Spennandi prófkjörshelgi hjá Samfylkingunni

Samfylkingin Það stefnir í spennandi prófkjörshelgi hjá Samfylkingunni. Um helgina verða kjörnir tveir nýjir kjördæmaleiðtogar hjá flokknum í prófkjörum í Suðvestur- og Suðurkjördæmi, í stað Rannveigar Guðmundsdóttur og Margrétar Frímannsdóttur, sem hætta á þingi í kosningunum að vori, eftir langan stjórnmálaferil. Telja má öruggt að mikil spenna verði í báðum prófkjörum og hefur verið hörð barátta um leiðtogastólana í báðum kjördæmum.

Í Suðurkjördæmi hefur verið hörð barátta á milli Björgvins G. Sigurðssonar, Jóns Gunnarssonar, Lúðvíks Bergvinssonar og Róberts Marshall um leiðtogastól Margrétar Frímannsdóttur, sem hefur leitt lista á Suðurlandinu síðan 1987, en Róbert nefnir reyndar annað sætið líka inn í það á hvað hann stefnir. Er ljóst að ekki munu allir verða sáttir við úrslit helgarinnar, enda er tryggt að ein kona muni komast upp á milli þeirra og virðast flestir reikna með að Ragnheiður Hergeirsdóttir, leiðtogi Samfylkingarinnar í Árborg, verði sú kona sem nái að komast ofarlega.

Virðist í fljótu bragði vera mesti hasarinn á milli Björgvins og Lúðvíks, enda er það visst uppgjör sömu hópa og síðast, en Lúðvík gaf kost á sér gegn Margréti Frímannsdóttur í prófkjöri flokksins í Suðrinu í nóvember 2002, en Margrét vann nokkuð nauman sigur, þó að henni væri sótt af krafti. Nú er Lúðvík með aðra stöðu, enda er Róbert Marshall ættaður úr Eyjum og sækir á sömu mið og hann. Það er víst að Björgvin G. Sigurðsson virðist hagnast mest á þessari stöðu. Það yrði mikið áfall fyrir Lúðvík, næði hann ekki að sigra prófkjörið og jafnvel verða illa úti tapi hann leiðtogaslag og falli niður listann. Þetta verður hörkubarátta milli þeirra.

Í Suðvesturkjördæmi takast Árni Páll Árnason, Gunnar Svavarsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir um leiðtogastól Rannveigar Guðmundsdóttur. Það er hörkubarátta sem gæti farið á hvern veginn sem er, þó ekki sé óvarlegt að reikna með því að Gunnar stórgræði á því að vera kandidat Hafnfirðinga til forystu, en Samfylkingin hefur eins og flestir vita hreinan meirihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og bærinn er mesta jafnaðarmannavígi kjördæmisins. Árni Páll er úr Kópavoginum og gæti grætt á því og svo er Þórunn með mesta þingreynslu allra frambjóðenda í prófkjörinu, og er orðin efst í kjördæminu utan Rannveigar og ætti sú reynsla að skila henni einhverju.

Um sætin fyrir neðan takast á t.d. Katrín Júlíusdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Gunnar Axel Axelsson, Jakob Frímann Magnússon, Jens Sigurðsson, Kristín Á. Guðmundsdóttir, Kristján Sveinbjörnsson, Magnús M. Norðdahl, Sandra Franks, Tryggvi Harðarson og Valdimar Leó Friðriksson. Það er ekki beinlínis auðvelt að spá eitthvað í stöðu mála, þó auðvitað sé Katrín með mjög sterka stöðu ofarlega á listann, verandi þingmaður og hafa hlotið góða kosningu í prófkjörinu í nóvember 2002. Það eru margir sem gefa kost á sér í prófkjörinu, alls 19 manns, og ekki munu allir fá það sem þeir vilja. Það verður fróðlegt að sjá röð efstu manna er yfir lýkur.

Þetta verða spennandi prófkjör hjá Samfylkingunni og sérstaklega fróðlegt að sjá hverjir hljóta leiðtogastólana í þessum kjördæmum og taki við af kjarnakonunum Rannveigu og Margréti. Auk þessa alls munu úrslit liggja fyrir á morgun í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Á morgun munu því línur liggja fyrir í öllum kjördæmum innan Samfylkingarinnar fyrir komandi kosningar, utan Reykjavíkur, en þar fer prófkjör fram laugardaginn 11. nóvember nk. En meira að því síðar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Guðmundur Árni Stefánsson var leiðtoginn í kjördæminu en ekki Rannveig Guðmundsdóttir

Siggi (IP-tala skráð) 3.11.2006 kl. 13:43

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Rannveig varð aftur leiðtogi Samfylkingarinnar á svæðinu þegar að Guðmundur Árni Stefánsson sagði af sér þingmennsku í september 2005. Það er hinsvegar svo sannarlega rétt að Guðmundur Árni var kjörinn leiðtogi árið 2002 en hann er ekki lengur leiðtogi flokksins á svæðinu. Rannveig var leiðtogi Samfylkingarinnar í gamla Reykjanesi árið 1999 og innan Alþýðuflokksins árið 1995, eftir afsögn Guðmundar Árna sem ráðherra. Fer annars nánar yfir þetta í þessari bloggfærslu þegar að Rannveig tilkynnti að hún væri að hætta á þingi.

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.11.2006 kl. 13:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband