Pólitískur lífróður hjá Gordon Brown

Gordon Brown Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, berst nú fyrir pólitísku lífi sínu eftir mesta afhroð Verkamannaflokksins í fjóra áratugi í byggðakosningunum á verkalýðsdaginn. Hann kom fram í fjölda spjallþátta í gærmorgun til að reyna að snúa vörn í sókn eftir martröðina miklu sem úrslitin voru óneitanlega fyrir stjórnmálaferil hans.

Horfði á viðtalið sem Adam Boulton, Egill Helga þeirra á Sky, átti við forsætisráðherrann. Þar kom Brown ekki vel út. Einhvernveginn er Brown algjörlega að spila sig út þessa dagana. Svolítið merkilegt að sjá eiginlega, enda var hann alltaf sá sterki þegar að hann ríkti í fjármálaráðuneytinu lengur en allir aðrir í breskri pólitík síðustu aldirnar, í ráðuneyti sem menn sátu almennt ekki lengi í. Hinsvegar hefur hann aldrei fundið fjölina sína sem forsætisráðherra eftir að Blair fór.

Gordon Brown hefur alltaf verið úthugsandi pólitískur klækjarefur. Það sást best í valdaátökum hans við Tony Blair bakvið tjöldin árum saman. Hann vann þann slag á sálfræðinni og tók helstu andstæðingana á taugum. Svo fór að hann fékk pólitískt ríkidæmi Tony Blair á silfurfati. Helstu Blair-istarnir lögðu niður skottið og sættu sig við orðinn hlut. Í upphafi náði hann mikilli pólitískri velgengni - eftir að hann daðraði við haustkosningar alltof lengi og guggnaði svo við það hefur hann virkað sem pólitískur heigull.

Pólitísk gæfa getur verið fallvölt. Það sem snýr upp í dag getur fallið niður á morgun. Það er Brown að læra nú eftir litríkan stjórnmálaferil sinn, sem lengst af markaðist af góðu gengi og rósrauðum valdadögum. Nú er veldi hans á fallanda fæti og andstæðingar hans innan flokksins þrengja að honum. Hafa nú sett honum tímaramma um að finna fjölina sína fyrir haustið. Afhroðið á verkalýðsdaginn var svo mikið að allir vita að það eru algjörir draumórar.

Pólitíski klækjarefurinn Brown beið í þrettán ár eftir tækifæri ferilsins, að leiða bresk stjórnmál úr hásætinu við Downingstræti 10. Sá ferill er á leiðinni í vaskinn. Hann er dæmdur til pólitískrar glöturnar fyrr en síðar eftir þessi úrslit sem hafa veikt hann það mjög í sessi að allir vita að hann verður aðeins millibilsleiðtogi. Minnir sífellt meir á John Major sem var dæmdur til að tapa árum saman og tapaði svo stórt að aldrei mun gleymast.

Þetta er staðan sem blasir við Brown og ekki miklar líkur á að hann bjargi sér úr þeirri pressu sem fylgdi hinu auðmýkjandi og sögulega tapi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband