Veik staða Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins Mér finnst staða borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík mjög veik og tel að það hafi verið mikil pólitísk mistök að taka ekki af skarið um leiðtogasætið í vandræðunum í febrúar, þegar öllum var ljóst að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hafði hvorki styrk né stöðu til að vera áfram leiðtogi. Enda hefur hann verið mjög veiklulegur sem stjórnmálamaður síðan og varla leiðtogi í raun.

Mér finnst heiðarlega og vel skrifað um málefni borgarstjórnarflokksins í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag. Allir vita að eitthvað er stórlega að hjá flokknum í borginni. Þar vantar alvöru forystu og myndugleika. Ef ekki verður snúið við blaðinu á næstu mánuðum mun Sjálfstæðisflokkurinn í borginni verða fyrir þungu áfalli í borgarstjórnarkosningunum eftir tvö ár að mínu mati. Hópurinn verður aldrei sterkari en leiðtoginn, sé hann veikburða verður hópurinn það allur. Tel að þetta sé aðalvandamálið nú.

Stóra lausnin, og sú eina rétta, á þessum málum er að velja sem allra fyrst nýjan borgarstjóra í Reykjavík, sem tekur við af Ólafi F. Magnússyni í mars 2009. Óþarfi er að geyma það val lengi og mjög óheppilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hafa þau mál í lausu lofti lengur en fram á haustið, þó helst væri betra að taka af skarið helst í sumar með það. Með vali nýs forystumanns munu markast nýjar og skýrar línur í aðdraganda næstu kosninga og tekið af skarið með það sem tekur við.

Mikilvægt er að gefa nýjum leiðtoga góðan tíma til að vinna sig í sessi og því hefði þetta val átt að fara fram í febrúar. Þegar að vandræðin geisuðu vegna veikrar stöðu Vilhjálms Þ. í febrúarmánuði fannst mér hið eina rétta að hann myndi segja af sér leiðtogastöðunni en sæti áfram sem borgarfulltrúi. Það hefði verið rétti leikurinn þá, en mikilvægt er að ljúka þessum málum fljótlega.

Mikilvægt er fyrir Sjálfstæðisflokkinn á landsvísu að öflugur leiðtogi taki við forystunni í borgarmálunum. Forystuleysið og vandræðgangurinn sem hefur verið áberandi mánuðum saman mun aðeins líða undir lok með skýrum línum og vali á eftirmanni Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar.

mbl.is Ástandið veldur sjálfstæðismönnum áhyggjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Stefán Friðrik!

Ég er algjörlega sammála þér og Morgunblaðinu varðandi ástandið hjá borgarstjórnaflokki Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Ég er hreinlega ráðþrota varðandi áframhaldið, en finnst þó að illskásti kosturinn vera að gera sem fyrst út um hver eigi að taka við völdum sem borgarstjóri og gefa "henni" kost á að sanna sig.

Stundum þurfa stjórnmálamenn að brjóta odd af oflæti sínu - þrátt fyrir gífurlegan persónulegan metnað og sjálfstraust, sem nauðsynlegur er hverjum þeim er starfar í stjórnmálum - og setja framtíð flokksins ofar eigin hagsmunum. Að mínu mati er löngu komið að þessum tímapunkti.

Þetta gleymdist í Reykjavík í prófkjöri til síðustu alþingiskosninga - sbr. lágkúrulega aðför að Birni Bjarnasyni - og er sífellt oftar að endurtaka sig. Ég hefði oft óskað að gripið hefði verið inn í þessa atburðarráðs miklu fyrr af styrkri hönd. Það sem mig því miður grunar er að það hafi verið reynt , en að menn hafi samt farið sínu fram.

Menn mega og eiga að hafa mismunandi skoðanir á ýmsum málum innan svo stórs flokks sem Sjálfstæðisflokkurinn er og það á að sjálfsögðu að ræða þessar skoðanir og þar fer ég oft fremstur í flokki. Maður verður samt sem áður að sætta sig við álit meirihluta landsfundar eða hreinlega að skipta um stjórnmálavettvang. Það sem hér á sér stað er skortur á flokksaga og slíkt ber ekki að verðlauna, en um refsinguna sjáum við ekki heldur kjósendur.

Mér sýnist flestir þeirra, sem komið hafa að þessum málum innan borgarstórnar, hafa spilað rassgatið úr buxunum á undanförnum mánuðum. Það sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf á að halda í næstu sveitarstjórnarkosningum er að endurnýja að stórum hluta borgarstjórnarflokkinn. Ég hef trú á að fyrrverandi félagar mínir í borginni og aðrir sjálfstæðismenn sjái til þess að svo verði.

Kveðja, Guðbjörn Guðbjörnsson

Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.5.2008 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband