Hvassar skeytasendingar milli Árna og Gunnars

Árni Johnsen Hvöss orð ganga nú á milli Gunnars Gunnarssonar, aðstoðarvegamálastjóra, og Árna Johnsen, alþingismanns, og hefur Gunnar ákveðið að kæra Árna fyrir ærumeiðingar í Morgunblaðsgrein í morgun. Það er orðið langt síðan að ég hef séð jafn harðorða yfirlýsingu gegn kjörnum fulltrúa og Gunnar beinir til Árna eftir þessi greinaskrif. Segir hann Árna vera Sjálfstæðisflokknum og þjóðinni til skammar.

Hef í sjálfu sér aldrei farið leynt með að ég vildi ekki Árna í þingframboð á síðasta ári. Fannst það rangt að hann færi aftur í framboð eftir alvarleg lögbrot sín fyrir nokkrum árum. Fannst það hvorki honum né Sjálfstæðisflokknum til góða. Fór meira að segja í viðtal á Stöð 2 til að tala gegn þingframboðinu eftir ítarleg bloggskrif. Er enn sömu skoðunar og finnst ekkert hafa breyst í þeim efnum að afleitt hafi verið að Árni hafi aftur farið á þing.

Enda sýnist mér það hafa sannast af því að Árna hefur ekki verið treyst fyrir trúnaðarstörfum innan flokksins, eftir að flokksmenn í Suðurkjördæmi völdu hann á þing, þó þeir hafi reyndar lækkað hann um sæti með útstrikunum á kjördegi og veikt pólitíska stöðu hans til muna. Hann hefur verið utangarðsmaður í þingflokknum. Var ekki treyst fyrir formennsku eða varaformennsku í þingnefndum eftir kosningarnar, né öðrum embættum, þó hann hafi átt fjórtán ára þingferil áður að baki er hann sneri aftur á þing.

Þegar að Einar Oddur Kristjánsson féll frá var Ólöf Nordal, nýliði á þingi, valin varaformaður samgöngunefndar fram yfir Árna. Árni hafði verið formaður samgöngunefndar áður, á árunum 1999-2001, er hann varð að segja af sér þingmennsku eftir að uppvíst varð um afbrot hans, sem mikið hefur verið fjallað um. Held að sagan muni dæma endurkomu hans á þing sem mistök og mér finnst forysta flokksins hafa fellt þann dóm vel með því að velja Árna ekki til neinna trúnaðarstarfa.

Árni gengur mjög langt í greinaskrifum sínum í dag og mér finnst hann ráðast ómaklega að Gunnari. Enda svarar hann vel fyrir sig og ætlar að kæra Árna. Má vera að Gunnar sé einum of hvassyrtur í yfirlýsingunni, en það þarf kannski ekki að koma að óvörum þar sem vegið er mjög að heiðri hans og þarf ekki að undrast að hann grípi til varna.

mbl.is Ætlar að kæra Árna Johnsen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Þór Gunnarsson

Góð grein hjá þér. Árni er búinn að brenna allar brýr að baki sér fyrir löngu. Ég sagði mig úr sjálfstæðisflokknum þegar hann settist á þing aftur. Ég á ekki lengur samleið með flokki sem er með Árna innan borðs. Hafði áður verið flokksbundinn og bæði í stjórnum sjálfstæðisféga í Reykjavík og Hafnarfirði, meira og minna frá 1984.

Í Alvöru talað.

Ólafur Þór Gunnarsson, 26.4.2008 kl. 20:27

2 Smámynd: Bumba

Jæja Ólafur, ég sagði mig úr Sjálfstæðisflokknum þegar Ragnheiður Ríkharðsdóttir var kosin á þing. Skaðræðisgripur. Með beztu kveðju.

Bumba, 27.4.2008 kl. 00:41

3 Smámynd: Landfari

Ég held því miður að Sigurður hafi rétt fyrir sér og einhver hafi nú stolið meiru en Árni og komist upp með það. Það réttlætir hinsvegar engan vegin það sem Árni gerði. Fyrir nú utan hvað hann þjóskaðist lengi við að viðurkenna verk sín.

Það er hinsvegar engum blöðum um að fletta að Árni er drífandi og fylgin sér í þeim málum sem hann tekur sér fyrir hendur. Ef þú vilt koma einhverju í framkvæmd er nú heppilegra að hafa Árna með sér en móti held ég.

Svo er eitt sem mig langar að fá álit ykkar á. Hvenær á einstaklingur, ef einhvern tíman, að fá uppreist æru. Einu ári, fimmárum , tíu árum eftir fullnustu dóms eða kanski aldrei. Nú fer það eftir brotinu en þjófnaður hefur hingað til ekki verið talinn með alvarlegustu glæpum landsins. Hafa menn ekkki setið átölulaust á þingi nýkomnir úr fangelsi fyrir umferðalagabrot. Eða var það fyrir að stela fiski framhjá vigt?

Hvað er ölvunarakstur hættulegur glæpur? Fá menn uppreist æru eftir slíkt brot eða fer það eftir því hvort þú varst stoppaður fyrir eða eftir áreksturinn? Fer það eftir því hvað þú ollir miklu tjóni? Eða hvort það varð dauðaslys?

Hvað ef þú ert dæmdur fyrir of hraðan akstur? Hvar eru mörkin? Fer það eftir aðstæðum eða bara tölunni á radarnum ufram töluna á skiltinu?

Landfari, 27.4.2008 kl. 00:46

4 Smámynd: Sævar Einarsson

Ég ætla ekki að tjá mig um téðan mann en ég skrifaði um þennan gjörning um daginn og má lesa um það hér

Sævar Einarsson, 27.4.2008 kl. 08:42

5 Smámynd: Sveinn Ingi Lýðsson

Árni var kosinn til trúnaðarstarfa í opinberu embætti sem alþingismaður.  Hann brást trúnaði og dró sér fjármuni og fénýti frá almenningi.  Almenningi sem hafði kosið hann til að gæta hagsmuna sinna.  Hann brást þeim trúnaði á hrapalegan hátt og hefur ekki sýnt neina iðrun vegna þess.  Brot í opinberu starfi, brot sem snúast að alþingi, kjósendum eru ekki sambærileg á nokkurn hátt við ölvunarakstur, kvótasvindl svo eitthvað sé nefnt.

Að kjósa síðan manninn aftur á þing er algerlega galið en sannar máltækið að kjósendur fá alltaf það sem þeir eiga skilið.  Þetta er svipað og gjaldkeri í banka sem drægi sér fé frá bankanum og viðskipavinum kæmi aftur til sömu starfa eftir að hafa tekið út sína refsingu.   Væri nú ekki hepplegra að Árni fyndi sér aðra vinnu en þingmennsku, t.d. vantar vörubílstjóra sárlega  talsmann, fréttamannsstaða á Stöð 2 er laus auk þess sem hann gæti tekið að sér í hjáverkum ráðgjafarstörf á sviði jarðgangnagerðar. 

Sveinn Ingi Lýðsson, 27.4.2008 kl. 10:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband