Boris kjörinn borgarstjóri - bresk hægrisveifla

Boris JohnsonBoris Johnson, þingmaður breska Íhaldsflokksins, hefur verið kjörinn borgarstjóri í London og tekist það sem fáir reiknuðu með að væri hægt; að sparka Rauða Ken Livingstone af valdastóli eftir tvö kjörtímabil við völd. Þetta er sætasti kosningasigur breskra íhaldsmanna frá því að John Major vann bresku þingkosningarnar árið 1992, þvert á allar skoðanakannanir, og boðar þáttaskil í breskum stjórnmálum eftir ellefu ára eyðimerkurgöngu Íhaldsflokksins.

Sigur Boris var mjög afgerandi miðað við kosningaspár og glæsilegt að sjá hversu traust þetta er. Úrslitin eru háðuglegur endapunktur á litríkum stjórnmálaferli verkalýðskempunnar Rauða Ken, sem talinn var ósigrandi af öllum fyrir ekki löngu síðan og talinn öruggur um auðvelt endurkjör. Boris var ekki spáð góðu þegar að hann fór í slaginn og talið að hann fengi útreið - Boris rúllar hinsvegar Rauða Ken upp með glæsilegum hætti. Þessi kosningasigur á eftir að verða örlagaríkur, enda eru augljóslega nýjir tímar framundan í breskum stjórnmálum.

Stórsigur Íhaldsflokksins á landsvísu er svo afgerandi að ekki verður neitað að vindar breytinganna eru í loftinu. Verkamannaflokkurinn tapaði vel á fjórða hundrað sveitarstjórnarfulltrúum í þessum kosningum og varð minni en Frjálslyndi Demókrataflokkurinn í heildarfylgi talið. Um er að ræða, eins og fyrr sagði í dag hér á vefnum, mesta afhroð Verkamannaflokksins frá því snemma á sjöunda áratugnum. Úrslitin eru pólitísk martröð fyrir Gordon Brown og veikir stöðu hans til muna. Tapið í London eitt og sér er sögulegt og því verður ekki neitað lengur að mjög fjarar undan Verkamannaflokknum. Kannanir voru eitt en þetta er annað.

Rauði Ken fer eflaust beiskur frá þessu vandræðalega tapi í borgarstjórakosningunum. Efast ekki um að hann mun kenna Gordon Brown um að vera sparkað úr borgarstjóraslagnum með svo auðmýkjandi hætti. Staða Gordon Brown er ekki hótinu betri en sú sem blasti við John Major vorið 1995 og greinilegt að hann er dæmdur til að missa völdin fyrr en síðar. Vonandi verður það í kosningum, en það væri vissulega dramatískt ef hann yrði gerður upp innan eigin raða fyrr en síðar. Auðmýkjandi endalok eru ekki síður í kortunum fyrir Gordon Brown en Rauða Ken.

Mikil örvænting er meðal kratanna á þessum svarta degi þeirra. Þetta eru viss þáttaskil og greinilegt að framundan er fyrir fjölmarga að róa pólitískan lífróður og augljóst að þrýstingurinn á Gordon Brown að taka sig á, ella finna fyrir hitanum hjá þeim þingmönnum kratanna sem tæpast standa. Þetta er sama andrúmsloft og einkenndi Íhaldsflokkinn undir lok langrar valdatíðar, þegar að valdaþreytan var að sliga allt og leiðtoginn missti fótanna.

Fylgissveiflan til Íhaldsflokksins er svo mikil og afgerandi að helst minnir á einmitt stöðuna á miðjum tíunda áratugnum. Þá varð leiðtogi Verkamannaflokksins, ungur og sjarmerandi maður, táknmynd breytinganna og varð fulltrúi nýrra tíma gegn mönnum valdsins árum saman. Hið sama er að gerast núna - David Cameron hefur hið sama nú að bjóða.

Táknrænt verður ef Gordon Brown fær annan eins skell og John Major forðum daga í næstu þingkosningum. Þessi staða er klárlega í kortunum á þessum sæta sigurdegi breskra hægrimanna.

mbl.is Borgarstjóraskipti í Lundúnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentið Kristinn.

Já, þetta er gamaldags og sérstakt kerfi í Bretlandi. En það er heiðarlegt að því leyti að það kemur sterk stjórn með skýrar línur og afgerandi stefnu eins flokks. Henni er svo hægt að sparka ef hún stendur sig ekki. Það er hið heiðarlega við þetta.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.5.2008 kl. 00:31

2 Smámynd: Sigurjón

Þetta eru virkilega góðar fréttir fyrir okkur íhaldsmenn.  Skál!

Sigurjón, 3.5.2008 kl. 01:37

3 Smámynd: Óðinn Þórisson

Þetta eru frábær úrslit fyrir Íhaldsflokkinn og það að taka borgarstjórastólinn af Rauða Ken er mikið gleðiefni.
Staða Gordons Browns er afleit eftir þessi úrslit og nokkuð fyrirsjánlegt að hann er á leiðinni út úr pólitik.
Alemmenningur í Bretlandi hefur greinlega misst alla trú á Verkamannaflokknum og leitar nú til Íhaldsflokksins eftir nýjum lausnum og því fyrr sem Gordon Brown efnir til kosninga og leysir þjóðina úr fjötrum þessarar uppgjarfarstjórnar því betra fyrir Breta.

Óðinn Þórisson, 3.5.2008 kl. 10:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband