Obama á sigurbraut - útgönguleið fyrir Hillary

Hillary og Obama Ekki er lengur spurning um hvort heldur hvenær Barack Obama hljóti formlega útnefningu demókrata sem forsetaefni flokksins í kosningunum í nóvember. Síðustu dagana hefur orðið æ augljósara að Hillary Rodham Clinton á ekki lengur raunhæfa möguleika á útnefningunni og endataflið, sem margir töldu að myndi ekki hefjast fyrr en síðla mánaðar eða í byrjun júní þar sem ofurfulltrúar kláruðu dæmið, er hafið.

Niðurstaðan í forkosningunum á þriðjudag var mikið áfall fyrir Hillary. Henni mistókst að ná afgerandi sigri í Indiana og ná að halda í við Obama í Norður-Karólínu, en alltaf var ljóst að hann myndi taka fylkið. Sigur þar var held ég aldrei raunhæfur möguleiki fyrir Hillary. Tölfræðin í þessum slag er mjög einföld; Hillary nær ekki útnefningunni nema þá að Obama verði einfaldlega rændur sigri, sem hann hefur náð á öllum sviðum; í þingfulltrúum, fjölda fylkja og atkvæðafjölda.

Eina vonin fyrir Hillary nú er að Michigan og Flórída verði tekin með í dæmið og að ofurfulltrúarnir sjái að Obama geti ekki náð alþýðufylginu og veðji þess í stað á hana. Æ ólíklegra er að þetta muni skipta máli og sýnist mér á öllu að þessi slagur verði búinn í síðasta lagi eftir rúma viku þegar að kosið er í Oregon og Kentucky. Þá muni Obama hafa náð útnefningunni eða verði það nærri henni að einfaldlega verði þá lýst yfir sigri; ekki verði beðið eftir að forkosningaferlinu ljúki þann 3. júní í Montana. Enda varla þörf á því í stöðunni.

Þegar að Obama fór í þinghúsið í Washington hópuðust þingmenn saman í kringum Obama, hvort sem þeir höfðu stutt hann eða Hillary. Var engu líkara en hann hefði þegar hlotið útnefinguna. Hann fékk móttökur sem hæfir sigurvegaranum einum. Æ augljósara verður að ofurfulltrúarnir veðja frekar á Obama nú og erfitt að sjá atburðarás sem snúi við því sem gerst hefur síðustu dagana. Andrúmsloftið í þinghúsinu sagði meira en mörg orð um hvernig pólitísku vindarnir blása í Demókrataflokknum.

Því er ekki viðeigandi lengur að tala um þetta sem alvöru kosningaslag. Þetta er búið og tímaspursmál aðeins hvenær Obama nær hnossinu mikla. Óvarlegt að mæla það í vikum, mun frekar í innan við hálfum mánuði, 8 til 10 dögum sennilega, jafnvel ekki svo mikið í sjálfu sér. Í þeirri stöðu spyrja sig allir að því hver verði útgönguleið Hillary Rodham Clinton. Þetta verður ekki árið þar sem kona verður í fyrsta skipti alvöru forsetaefni annars af stóru flokkunum, eins og margir höfðu spáð fyrir ekki löngu síðan.

Allt mun það ráðast af því hvenær Hillary áttar sig á stöðunni, eða öllu heldur sýnir merki þess að taflið er tapað, ekki sé unnt að sigra þessa refskák sem hún og Bill hafa spilað síðustu vikurnar eftir því sem harðnað hefur á dalnum. Barack Obama sendi skýr skilaboð í vikunni um að hann gæti vel hugsað sér að hún yrði varaforsetaefni hans í kosningunum. Hillary hefur unnið baki brotnu í baráttunni, verið dugleg og mjög einbeitt í sinni baráttu í erfiðri stöðu. Þrátt fyrir það varð þetta ekki árið hennar.

En hún hefur styrkleika sem Obama vantar, sem hann þarf að virkja í sannleika sagt. Hún heillar fjölda fólks sem honum hefur mistekist að fá til að kjósa sig, enda hefði hann náð útnefningunni fyrir allnokkru ef svo hefði orðið. Kannanir sýna að flokkurinn er illa klofinn og margir sem studdu Hillary geti ekki hugsað sér að styðja Obama sem forseta Bandaríkjanna. Gæti hinsvegar hugsað sér að styðja framboð með baráttukonunni sem þeir studdu heilshugar allt til endalokanna.

Hillary er komin í þá stöðu að fyrr en síðar verður hún að spyrja sig um hver verði pólitísk framtíð hennar. Langur slagur úr þessu mun skaða ekki aðeins hana heldur sögulega pólitíska arfleifð eiginmanns hennar sem 42. forseta Bandaríkjanna, hins vinsæla og heillandi forseta sem markaði söguleg þáttaskil með forsetasetu sinni, þó umdeildur hafi verið. Hún vill eiga sér pólitískt líf handan þessarar baráttu og leitar að útgönguleið.

Hillary veit að boð um varaforsetaútnefningu er ekki það sem stefnt var að, en yrði samt sem áður söguleg þáttaskil fyrir sig og konur - sárabót fyrir tapið í þessu um margt sögulega pólitíska einvígi fyrstu konunnar og fyrsta blökkumannsins sem berjast um Hvíta húsið með raunhæfa möguleika á því að hljóta hnossið. Hún yrði fyrsta konan sem varaforseti ef Obama myndi vinna, en ella búa í haginn fyrir forsetakosningarnar 2012.

Ef Obama tapar myndi hún því eiga sér líf og ná að eiga tækifæri; hvort heldur yrði sem forsetaefnið sem sætti sig við tap og hóf sig upp úr þeim öldudal með sögulegum pólitískum sáttum eftir harðan slag. Hún gæti orðið fyrsti kvenvaraforsetinn eða flokksleiðtogi demókrata í öldungadeildinni og forsetaefni síðar með sáttum. En þessi möguleiki verður ekki opinn endalaust, heldur ræðst af því hvenær hún sættir sig við endalokin.

Ted Kennedy hefur af gömlum vana talað gegn Clinton-hjónunum og lét sér fátt um finnast um augljóst boð Obama til Hillary um sameiginlegt framboð og um leið að ljúka þessum harðvítuga slag með sáttum. Stuttu síðar hafði Ted slegið af orðalaginu og leiðrétti það sem hann raunverulega meinti. Augljóst var hver tók í þá spotta.

Hillary ræður því úr þessu hversu erfiður slagurinn verði fyrir Demókrataflokkinn og hvort alvöru sættir náist. Í taflinu getur hún samið sig út sem taktískan sigurvegara með því að ná sáttum á mikilvægu augnabliki, þrátt fyrir tapað pólitískt tafl og erfiða stöðu. Í tapi getur nefnilega viss sigur falist, er til lengri tíma er litið.

mbl.is Búið spil fyrir Clinton?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óðinn Þórisson

Það virðast vera mjög fáir sem í dag telja að hún verði útnend. Það er samt mjög mikilvægt að hún haldi áfram því það mun stykja framboð John McCains og auka líkurnar að erfitt verði að ná sáttum í Demókrataflokknum.

Ég hef enga trú á því að Obama taki Clinton sem varaforsetaefni, meiri trú á Edwards en raun og veru skiptir það ekki máli því í mínum huga er óhugsandi að Demókrati setjist í forsetastól - McCain verður forseti með núverandi utanríkisráðherra sem varaforseta.

Óðinn Þórisson, 11.5.2008 kl. 10:05

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Held að það sé mjög stutt eftir í þessum slag. Þar sem engin er trúverðug baráttan er engin barátta. Er ekki flóknara en það svosem. Hún tekur forkosningarnar á þriðjudag og þriðjudaginn þar á eftir. Held að það verði endapunkturinn. Þetta verður búið 20. maí, allavega sem alvöru keppni. Staðan er bara þannig að lengri barátta mun leggja bæði Hillary og Bill í rúst.

Mér finnst líkur hafa aukist á því að Obama muni bjóða Hillary varaforsetaútnefningu. Hann þarf á stuðningi hennar að halda til að vinna McCain. Hann er klókur og veit hvað þarf og ennfremur veit hann að Hillary er mjög dugleg og samviskusöm. Styrkleikar hennar eru mjög miklir þrátt fyrir tapið.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 11.5.2008 kl. 10:16

3 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Ég er vissulega ekki á móti Barack Obama og óska honum alls hins besta í nútíð sem framtíð. Við verðum samt að spyrja að leikslokum, er það ekki ? Ég heyrði á

CNN seint í gærkveldi, að Barack Obama áliti sjálfur, að munurinn á sér og frú Hillary Rodham Clinton í svokölluðum ofurfulltrúum væri bara einn honum í hag!

Ég vil þakka þér, kæri bloggvinur, fyrir framúrskarandi grein, því að greinar þínar eru jafnan vel skrifaðar, skemmtilegar og fræðandi eins og gott blogg á að vera.

Með bestu kveðjum frá Siglufirði, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 11.5.2008 kl. 10:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband