Frjálslyndir mælast með engan þingmann nú

Guðjón Arnar Kristjánsson Var að fara yfir prósentutölur í kjördæmum í nýjustu skoðanakönnun Gallups. Þar kemur hið merkilega fram að Frjálslyndi flokkurinn fær hvergi kjördæmakjörinn mann og því væri Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, ekki á þingi væru þetta úrslit alþingiskosninga. Frjálslyndir mælast hæstir nú með 6% í Norðvesturkjördæmi en lægstir hér í Norðausturkjördæmi með 2%. Þetta er nokkuð högg fyrir Frjálslynda flokkinn, sem nú á þrjá alþingismenn.

Kosningalögin eru einföld hvað það snertir að fái flokkur ekki kjördæmakjör og fótfestu víða um land fær hann auðvitað ekki jöfnunarsæti. 5% fylgi á landsvísu þarf til að geta fengið jöfnunarsæti. Í síðustu kosningum hlutu Frjálslyndir tvo kjördæmakjörna menn og tvo jöfnunarmenn. Reyndar gekk Gunnar Örn Örlygsson, alþingismaður, úr flokknum vorið 2005 og gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og efldi því ríkisstjórnina með því.

Það eru mikil tíðindi þegar að formaður stjórnmálaflokks mælist ekki inni á þingi. Það virðist gilda nú bæði um Guðjón Arnar og Jón Sigurðsson, formann Framsóknarflokksins, sem mælist ekki heldur inni í Reykjavík norður eins og ég hef áður vikið að. Þetta verða erfiðar kosningar fyrir báða flokka að óbreyttu. Reyndar er mjög fróðleg greining á stöðu mála nú í greinargóðri spá Ólafs Þ. Harðarsonar á vef RÚV.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband