Spenna hjá Framsókn í kraganum

Siv Friðleifsdóttir Á morgun verða efstu sæti Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi ákveðin á tvöföldu kjördæmisþingi. Verður þar kosið milli fjögurra einstaklinga um annað sætið og stefnir því í spennandi kosningu um sætið. Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, gefur ein kost á sér í fyrsta sæti framboðslistans. Siv, sem setið hefur á Alþingi frá árinu 1995, hefur sterka stöðu að því er virðist í kjördæminu og nýtur mikils stuðnings flokksmanna greinilega.

Þrátt fyrir að Siv hefði orðið undir í formannsslag við Jón Sigurðsson og ákveðið í kjölfarið að sækjast ekki áfram eftir ritarastöðunni í flokknum, sem er æðsta embætti innra starfs flokkskjarnans, (hún var ritari 2001-2006) hefur hún sterka stöðu og flestir telja hana hafa styrkst frekar en hitt. Siv leiddi lista flokksins í Reykjaneskjördæmi þegar árið 1995 og unnust tvö þingsæti á listanum þar undir hennar forystu bæði þá og 1999. Í kosningunum 2003 var hún ein kjörin á þing af hálfu flokksins í hinu nýja kragakjördæmi. Hún var umhverfisráðherra 1999-2004 og hefur verið heilbrigðisráðherra síðan í marsmánuði á þessu ári.

Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi og aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur í viðskiptaráðherratíð hennar 1999-2006, var í öðru sætinu í kosningunum 2003 og munaði litlu að hann kæmist inn á þing. Hann gefur ekki kost á sér nú og helgar sig störfum fyrir Kópavogsbæ. Um annað sætið takast á þau Gísli Tryggvason, Samúel Örn Erlingsson, Una María Óskarsdóttir og Þórarinn E. Sveinsson. Verður fróðlegt að sjá hvert þeirra fái sætið. Samúel Örn og Una María tókust á í prófkjöri Framsóknarflokksins fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar um leiðtogasætið að Sigurði Geirdal gengnum en urðu undir í þeim slag fyrir Ómari Stefánssyni. Una María var í þriðja sæti flokksins í kjördæminu í þingkosningunum 2003.

Gísli Tryggvason varð talsmaður neytenda fyrir rúmu ári og þykir hafa staðið sig með ágætum í því starfi. Hann er sonur Tryggva Gíslasonar, sem var skólameistari Menntaskólans á Akureyri með miklum krafti um árabil, og því bróðursonur Ingvars Gíslasonar, sem var alþingismaður Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra um árabil og um skeið leiðtogi flokksins í kjördæminu og var menntamálaráðherra í ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens. Þórarinn E. Sveinsson er fyrsti varaþingmaður Framsóknarflokksins nú hér í Norðausturkjördæmi. Hann hefur nú flutt sig um set og reynir við annað sætið í kraganum nú. Það er erfitt að spá hver muni ná öðru sætinu og munu allavega margir fylgjast með úrslitunum og hver nái settu marki.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig fer í þessu kjöri og jafnframt hvernig raðast í sætin fyrir neðan. Auk fyrrnefndra sem berjast um annað sætið og Sivjar sækjast Gunnleifur Kjartansson og Hlini Melsteð Jóngeirsson, sem báðir eru úr Hafnarfirði um neðri sætin. Eins og staða mála er í nýjustu könnun Gallups er Framsókn ekki með þingsæti í kraganum. Það er því hörð barátta framundan fyrir Framsókn í þessu kjördæmi, sem og mörgum fleiri. Staða flokksins er ekki beysin á landsvísu og hörð barátta, mikill lífróður, framundan fyrir Framsókn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband