Konungsbók Arnaldar komin út

Konungsbók Í gær keypti ég nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar, Konungsbók, og ætla mér að lesa hana nú næstu daga. Það verður svo sannarlega notalegt að byrja lesturinn eftir helgina og er væntanlega von á góðri lesningu. Það er vænst góðrar sölu á bókinni, enda er hún prentuð í 15.000 eintökum, en það er mesta upplag einnar íslenskrar skáldsögu til þessa í fyrsta holli prentunar. Þarna eru Erlendur, Elínborg og Sigurður Óli víðsfjarri, heldur er farið á önnur mið í spennunni.

Þetta er tíunda skáldsaga Arnaldar. Sagan gerist að mestu í Kaupmannahöfn árið 1955 og tengist leyndarmáli sem snertir helsta dýrgrip Íslands, Konungsbók Eddukvæða. Aðalsöguhetjan er ungur íslenskufræðingur, Valdemar að nafni. Valdemar heldur til náms í Danmörku, kynnist þar gömlum prófessor og um leið skelfilegu leyndarmáli sem leiðir þá félaga í mikla háskaför um Evrópu, inn í skjalasöfn, grafhýsi, fornbókasölur og á fleiri hættustaði. Þetta er mögnuð og spennandi saga, ef marka má fréttatilkynninguna og umsögn um bókina á kápu.

Það er ekki hægt að segja annað en að Arnaldur sé orðinn einn virtasti spennusagnahöfundur Norðurlanda og fer frægðarsól hans sífellt hækkandi. Nýlega var ein besta skáldsaga hans, Mýrin, kvikmynduð og er hún á góðri leið með að slá öll áhorfsmet. Er það eitthvað sem allir aðdáendur bóka hans áttu vel von á. Bækur hans hafa selt í um þremur milljónum eintaka í á þriðja tug landa og hefur enginn íslenskur rithöfundur náð slíkri útbreiðslu. Í dag er ítarlegt viðtal við Arnald í Fréttablaðinu, sem áhugavert er að lesa.

Það er því heldur betur tilhlökkunarefni að hefja lesturinn á Konungsbók nú á næstu dögum. Hlakka heldur betur til, get ekki annað sagt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband