríkisútvarpið.

Fjölmiðlamálið árið 2004 var eins og fyrr segir mikið hitamál. Öll hljótum við að fagna því að ekki sé annar eins hasar í uppsiglingu. Í haust skrifaði ég ítarlegan sögupistil um fjölmiðlamálið anno 2004 og bendi að sjálfsögðu á hann hér með.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband