Kristján sigrar - Akureyringar ná ekki settu marki

Kristján L. MöllerÚrslit liggja nú fyrir í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Kristján L. Möller, leiðtogi flokksins í kjördæminu, sigraði í prófkjörinu með glæsibrag og hlaut um 70% greiddra atkvæða. Kristján hefur setið á þingi allt frá árinu 1999, fyrst leiddi hann lista flokksins í gamla Norðurlandskjördæmi vestra en hefur leitt listann í Norðausturkjördæmi frá árinu 2003. Sigur Kristjáns kemur fáum að óvörum sem fylgjast með pólitíkinni hér á svæðinu.

Einar Már Sigurðarson, alþingismaður frá Neskaupstað, vinnur mikinn varnarsigur með því að halda sínu öðru sæti. Lára Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri hér á Akureyri, náði ekki að sigra Einar Má í slagnum um annað sætið og vekur það nokkra athygli, enda lögðu Akureyringar mikið kapp á það að eiga fulltrúa sinn í öruggu sæti. Einar Már þótti vera undir í slagnum lengi vel og var talað um að hann myndi jafnvel ekki komast í efstu þrjú sætin. Niðurstaðan er því gleðiefni fyrir hann og væntanlega má hann vel við una.

Lára heldur sínu þriðja sæti en nær ekki settu marki. Það hljóta að vera vonbrigði fyrir hana í þeirri stöðu sem uppi er. Það er merkilegt að kona verður ekki í öruggu sæti á lista flokksins og enginn Akureyringur um leið. Þingmennirnir halda velli og verða prófkjörsúrslitin að teljast mikill sigur þeirra, enda að þeim sótt úr mörgum áttum. Benedikt Sigurðarson fær nokkurn skell og er langt frá því að ná settu marki. Hann stefndi á fyrsta sætið af krafti gegn Kristjáni og var langt frá því að ná því og fór frekar illa út úr þessu. Úrslitin verða því ekki túlkuð öðruvísi en mikil vonbrigði fyrir hann að öllu leyti. Það verður fróðlegt að heyra skoðanir Bensa á úrslitunum í kosningunni, en hann hefur ekki enn birst í viðtali.

Næst á eftir þeim þrem efstu koma Ragnheiður Jónsdóttir og Örlygur Hnefill Jónsson á Húsavík. Ragnheiður virðist fá mjög góða kosningu, en hún kom í slaginn nokkuð óþekkt í heildina séð. Örlygur Hnefill sem varð þriðji í prófkjörinu 2002 en færður niður fyrir Láru til að efla hlut kvenna á listanum fékk nokkurn skell og varð fimmti, því mun neðar en í síðasta prófkjöri. Jónína Rós frá Egilsstöðum fær hina fínustu kosningu. Neðstir eru svo ungliðarnir; Svenni bloggvinur og Kristján Ægir. Það veikti stöðu ungliðanna að þeir væru tveir báðir að stefna á sama sæti, en svo fór sem fór. Enginn ungliði var reyndar á lista flokksins í kjördæminu í síðustu kosningum.

Heilt yfir séð verður ekki annað sagt en að þessi prófkjörsúrslit séu allnokkuð áfall fyrir Akureyringana í framboði. Þau Lára og Bensi sóttu að þingmönnunum af krafti en urðu undir í þeim slag. Það er niðurstaða mála. Þetta hlýtur að vera mikið áfall fyrir Samfylkingarmenn á Akureyri, sem hafa langsterkasta stöðu á sveitarstjórnarstiginu innan flokksins á svæðinu einmitt hér á Akureyri, verandi með þrjá bæjarfulltrúa og tilvonandi bæjarstjóra eftir tæp þrjú ár, Hermann Jón Tómasson. En svona fór þetta fyrir þeim. Þessi tíðindi eru ansi stór og verða víða rædd hér í bænum væntanlega á næstu dögum.

Þetta færir okkur sjálfstæðismönnum mikil tækifæri í prófkjörinu eftir þrjár vikur og við berjumst nú fyrir því að Akureyringar komist í örugg sæti á okkar lista. Að öllu óbreyttu getum við tryggt að Akureyringur leiði lista og við vinnum að því af krafti. Það virðist vera að hjá okkur sjálfstæðismönnum séu nú einu líkurnar til staðar á því að Akureyringur leiði framboðslista í komandi kosningum í kjördæminu. Við munum væntanlega nota það tækifæri vel hér og vinna fyrir okkar fólk af krafti.


mbl.is Kristján Möller sigraði í prófkjöri Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Sæmundsdóttir

 Ef ég hefði verið flokksbundin þá hefði Kristján fengið atkvæði mitt. Hann hefur verið ötull talsmaður landsbyggðarinnar.

Sigrún Sæmundsdóttir, 6.11.2006 kl. 00:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband