Sögulegt afhroð - martröð fyrir Gordon Brown

Gordon BrownVerkamannaflokkurinn virðist dæmdur til að tapa næstu þingkosningum í Bretlandi eftir sögulegt afhroð í byggðakosningunum í gær, fyrstu kosningunum í leiðtogatíð Gordon Brown. Breskir kratar hafa tapað yfir 200 fulltrúum á landsvísu og hafa orðið fyrir álíka afhroði og Íhaldsflokkurinn í byggðakosningunum 1995, sem voru hinn augljósi aðdragandi endaloka valdaferils Íhaldsflokksins tveim árum síðar er Sir John Major tapaði stórt.

Hvergi í þessum kosningaúrslitum er vonarglætu að sjá fyrir Gordon Brown, sem hefur aðeins setið við völd í innan við ár. Hann þarf brátt að ákveða hvort boðað verði til þingkosninga á þessum tímapunkti eftir ár eða beðið með þær til loka fimm ára kjörtímabilsins vorið 2010. Jafnan hefur það þótt nokkuð veikleikamerki að bíða til loka fimm ára kjörtímabils með kosningar. Tony Blair gerði það aldrei á sínum valdaferli en John Major tók þá ákvörðun í báðum sínum kosningum sem flokksleiðtogi, 1992 og 1997, í þeim fyrri náði hann sigri á öllum könnunum en var sparkað í þeim næstu.

Í dag er ellefu ára valdaafmæli Verkamannaflokksins. Engum sem upplifði sögulegan kosningasigur árið 1997 hefði órað fyrir að Brown yrði svo vonlaus í hlutverki sínu sem eftirmaður Tony Blair, en hann hefur ekki séð til sólar síðan að hann heyktist á að boða til kosninga síðasta haust. Hann daðraði við þann möguleika vikum saman og fór í gegnum flokksþing án þess að svara spurningum og vangaveltum. Frá því að hann rann á svellinu hefur hann misst frumkvæðið og myndugleika sem stjórnmálamaður og virðist algjör klaufi. Brown var mjög sterkur sem fjármálaráðherra og þótti traustur og afgerandi í hlutverki sínu. Hann hefur hinsvegar þótt leiðinlegur og litlaus sem þjóðarleiðtogi.

Stóri vandi Verkamannaflokksins virðist vera valdaþreyta og óánægja kjósenda með Gordon Brown. Greinilegt er á könnunum að breskir kjósendur treysta honum ekki til að leiða þjóðina í gegnum efnahagsþrengingar og erfiðleika. Vinsældir Browns hafa hrunið á nokkrum vikum og á sér aðeins fordæmi í snöggu hruni Neville Chamberlain í lok fjórða áratugarins, er hann klúðraði sínum málum í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar. Aðeins er ár síðan að hann þótti eini maðurinn sem gæti tekið við af Blair með sóma og hann fékk ekki einu sinni mótframboð í leiðtogakjörinu.

Mesti áfellisdómur kjósenda yfir Brown fellst í því að þeir hafa algjörlega misst allt traust á forystu hans í efnahagsmálum. Hann var fjármálaráðherra Bretlands í áratug og þótti þar táknmynd stöðugleikans og valdsins. Var þar hinn trausti sem hægt var að treysta að gæti tekið á málum fumlaust og af ábyrgð. Honum hefur ekki gengið vel í efnahagsmálum í forsætisráðherratíð sinni og hefur misst þetta fræga orðspor sitt. Hann hefur hikað og þykir ekki með á stöðuna og virðist ekki fúnkera vel sem leiðtogi í mótlæti og þegar þarf að taka af skarið snöggt og ákveðið.

Eins og staðan er nú er Gordon Brown dæmdur til að tapa forsætisráðherraembættinu fyrr en síðar, annaðhvort í innri uppreisn innan Verkamannaflokksins, sem er í raun þegar komin af stað og á eflaust eftir að verða öflugri haldi mótlætið áfram, eða í næstu kosningum. Fálmurskennd vinnubrögð hafa einkennt forystu hans. Lítill agi hefur verið yfir stjórn Verkamannaflokksins, ráðherrar eru í sóló og þingmenn eru byrjaðir að láta til sín taka. Innan við ári eftir að Brown tók við er hann því kominn í sömu stöðu og Tony Blair var eftir tæpan áratug við völd.

Stóra spurningin nú er hvað muni gerast í London. Ef Ken Livingstone sigrar í borgarstjórakjörinu í London mun það verða mikilvægur sigur í þessu mikla afhroði. En tölurnar og staðan í þessum kosningum gefur það mjög til kynna að Rauði Ken hafi fengið sparkið á verkalýðsdaginn og Boris Johnson sé að verða borgarstjóri. Enn þarf að bíða tíu klukkutíma eftir þeim úrslitum. Tap Rauða Kens yrði um leið hið mikla auðmýkjandi tap fyrir Gordon Brown. Að tapa í London yrði verstu tíðindin í þessu afhroði.

Lífseigasta kjaftasagan í þinghúsinu í Westminster er að Brown verði sparkað með uppreisn innan frá eins og Margaret Thatcher ef borgarstjóraembættið í London tapast og hann taki sig ekki á. En er það ekki orðið of seint? Stutt er í þingkosningar. Kratarnir veðjuðu á reyndan mann með valinu á Gordon þegar að Tony Blair hætti. Ekki er auðvelt að losa sig við hann í þessu sögulega afhroði, rétt eins og íhaldsmenn sátu uppi með John Major um miðjan tíunda áratuginn.

Hið sama gildir um Brown nú og Major áður, eins og orðað var í frægu spakmæli "He looks weak, but he is much weaker really".


mbl.is Verkamannaflokkurinn tapaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband