Björgvin með forystu í spennandi talningu

Samfylkingin Talning stendur nú yfir í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, sem fram fór á laugardag. Þegar talin hafa verið 2000 atkvæði eða 40% er Björgvin G. Sigurðsson, alþingismaður, í fyrsta sætinu. Í öðru sæti er Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarfulltrúi í Árborg, og svo koma þeir Róbert Marshall, fjölmiðlamaður, Lúðvík Bergvinsson, alþingismaður, og Jón Gunnarsson, alþingismaður. Björgvin leiddi líka eftir fyrstu tölur fyrir innan við klukkutíma en Róbert komst upp fyrir Lúðvík í þriðja sætið í öðrum tölum.

Það stefnir í sigur Björgvins G. Sigurðssonar í prófkjörinu. Athyglisvert er að sjá það pólitíska áfall sem Lúðvík Bergvinsson er að verða fyrir eftir tæplega tólf ára þingmannsferil, en hann er nú kominn í óöruggt sæti skv. skoðanakönnunum og Jón Gunnarsson virðist fallinn skv. þessu úr þingsæti. Athyglisverður er árangur Björgvins og Ragnheiðar, sem koma af svipuðu svæði, og hafa greinilega gert með sér öflugt bandalag.

Það stefnir því í að Björgvin G. Sigurðsson verði eftirmaður Margrétar Frímannsdóttur sem leiðtogi Samfylkingarinnar í Suðrinu. Það verður væntanlega fylgst með því hvernig fer í Suðurkjördæmi. Flokkurinn hlaut þar flest atkvæði í kosningunum 2003 og fjóra þingmenn kjörna, vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn veiktist vegna klofningsframboðs. Skv. nýjustu mánaðarkönnun Gallups er Samfylkingin stærst þó á landsvísu í Suðrinu með tæp 30% og þrjú sæti.

Viðbót - kl. 20:20

Þegar að talin hafa verið 3500 atkvæði nú í kvöld á Selfossi er röð efstu manna óbreytt frá því sem var kl. 18.40 er aðrar tölur voru lesnar. Skv. vef Samfylkingarinnar munar nú aðeins fjórum atkvæðum á Ragnheiði Hergeirsdóttur og Lúðvík Bergvinssyni í annað sætið. Það stefnir í spennandi lokastundir talningarinnar, en alls eru 5146 atkvæði. Úrslit ættu að vera ljós fyrir kl. 22.00.

Viðbót - kl. 20:55

Þegar talin hafa verið 4000 atkvæði er staðan óbreytt. Munurinn á Ragnheiði og Lúðvík í annað sætið er nú örlítið meiri, en þó aðeins 13 atkvæði. Mesti slagurinn virðist nú vera um það hvort að Lúðvík haldi sínu öðru sæti.

Viðbót - kl. 21:20

Þegar talin hafa verið 4700 atkvæði hefur Björgvin sigrað prófkjörið. Forskot hans er orðið það mikið að enginn getur náð honum. Lúðvík hefur náð öðru sætinu af Ragnheiði, sem féll í það fjórða við það. Þrír karlmenn eru því nú í þrem efstu sætunum.

mbl.is Björgvin efstur í prófkjöri Samfylkingar á Suðurlandi skv. fyrstu tölum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband