Rauða Ken sparkað - Boris á sigurbraut í London

Boris og Ken Flest bendir til þess að Boris Johnson, þingmaður breska Íhaldsflokksins, verði kjörinn borgarstjóri í London í kvöld og velti þar með úr sessi Rauða Ken Livingstone, sem hefur verið borgarstjóri frá árinu 2000. Boris hefur yfirhöndina í talningunni og veðbankar eru orðnir svo vissir um sigur hans að þeir eru hættir að taka við veðmálum um að hann sigri í kosningunum.

Virðist sigurinn vera mun meira afgerandi en síðustu kannanir fyrir kjördag í gær gáfu til kynna, en þar virtist vera sem að þeir væru nær jafnir. Enn ber þó að taka tillit til hvað þeir kjósendur gera sem velja frambjóðanda tvö á kjörseðli en þau atkvæði eru tekin inn í heildarmyndina þegar að talið hefur verið hvaða frambjóðandi fékk flest atkvæði í sjálfu kjörinu. Hinsvegar eru fulltrúar allra flokka farnir að gera ráð fyrir að Boris verði borgarstjóri og sérstaklega er örvænting kratanna mikil í dag.

Fáir áttu von á því þegar að Boris gaf kost á sér sem borgarstjóraefni Íhaldsflokksins að hann yrði kjörinn borgarstjóri. Fyrir rúmu ári töldu flestir það vera formsatriði að Rauði Ken færi fram aftur og hlyti endurkjör, næsta auðveldlega eins og í kosningunum 2000 og 2004. Ekki var gert ráð fyrir að Íhaldsflokkurinn gæti gert sterkt tilkall til borgarstjórastólsins og margir töldu Boris vera flautuþyril og galgopa sem aldrei gæti fellt verkalýðskempuna Rauða Ken. Á nokkrum mánuðum hefur Boris breyst í sterkan frambjóðanda sem hefur tæklað Rauða Ken með mikilli snilld, sett hann út af sporinu og getað veitt honum verðuga keppni um hnossið.

Er Rauði Ken var kjörinn borgarstjóri í London árið 2000 fór hann fram sem pólitískur utangarðsmaður engum háður og barðist við flokksvaldið í Verkamannaflokknum. Tony Blair lagðist gegn því að hann yrði borgarstjóraefni flokksins og Frank Dobson, heilbrigðisráðherra fyrstu Blair-áranna, varð flokksframbjóðandinn. Rauði Ken fór fram sem óháður, sló við Dobson og barðist við Steve Norris um borgarstjórastöðuna og hafði betur. Þeir tókust aftur á árið 2004 og aftur hafði Rauði Ken betur. Átökin við Blair og félaga leiddu til þess að þeir ráku Rauða Ken úr flokknum en tóku hann síðar í sátt sem frambjóðanda flokksins árið 2004.

Átta árum síðar var baráttumóðurinn farinn úr Rauða Ken - hann var orðinn kerfiskall að mati kjósenda og þeir sáu ekki sama baráttukraftinn og styrkleikann og áður. Og nú er hann að falla af valdastóli sínum sem borgarstjóri í Lundúnaborg eftir sumpart stórmerkilegan stjórnmálaferil. Mikil tíðindi felast í falli hans. Úrslitin eru eitt mesta áfall Verkamannaflokksins í ellefu ára valdatíð sinni og er mikið kjaftshögg framan í Gordon Brown í skelfilegustu kosningum flokksins í yfir fjóra áratugi. Brown virðist heillum horfinn og er sennilega að gufa upp pólitískt í sömu mund og Rauði Ken.

Hin miklu stórtíðindi sem verða með kjöri Boris í borgarstjórastólinn boða þáttaskil í breskum stjórnmálum. Íhaldsflokkurinn drottnar yfir og hafa nú augljóslega yfirhöndina í aðdraganda næstu þingkosninga. Þessi afgerandi sigur í byggðakosningunum marka David Cameron sem væntanlegan forsætisráðherra í næstu kosningum, rétt eins og Tony Blair hlaut þann sess eftir afhroð íhaldsmanna árið 1995 og John Major tók að riða endanlega til falls.

mbl.is Útlit fyrir sigur Íhaldsflokks í Lundúnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: braveheart

Þetta eru virkilega góð tíðnindi.  Sagt er að kjósendur séu ekki par ánægðir með hinn stóra fíl í bóli verkamannaflokksins.  Þar er átt við evrópusambandið og usa.  Telja kjósendur að fullmikið af ákvarðanatöku mála í landinu sé tilkominn vegna þessa samkurls.  Það er ekki að falla í kramið lengur.  Það er vel skiljanlegt.  Þjóðir heims verða að sína karakter og efla innviði sín og stunda ekki of mikla utanríkispólitík. 

braveheart, 2.5.2008 kl. 18:36

2 identicon

Einhversstaðar las ég að Red Ken hafi einhverntimann sagt að það ætti engin að sitja þrjú kjörtímabil í embætti og að það sé að koma í hausinn á honum núna. Allavegna, ég hef fylgst með honum Boris í nokkur ár, hann kemur fram sem glaumgosi og glæframaður, en ég held að hausinn á þessum manni sé skrúfaður rétt á og að hann verði góður borgarstjóri fyrir London.

Baddi (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband