Samúel Örn í 2. sæti Framsóknar í Kraganum

Samúel Örn Erlingsson Samúel Örn Erlingsson, varabæjarfulltrúi í Kópavogi og íþróttastjóri Ríkisútvarpsins, vann kosningu um annað sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi, á kjördæmisþingi á Seltjarnarnesi nú laust fyrir hádegið. Samúel Örn vann nokkuð góðan sigur í kosningunni, en tvær umferðir þurfti til að velja á milli hans, Unu Maríu Óskarsdóttur, Gísla Tryggvasonar og Þórarins E. Sveinssonar, semsagt fjögurra Kópavogsbúa. Samúel Örn hlaut þegar 91 atkvæði í fyrstu umferð og því mjög afgerandi forskot á aðra keppinauta um sætið.

Yfirburðir Samúels Arnar koma nokkuð á óvart, enda er hann tiltölulega nýr í stjórnmálum. Hann var nærri því að sigra prófkjör Framsóknarflokksins í Kópavogi snemma á árinu og varð annar. Hann komst þó ekki inn í bæjarstjórn Kópavogs, enda galt flokkurinn afhroð í kosningunum og hlaut aðeins einn mann kjörinn, leiðtogann Ómar Stefánsson, í stað þriggja áður í síðustu kosningunum sem Sigurður Geirdal leiddi flokkinn þar. Það verður nú hlutskipti Samúels Arnar að taka annað sætið, sem Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi, sat í áður.

Í fyrstu umferð kjörs í annað sæti á lista flokksins hlaut Samúel Örn eins og fyrr segir 91 atkvæði, Una María 75 atkvæði, Gísli 60 og Þórarinn E. hlaut 11 atkvæði. Í seinni umferð hlaut Samúel Örn 148 en Una María 90 atkvæði. Eftir þessa kosningu tók við kjör í næstu sæti fyrir neðan. Una María Óskarsdóttir varð í þriðja sætinu og Gísli Tryggvason lenti í fjórða sætinu. Það verða því þrír Kópavogsbúar í fjórum efstu sætum flokksins í kjördæminu.

Það er merkilegt að sjá þessi úrslit og greinilegt að þarna eru nokkur tíðindi. Sigur Samúels Arnar eru nokkuð athyglisverð tíðindi allavega. Jöfn kynjaskipting er svo hjá flokksmönnum í þessi fjögur efstu sæti.

mbl.is Samúel Örn í 2. sæti í SV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband