Göngutúr í rökkrinu - prófkjörshugleiðingar

Kvöldrökkur Eftir opnun kosningaskrifstofu Kristjáns Þórs og Þorvaldar í dag og notalegt spjall um stjórnmál við góða félaga fór ég í þriggja kílómetra göngu í Kjarnaskógi með Hönnu systur eftir að hafa ritað bloggfærslu um prófkjörsmálin okkar. Það var notaleg og góð stund í kvöldrökkrinu. Það var um margt að tala og þetta var lífleg stund. Það jafnast ekkert á við góða kvöldgöngu.

Ég er bjartsýnn á næstu vikur fyrir okkur sjálfstæðismenn í kjördæminu vegna prófkjörsins eftir þrjár vikur. Það er gott fólk í kjöri, vissulega vonbrigði að það væru ekki fleiri, en það stefnir í lífleg en vonandi málefnaleg átök um leiðtogastólinn í kjördæminu. Persónulega gleðst ég yfir því að við öll fáum nú tækifæri til að velja okkur nýjan kjördæmaleiðtoga með þessum hætti, nú þegar að Halldór hættir forystustörfum í stjórnmálum eftir langt og farsælt verk fyrir okkur hér. Það er tækifæri sem á að efla okkur sem liðsheild, ekkert nema gott um það að segja.

Ég fann kraft í okkur flokksmönnum við opnun beggja prófkjörsskrifstofanna í dag og tel öflugan tíma framundan. Hver svo sem úrslit verða tel ég okkur há þennan prófkjörsslag með þeim hætti að þar myndist sigursveit til verka. Það er notalegt að geta skrifað og fjallað um mál næstu vikna með líflegum hætti og það hyggst ég vissulega gera. Það sem skiptir mestu máli er að háð verði barátta sem öllum sé til sóma og ég tel mig þekkja leiðtogaefnin öll það vel að ég tel að þannig verði baráttan unnin. Öll eru þau sómafólk sem geta höndlað forystuna með sóma.

Hver svo sem næstu skref verða tel ég okkur geta haldið öflug í komandi kosningabaráttu eftir prófkjörið. Það tækifæri sem okkur gefst nú hér í Norðausturkjördæmi er að móta öfluga liðsheild til verka í langri kosningabaráttu. Ég tel það verða áhugavert að sjá hvernig hún raðast upp og hver verði hinn nýi leiðtogi sem tekur við keflinu af Halldóri Blöndal.

Þegar að við kveðjum Halldór að lokum við lok þessa kjörtímabils er það hið allra besta sem við getum fært honum við leiðarlok þessa að sigra kosningarnar í vor með glans. Það er markmiðið - að því berjumst við öll sem eitt. Einfalt mál!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband