Spennandi kosningar í Bandaríkjunum

Nancy Pelosi Þingkosningar verða í Bandaríkjunum á morgun. Það stefnir í hörkuspennandi kosningar, þar sem miklar sviptingar gætu orðið. Demókratar virðast halda inn í kosningarnar með forskot, sem hefur þó verið að minnka síðustu dagana. Óljóst er hvort þeir halda yfirhöndinni allt til enda. Sigur demókrata í kosningunum yrði táknrænn, enda hafa þeir verið valdalausir allt frá því að þeir misstu völdin í öldungadeildinni í þingkosningunum árið 2002.

Kosið er um alla fulltrúadeildina og hluta sæta í öldungadeildinni. Repúblikanar hafa ráðið í fulltrúadeildinni frá kosningunum 1994, þegar að meirihluti demókrata féll eftir fjögurra áratuga samfellda valdasetu. Demókratar náðu öldungadeildinni á sitt vald á árunum 2001-2003, en hafa annars verið valdalausir þar líka frá 1994. Ósigur repúblikana yrði um leið ósigur George W. Bush, forseta Bandaríkjanna. Segja má að kosningarnar séu einskonar kosningar um forsetann og pólitísk verk hans umfram allt annað. Þar séu átakapunktarnir í raun. Hvort fólk styðji hans stefnu eður ei.

Bush hefur síðustu daga reynt að leggja hönd á plóg fyrir flokk sinn í erfiðri stöðu. Það hefur gengið upp og ofan. Bush forseti er kominn að leiðarlokum á sínum stjórnmálaferli. Þetta er hans síðasta kosningabarátta sem í raun skiptir hann máli. Forsetinn getur ekki boðið sig fram í forsetakosningunum eftir tvö ár og því er hann að berjast fyrir áhrifum sínum á lokaspretti valdaferilsins. Það verður snúið fyrir hann í stöðunni missi flokkurinn annaðhvort fulltrúadeildina eða jafnvel báðar deildir þingsins. Staða mála mun sjást betur í fulltrúadeildinni þar sem öll sæti eru undir, en í öldungadeildinni eru aðeins nokkur sæti undir. Meirihluti repúblikana er 15 sæti í fulltrúadeildinni en 6 í öldungadeildinni.

Svo gæti farið að sigurvegari morgundagsins verði Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni. Myndu demókratar sigra yrði Pelosi forseti fulltrúadeildarinnar, fyrst kvenna. Hún myndi því taka við af Dennis Hastert, sem stýrt hefur deildinni allt frá árinu 1999, og er orðinn með þaulsetnustu forsetum í sögu deildarinnar. Fall repúblikana í deildinni yrði sögulegt og um leið myndi sigur á morgun byggja demókrata upp fyrir komandi átök, t.d. um Hvíta húsið. Það er öllum ljóst að Bush og hans innsti valdakjarni fer frá eftir rúm tvö ár og fer ekki aftur í kosningar. Það munu blasa við nýjar áherslur innan Repúblikanaflokksins er nýtt forsetaefni stígur þar fram.

Það verður fróðlegt að fylgjast með á morgun og sjá hvernig fer. Það stefnir allt í mjög spennandi og sviptingamiklar kosningar í Bandaríkjunum.

mbl.is Spennandi kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband