Örvænting Frjálslyndra í vondri stöðu

Magnús og Guðjón Það styttist óðum í þingkosningar. Það verður seint sagt að staða Frjálslynda flokksins sé góð núna. Útspil flokksforystunnar að gera innflytjendamálin að umræðuefni eru skiljanleg, sé litið til fylgisstöðu flokksins, sem verið hefur í stjórnarandstöðu frá því að hann náði fyrst þingsætum í alþingiskosningunum 1999. Í nýjustu mánaðarkönnun Gallups mælist hann með engan mann inni, ekki einu sinni formanninn Guðjón Arnar Kristjánsson í Norðvesturkjördæmi.

Yfirgangur Magnúsar Þórs Hafsteinssonar í umræðu um innflytjendamál í Silfri Egils nú um helgina sýnir vel örvæntinguna innan forystusveitar flokksins. Það dugar ekki fyrir frjálslynda að koma með kvótamálin enn einar kosningarnar sem umræðuefni. Þar þarf eitthvað nýtt. Þeir veðjuðu rétt á kvótamálin árið 2003 og græddu á því að mikið var talað um málin og náðu meiru fylgi til sín á þeirri umræðu en Samfylkingin sem talaði fyrir fyrningarleiðinni. Frjálslyndir fengu fylgissveiflu út á umræðuna, þó óljósar hugmyndir hafi einkennt talandann. Sama varð í kosningunum 1999. Þá tókst frjálslyndum að komast inn á kvótaumræðu aðeins fyrir vestan.

Það sést á öllu núna að kvótamálin eru ekki umræðuefni af sama þunga og var fyrir kosningarnar 2003. Örvænting er greinilega orðin innan veggja um hvert eigi að stefna. Það á greinilega að beina sjónunum að innflytjendamálunum og reyna að flagga þeim skoðunum sem fram komu í Silfrinu í dag hjá Magnúsi og Jóni Magnússyni, lögmanni. Það gerðist reyndar hægt og hljótt fyrir skömmu að smælingjaflokkurinn Nýtt afl gekk í eina sæng með Frjálslyndum. Ekki var það mikið rætt, enda ekki stórpólitísk tíðindi, sé litið til þess fylgis sem Nýtt afl fékk í kosningunum 2003, þrátt fyrir framboð í öllum kjördæmum. Það er enda engin furða að ekki vill sá flokkur fara fram aftur á eigin vegum.

Ég verð að segja það eins og er að mér hugnast ekki talsmáti varaformanns Frjálslynda flokksins í þessum efnum. Það verður vissulega að hafa reglurammann í lagi í þessum efnum, sem og öðrum. En mér finnst kuldalegt hvernig talað er og þetta eru ekki skoðanir sem mér líkar. Það er hinsvegar greinilegt að Frjálslyndir ætla sér að reyna að gera út á afstöðu og bjarga sér frá niðurlægingu í kosningum að vori með því. Ekki verður það frýnileg barátta tel ég og það verður kostulegt að sjá þá félaga Magnús og Jón, eftir að lögmaðurinn hefur verið hafinn upp til skýjanna í framboði í Reykjavík.

Ég verð aldrei þessu vant að taka undir með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur í skrifum á vef hennar. Strategía Frjálslyndra er að reyna að koma sér frá skelli í kosningunum með því að reyna að hala sig inn á þessari áherslu. Það blasir við öllum sem sáu Silfur Egils í dag. Það er ýmislegt svosem alltaf reynt í lífróðri í pólitík. Það gildir um Frjálslynda flokkinn eins og flest annað greinilega.


mbl.is Magnús Þór segir að það rigni yfir hann stuðningsyfirlýsingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband